Fara í efni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í hraðalinn STARTUP STORM - Vaxtarrými fyrir norðlenska sprota.

Fréttir

Startup Stormur er sjö vikna hraðall fyrir græn verkefni þar sem þátttakendur fá tækifæri til að efla sig og sín fyrirtæki og vaxa með vindinn í bakið. Hraðallinn er byggður upp að fyrirmynd viðskiptahraðla og er dagskrá sérhönnuð með þarfir teymanna sem taka þátt í huga og hafa þau þannig áhrif á þá fræðslu sem stendur þeim til boða.

Startup Stormur fer að mestu leyti fram á netinu en teymin hittast þrisvar sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. Þátttakendur kynnast reynslumiklum leiðbeinendum, frumkvöðlum, fjárfestum og stjórnendum fyrirtækja, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli.

Startup Stormur hefst 4. október og lýkur 16. nóvember með lokaviðburð þar sem teymin sem taka þátt halda fjárfestakynningar. Umsóknarfrestur í Startup Storm er til og með 21.september nk. Sótt er um á heimasíðu Norðanáttar - www.nordanatt.is

Samstarfsverkefnið Norðanátt er hreyfiafl sem miðar að því að skapa kraftmikið nýsköpunarumhverfi á Norðurlandi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki. Að verkefninu Norðanátt koma EIMUR, SSNV og SSNE með stuðningi frá Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu.

Rafrænn kynningarfundur fer fram þriðjudaginn 5. september nk. frá kl. 11:30 - 12:00 í gegnum TEAMS, þar sem farið verður yfir öll helstu atriði Startup Storms ásamt því að fólki gefst kostur á að spyrja spurninga.

Hér má finna viðburðinn á Facebook