Nýskipan sorpmála
Nú er unnið að því hörðum höndum að endurskipuleggja sorpmál sem felur í sér að bjóða út hluta eða öllu leiti allt sem viðkemur sorpmálum. Ennfremur þarf að velja leiðir sem farnar verða varðandi fjölda tunna, flokkun, sorphirðu, förgun og flutning. Mesta vinnan liggur að í því að koma upp nýrri móttökustöð á Þórshöfn, skipulagi móttökunar á Bakkafirði og í dreifbýlinu.
Eftir sameiningu sveitarfélagana sitja íbúar ekki við sama borð varðandi sorphirðu og förgun og okkur er ljóst að það er hluti af því skipulagi sem verið er að koma á, að endurskipuleggja þennan hluta. T.d. er sorp hirt hjá íbúum norðan Hafralónsár en sunnan árinnar fara íbúar sjálfir með sitt sorp á grenndarstöð í dag.
Þetta er alls ekki einfalt mál enda sýnir þróun mála í nokkrum sveitarfélögum sem staðið hafa í sömu sporum að mörg mistök hafa verið gerð, einkum vegna þess að valdar hafa verið leiðir sem ganga illa upp eða að skipulagi hefur verið ábótavant. Ofan í þann pytt ætlum við ekki að falla.
Við reynum að vanda til verka og koma þessum málum í gott horf, draga úr kostnaði sem er óheyrilega hár miðað við tekjur sem er í raun ekki leyfilegt samkvæmt lögum.
Gengið hefur verið frá ráðningu umhverfisfulltrúa fyrir sveitarfélagið og það er Almar Marinósson sem mun koma til starfa i byrjun mars. Hann mun sinna þessum málum alfarið ásamt því að vinna að snyrtilegu umhverfi okkar hér í Langanesbyggð og í raun vinna að öllum þeim málum sem snerta umhverfið. Við bindum miklar vonir við að á næstu árum verði Langanesbyggð, þéttbýli og dreifbýli á meðal snyrtilegustu sveitarfélaga landsins og setjum því markið hátt.