Nýr sjúkrabíll til Þórshafnar
Björgvin Árnason, sjúkraflutningamaður á Húsavík flutti bílinn til Þórshafnar þar sem sjúkraflutningamennirnir Þorsteinn Æ. Egilsson og Þórarinn J. Þórisson ásamt öðru starfsfólki, tóku vel á móti honum.
Bíllinn var áður í notkun á Húsavík en færir sig um set til Þórshafnar. Vinnuaðstaða og öryggi er mun betra í þessum bíl en þeim eldri og aðgengi að lyfjum og sjúkrabúnaði er nú góð. Í sjúkraflutningarýminu eru belti í sætum og sæti snúa í akstursstefnu en svo var ekki í eldri bílnum.
Þorsteinn Ægir og Þórarinn tóku vel á móti starfsbróður sínum frá Húsavík sem færði þeim nýja bílinn, sem mun koma að góðum notum í sjúkraflutningum í framtíðinni.
Þeir Þorsteinn og Þórarinn verða með opið hús í bílageymslu heilsugæslunnar á Þórshöfn, miðvikudaginn 8. júní frá kl. 15-17 og gefst almenningi þá kostur á að skoða nýja bílinn.