Fara í efni

Ólíkir tónlistarheimar mætast á ferðalagi um landið

Fréttir

Í apríl munu söngvaskáldin Marína Ósk og Ragnar Ólafsson leiða hesta sína saman og spila á tónleikum um allt land. Marína Ósk og Ragnar hafa bæði komið komið víða við í íslensku tónlistarlífi og saman spanna þau vítt litróf tónlistarstefna. Sunnudaginn 21. apríl kl. 20:00 leika þau Í Þórshafnarkirkju. Miðaverð er 3500 kr.  Á tónleikaunum munu þau flytja saman tónlist hvors annars. Ragnar og Marína koma með ólík verk á sviðið en sameinast í heimi frásagna og einlægni. Þau tjá sig á ólíkan hátt í gegnum tónlist og hafa eigin stíl, og því einstök tónleikaupplifun í vændum.

Með þeim á ferðalagi um landið verður gítarleikarinn og pródúsentinn Kjartan Baldursson. Saman myndar þríeykið hljómsveit sem sjá mun um allan tónlistarflutning á ferðalaginu. Þess má einnig geta að bæði Marína og Ragnar vinna um þessar mundir að sólóplötu, í samstarfi við Kjartan. Marína Ósk hefur þrætt jazzhátíðir í Evrópu og eignast dygga hlustendur um allan heim og er með mikla mánaðarlega hlustun á Spotify. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir tónverk ársins í djassflokki og er orðin leiðandi afl á íslensku djasssenunni.

Ragnar hefur gefið út um 30 plötur á ferlinum og er þekktastur sem stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Árstíða, sem hefur ferðast um meira en 30 lönd í þremur heimsálfum og urðu heimsfrægir fyrir flutning sinn á laginu Heyr, himna smiður á lestarstöð í Þýskalandi. Þá hefur Ragnar einnig leikið með rokksveitum á borð við Sign og Sólstafi og látið til sín taka í heimi kvikmynda og sjónvarps. Hann var á síðasta ári tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir tónlistina í þáttaröðinni Vitjanir. Þau koma úr ólíku umhverfi tónlistarlega séð, en með þeim tókst vinskapur og listræn samvinna á Húsi máls og menningar, sem hefur nú leitt af sér útgáfu lags og tónleikaferðalag um landið allt, með 14 tónleikum á ólíkum viðburðastöðum, jafnt kirkjum sem börum.