Rafeyri opnar starfsstöð á Þórshöfn
Rafeyri ehf. hyggst opna starfsstöð á Þórshöfn og mun þar starfa rafvirki með fasta búsetu á staðnum. Rafeyri undirritaði nýverið þjónustusamning við Ísfélag Vestmannaeyja sem felur í sér að fyrirtækið annast alla rafmagnsvinnu fyrir Ísfélagið en auk þess mun fyrirtækið bjóða íbúum á svæðinu þjónustu sína.
Sigurður Már Haraldsson mun verða starfsmaður Rafeyrar og kemur hann til með að flytja til Þórshafnar með fjölskyldu sína. Ísfélagið ábyrgist rekstrargrundvöll fyrir dagsverki hans en jafnframt mun hann sinna öðrum viðskiptavinum í sveitarfélaginu og nágrenni. Að sögn Kristins Hreinssonar, framkvæmdastjóra Rafeyrar, mun fyrirtækið leggja til aukakraft ef á þarf að halda, bæði með fleiri starfandi höndum og sérfræðiþekkingu. Þó að grundvöllurinn fyrir starfsemi okkar á Þórshöfn sé samningurinn við Ísfélagið viljum veita öllum íbúum á svæðinu þjónustu og munum bæta við mannskap á álagstímum ef þarf. Við höfum einnig áhuga á að taka efnilegan lærling á samning í rafvirkjun, heimamann sem hefur áhuga á að mennta sig í faginu," segir Kristinn.
Kristinn segir að framhaldið ráðast af umfanginu. Við höldum bjartsýnir inn í þetta verkefni. Uppbygging Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn hefur verið samfélaginu við ysta haf mikil lyftistöng og það er greinilega mikill hugur í mönnum. Fjárfesting Vestmannaeyinga sýnir fram á tiltrú á staðnum og sama má segja með stofnun þessa útibús Rafeyrar. Það er von Rafeyrar að gott samstarf verði við íbúa Þórshafnar og Þistilfjarðar og nú sé hafið tímabil ánægjulegra samskipta," segir Kristinn.
Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri Ísfélags Vestmannaeyja á Þórshöfn, segir menn þar á bæ vera hæstánægða með samninginn við Rafeyri. Þetta er vitanlega mjög jákvætt fyrir Ísfélagið. Hér á Þórshöfn hefur ekki verið lærður rafvirki með fasta búsetu í mörg ár. Starfsemi Ísfélagsins á Þórshöfn er mjög vertíðarbundin og á álagstímum er gott að geta sótt þjónustuna þegar á þarf að halda. Þessi þjónusta mun einnig nýtast öllu byggðarlaginu og allir ættu því að geta unað glaðir við sitt," segir Siggeir.
Á myndinni eru þeri Jónas M. Ragnarsson, Sigurður Már Haraldsson og Kristinn Hreinsson frá Rafeyri og Siggeir Stefánsson, Rafn Jónsson og Konráð Jóhannsson frá Ísfélagi Vestmannaeyja.