Óvissuferð Nausts
Laugardaginn 8. september sl. héldu starfsmenn Nausts í óvissuferð ásamt Birni sveitarstjóra og Indriða Kristjánssyni bílstjóra.
Lagt var upp frá Nausti kl. 10:00 að morgni í blíðskaparveðri og haldið austur á bóginn.
Fyrsti áningarstaður var Kaupvangur, gamla kaupfélagshúsið á Vopnafirði, en þar tók Halldór Karl Halldórsson, fyrrum kaupfélagsstjóri m.m., á móti gestunum.
Halldór Karl fræddi gestina um sögu hússins, núverandi verkefni og hugmyndir um framtíðarhlutverk þess.
Einnig gaf þar að líta sýningu sem samanstendur af hluta þeirra gömlu ljósmynda frá Vopnafirði er Halldór Karl hefur safnað á umliðnum árum. Að lokinni heimsókninni í Kaupvang far haldið í Bustafell þar sem Ágústa Þorkelsdóttir, verkefnisstjóri, tók á móti gestum og leiddi í gegnum safnið auk þess að uppfræða um sögu staðarins og tilurð safnsins.
Að aflokinni skoðun safnsins var boðið upp á kjötsúpu að hætti Óðalsins ásamt heimabökuðu brauði og kaffi og tertum í eftirrétt. Þær Ágústa og Sigríður, safnvörður, sáu um að allri fengju fylli sýna og sögðu skemmtilegar sögur á meðan á borðhaldinu stóð.
Frá Bustafelli var síðan hjúkrunarheimilið Sundabúð á Vopnafirði heimsótt þar sem Kristín Steingrímsdóttir, sjúkraliði, tók á móti gestum og gerði grein fyrir starfseminni og sýndi þá góðu aðstöðu sem þar er.
Í lokin var þegið kaffi og meðlæti í matsal Sundabúðar áður en haldið var aftur til Þórshafnar en þangað kom hópurinn aftur um kl. 17:00.
Með bestu kveðjum
Björn Ingimarsson
sveitarstjóri