Olía og gas: Vænlegt á Dreka
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir allgóðar líkur á að finna megi olíu og gas á Drekasvæðinu norðaustur af landinu. Hann segir stór og lítil fyrirtæki, aðallega frá nágrannalöndum, hafa sýnt mikinn áhuga á því.
Mikil vinna hefur nú þegar verið lögð í að rannsaka svæðið og nú þykir stjórnvöldum hér tímabært að láta á reyna, hvort áhugi sé á olíuleit og -vinnslu. Boðað hefur verið til kynningarráðstefnu í Reykjavík um Drekann í byrjun september, 80 þátttakendur hafa þegar boðað komu sína og hefur áhugi farið ört vaxandi undanfarið, segir iðnaðarráðherra. Jafnframt hefur verið kynnt opið útboð á leitar- og vinnsluleyfum.
Drekasvæðið á Jan Mayen hryggnum norðaustur af landinu.
Útboðið fer fram eigi síðar en um miðjan janúar. Um 100 leyfi verða boðin út. Össur segir gögn benda til, að jarðlög á þessu svæði séu samskonar og við Austur Grænland þar sem þegar hefur fundist gas, og á olíuvinnslusvæðinu við Vestur Noreg. Svæðið er um 40 þúsund ferkílómetrar að stærð. Hækkandi olíuverð og framfarir í leitar- og vinnslutækni eru helstu forsendur þess, að látið er á þetta reyna nú, en svæðið er erfitt til vinnslu enda dýpi allt að 2.000 metrum og illviðrasamt þar stóran hluta ársins.
Opið útboð er ný aðferð við úthlutun slíkra leyfa og hefur vakið mikla athygli. Fjölmiðlar, sérhæfðir í olíu-, orku- og viðskiptamálum hafa undanfarið fjallað mikið um það og virðist vera allnokkur áhugi á málinu víða um heim.
Össur segir allar líkur á að þegar á næsta ári verði hafin olíuleit á Drekasvæðinu, hins vegar hafi verið ákveðið að íslensk stjórnvöld muni ekki leggja áhættufé í leitina, því sé leitað eftir áhuga erlendra fyrirtækja. Þessi ákvörðun hefur ýtt frekar undir áhuga fjárfesta og orkufyrirtækja, þar sem víða um heim hefur verið að þrengjast um olíuvinnslu á vegum vestrænna fyrirtækja. Meðal annars í Afríku og Venezuela hefur einkafyrirtækjum verið gert erfiðara fyrir og ríkisfyrirtæki látin sitja að vinnslunni. Það þykir því sérstaklega áhugavert að Íslendingar hyggist ekki reka eigið olíufyrirtæki til leitar og vinnslu á Drekasvæðinu. Drekasvæðið er á norðausturhorni efnahagslögsögunnar og heitir svo eftir landvættinni á Austurlandi, drekanum sem er í skjaldarmerki Íslands.