Nýstofnað Fjölmenningarfélag
Í Langanesbyggð eru allir velkomnir og viljum við taka vel á móti nýjum íbúum, hvaðan sem þeir koma. Til að leggja áherslu á þetta var stofnað Fjölmenningarfélag 12. nóvember síðastliðinn. Á stofnfundinn mættu rúmlega þrjátíu manns, frá fimm þjóðum. Boðið var upp á kvöldmat og áttu fundargestir saman góða stund.
Hulda Karen Daníelsdóttir kennsluráðgjafi í nýbúakennslu var á fundinum og hélt smá fyrirlestur og gaf ráðleggingar og hugmyndir fyrir nýstofnað félag.
Í stjórn voru kosnir Hilma Steinarsdóttir, Ina Leverköhne, Krzysztof Krawczyk, Mariusz Przemyslaw Swierczewski, Steinfríður Cathleen Alfreðsson og varamenn Jóhanna Sigríður Jónsdóttir og Sandra Gabriela Sadowska.
Stofnun þessa félags kemur til vegna þróunarverkefnis sem skólarnir í Langanesbyggð vinna að og kemur styrkurinn frá Þróunarstjóði innflytjendamála. Þær Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Hilma Steinarsdóttir og María Guðmundsdóttir stýra verkefninu.
Á vef Langanesbyggðar er flipi undir „Þjónusta“ sem heitir „Fjölmenning“ og þar undir má finna bæklinga með helstu upplýsingum um þjónustu, stofnanir og félagasamtök í Langanesbyggð, myndir og slóðir á gagnlegar heimasíður og þar munu koma inn fréttir og fleiri myndir frá Fjölmenningarfélaginu. Fylgist með! HS