Fara í efni

Össur Skarphéðinsson bloggar um heimsóknina til Langanesbyggðar á dögunum

Fundur
Af vefsíðunni http://eyjan.is/goto/ossur/Kúfskel og vaskir Langnesingar Ég borðaði ferska kúfskel í fyrsta skipti á ævinni um síðustu helgi. Það var á þeim sögufræga stað, Þórshöfn á Langanesi. Þangað

Af vefsíðunni http://eyjan.is/goto/ossur/

Kúfskel og vaskir Langnesingar

Ég borðaði ferska kúfskel í fyrsta skipti á ævinni um síðustu helgi. Það var á þeim sögufræga stað, Þórshöfn á Langanesi. Þangað hef ég margoft komið um ævina fyrst þegar ég var pokamaður á Jökli ÞH 299 á menntaskólaárum mínum. Þá, einsog nú, fannst mér Þórshöfn snyrtilegur og fallegur staður.

Tilefni fararinnar á norðausturhornið, þar sem ísbirnir gengu forðum á land, og ullu usla, var atvinnumálaráðstefna, sem stýrt var af hinum dugmikla Birni Ingimarssyni. Hún tókst með afbrigðum vel. Ég hreifst af kraftinum í heimamönnum. Kraftmiklar og skemmtilegar hugmyndir áttu daginn, og ekki bölmóður í nokkrum manni.

Ýmsar hugmyndanna tengdust kúfskelinni bragðgóðu. Árum saman hafa heimamenn unnið að því að þróa leiðir til að fá meira fyrir hana í útflutningi. Þeir virðast sannarlega komnir vel áleiðis.

Ekki fannst mér síður merkilegt hversu langt heimamenn eru komnir í að þróa aðferðir til að búa til úr kúfskelinni sjálfri hágæðakalk, sem hefur vakið athygli fyrirtækja erlendis sem starfa á því sviði. Afurðin er af einstökum gæðum, og mun víst óvíða í heiminum finnast jafn hvítt og ómengað kalk, laust við alla þungmálma, sem oft safnast upp í svo gömlum skepnum sem kúfiskurinn verður.

Mikil og hefðbundin sauðfjárræktarlönd eru í Langanesbyggð. Heimamenn vilja sækja fram í þessari gömlu og traustu grein. Hugmynd þeirra um Strandabúið, þar sem framleiða á allt að 4000 lömb til slátrunaar á hverju ári, fannst mér nýstárleg og frískleg og sýna áræðið í mannskapnum.

Möguleg olíuvinnsla á Drekasvæðinu var mjög fyrirferðarmikil í umræðunni á málstefnunni. Það er skiljanlegt. Ekkert svæði á landinu liggur jafn vel við Drekasvæðinu og Langanesbyggðin. Heimamenn vilja eðlilega að hún njóti nálægðarinnar, og eru þegar farnir að undirbúa sig fyrir að þjónusta mögulega olíuleit, og hugsanlega vinnslu í framtíðinni.

Þær hugmyndir liggja einmitt á borði mínu hér í ráðuneytinu sem ég skrifa þennan pistil, og sendi í huganum góða kveðju til Langnesinga fyrir skemmtilega og gagnlega helgi á gömlum ísbjarnarslóðum.