Nýr rauðakrossgámur á Þórshöfn
Á dögunum var komið upp fatagámi fyrir utan skemmu Landflutninga á Þórshöfn. Í tilkynningu frá Rauðakrossinum segir eftirfarandi: Í gámana er tekið við öllum fatnaði og annarri vefnaðarvöru. Beðið er um að fatnaðurinn sé hreinn og snyrtilega gengið frá honum í poka. Tekið er við allri vefnaðarvöru auk fata, s.s. dúkum, gluggatjöldum, rúmfötum og handklæðum. Slitin, götug og rifin föt nýtast líka.
Hægt að merkja pokana sérstaklega ef óskað er eftir því að fatnaðurinn fari ekki í endursölu.
Fatasöfnun Rauða krossins er ekki einungis frábær endurvinnsla heldur leggur fólk félaginu lið með því að gefa fatnað og styrkir neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis.
Fatnaður sem Rauði krossinn fær nýtist þannig:
- hann er seldur beint til útlanda
- hann er flokkaður og gefinn þurfandi hér á landi
- hann er flokkaður og gefinn þurfandi erlendis
- hann er flokkaður og seldur í Rauðakrossbúðunum
- hann er seldur í endurvinnslu, tættur niður í tróð eða nýjan spuna
Léttu á skápunum og legðu okkur lið!
Flytjandi sér endurgjaldslaust um flutninga á fatnaðinum en hann er allur fluttur til Reykjavíkur þar sem hann er flokkaður. Það er góður styrkur við verkefnið, en gríðarlega mikið af fatnaði kemur í móttökugáma um allt land.
Allur ágóði af fataverkefni Rauða krossins fer til mannúðarmála innanlands og utan.
Í april mun Rauði krossinn í Þingeyjarsýslu opna fatabúð við Garðarsbraut á Húsavík.
Sonja Súsanna og Þórarinn Þórisson við gáminn.