Fara í efni

Ráðstefnan Arctic Energy Summit

Fréttir
Akureyri verður vettvangur stórviðburðar dagana 08.-10. október n. k. er ráðstefnan Arctic Energy Summit verður þar haldin í menningarhúsinu Hofi. Skipuleggjendur eru Institute of the North í Alaska og Arctic Portal á Akureyri. Er Arctic Energy Summit þverfagleg ráðstefna á sviði orkumála og rannsókna á Norðurslóðum.

Akureyri verður vettvangur stórviðburðar dagana 08.-10. október n. k. er ráðstefnan Arctic Energy Summit verður þar haldin í menningarhúsinu Hofi. Skipuleggjendur eru Institute of the North í Alaska og Arctic Portal á Akureyri. Er Arctic Energy Summit þverfagleg ráðstefna á sviði orkumála og rannsókna á Norðurslóðum. Er óhætt að fullyrða að vel sé að hlutunum staðið því fjöldi virtra innlendra og erlendra vísinda- og fræðimanna, stefnumótenda, orkusérfræðinga, fulltrúa fyrirtækja og stjórnmálamanna munu sækja ráðstefnuna til að vinna að og deila aðferðum til nýtingar og verndunar á orku á Norðurslóðum. Á því eru ekki nokkur vafi að bæði þingmenn þjóðarinnar og sveitarstjórnarmenn muni sýna ráðstefnunni áhuga – og ættu að gera það því ekki einungis verður hún upplýsandi heldur bjóðast ekki viðlíka tækifæri oft. Í ljósi þeirrar vinnu sem sveitarstjórnir Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps hafa innt af hendi á sl. árum, þeir samningar sem undirritaðir hafa verið, er ráðstefnan sérlega áhugaverð og raunar mikilvæg. 

Yfirskrift ráðstefnunnar verður „Richness, Resilience, and Responsibility – Arctic Energy as a Lasting Frontier“ – sem gæti útlagst sem Auðlegð, þanþol og ábyrgð – Norðurslóðarorka sem varanleg mörk -  og er áhersla lögð á sérhæfða svæðisbundna tækni í orkumálum og þann stefnuramma sem nauðsynlegt er að koma á til að gera nýtingu þessara náttúruauðlinda sjálf- og arðbæra fyrir iðnað og samfélög á Norðurslóðum.

 

Sérstaklega var sótt eftir því að hafa ráðstefnuna á Akureyri til að kynna og auka þekkingu á sviði orkumála á Norðurslóðum á svæðinu. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun setja ráðstefnuna og flytja ávarp en sem fyrr segir verður fjöldi athyglisverðra fyrirlesara, innlendra sem erlendra auk þess sem gestum býðst að bera upp fyrirspurnir að fyrirlestrum loknum sem og þátttaka í vinnustofum. Þannig segir í fréttatilkynningu að á ráðstefnunni verður fjöldi fólks til viðtals vegna ýmissa málefna Norðurslóða sem eru í brennidepli um þessar mundir, má í því sambandi nefna Drekasvæðið, olíuleit, leit og björgun og siglingar á Norðurslóðum. Boðið er upp á aðstoð við að finna sérfræðinga í ákveðnum málefnum fyrir fjölmiðla og þá er telja sig málið varða. Aðstaða fyrir fréttamenn verður á staðnum. 

Allar nánari upplýsingar má fá á heimasíðu ráðstefnunnar. Einnig er hægt að hafa samband við Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóra Arctic Portal – halldor@arcticportal.org

 

Til upplýsinga er Norðurslóðagáttin (e. Arctic Portal), www.arcticportal.org, alhliða vettvangur upplýsingamiðlunar um Norðurslóðir. Hún er tengiliður ýmissa vöktunarkerfa, sem fylgjast með veðurfarsbreytingum, landrofi, lífríki og þjóðfélags- og efnahagsþróun. Þannig er vísindasamfélagi, stjórnvöldum og almenningi gert kleift að eiga greiðan aðgang að upplýsingum um ástand og breytingar á Norðurslóðum ekki síður en sérmenntuðum vísindamönnum.

Yfir 40 norðurslóðasamtök og –vinnuhópar hafa sett upp vefsetur og vinnusvæði á Norðurslóðagáttinni. Meðal þeirra eru Norðurslóðanetið, CAFF, PAME, Alþjóðlega Norðurskautsvísindanefndin (IASC), Alþjóðsamtök félagsvísindamanna á norðurslóðum (IASSA) og NRF.

Heimasíða Arctic Portal geymir gríðarlegt magn nytsamlegra upplýsinga um norðurslóðir. Á síðunni er fréttaveita og sérstakar undirsíður um sérhæfð málefni, loftslagsbreytingar, orkumál, siglingar, fiskveiðar auk síðu sem fjallar almennt um norðurslóðir. Á síðunni eru myndir og myndbönd frá ýmsum viðburðum, listi yfir ráðstefnur og fundi og stórt safn ýmissa skjala um norðurslóðir. Þá á Arctic Portal sitt eigið kortakerfi þar sem má finna ýmsar upplýsingar sem birtast á gagnvirkan hátt.

/vopafjardarhreppur.is