Sælir Langnesingar góðir, nær og fjær.
Því miður hafði ég rétt fyrir mér með lægðina sem þessi gestabók myndi lenda í. Svipar henni til lægðar þeirrar sem blessaður Framsóknarflokkurinn er í um þessar mundir. Sem sagt að kíkja hér inn er svipað eins og að kíkja inn á þingflokksfund hjá Framsókn, þe ákaflega dauflegt. Og því var ég ánægður að sjá Kolbein kaftein ríða á vaðið og svo Tobbu nágrannakonu mína til margra ára koma í kjölfarið. Þegar svona gæðakona, biður svona fallega, þá er ekki hægt að skorast undan því að skrifa einhverja þvælu hér inn, til að opna á frekara orðaskak við Helga mar vin minn.
Skemtilegur pistill sem Kolbeinn kafteinn fá Sauðanesi skrifaði, enda ekki við öðru að búast frá honum. Hins vegar rak ég augun í það að hann þrætir eins og sprúttsali fyrir það að nafni minn, Ölver Guðnason, maður Elísu Einars og stýrimaðurinn á bátum sé Langnesingur. 'Eg hef eftir mjög áreiðanlegum heimildum að hann eigi ættir sínar að rekja til Kúðár í Þistilfirði og langamma hans sé Inga Jósepsdóttir sem er systir Vibba heitins á Sætúni. Hvort Kolbeinn kafteinn ætlar að greina svo nákvæmlega á milli Langnesinga og Þistla veit ég ekki, en fyrir mér er það nú að mestu leiti sami grautur í sömu skál. Þó telja sumir að Þistlar séu pínulítið merkilegri en Langnesingar og þar hafi einnig verið bæði fleiri og meiri skáld en fyrirfundust á Langanesi. Til dæmis er ekki vitað um nein skáld í framætt Helga Mars vinar míns og efast ég ekki um að honum þyki það leiðinlegt. Svo nefna margir Þistlar máli sínu til stuðnings vísuskratta sem Látrabjörg gamla gerði ódauðlega og segja að hún lýsi á raunsannan hátt Langanesi og Langnesingum fyrr á öldum. Þar sem ég er blendingur, bæði Langnesingur og Þistill þá var mér alltaf frekar í nöp við þessa vísu, einkum og sér í lagi þegar slöttólfar frá Raufarhöfn sungu hana fyrir okkur Þórshafnarmenn á böllum, okkur til mikillar skapraunar og birti hér strax í kjölfarið vísu eftir skáldið Hjört frá Hlíð (bróðir Palla í Hlíð) sem ég tel að sé raunsönn lýsing á nesinu langa sem er eins og Kolli sagði "dásamlegasti staður á jarðríki".
Langanes er ljótur tangi
lygin er þar oft á gangi
margur ber þar fisk í fangi
en fáir að honum búa
nú vil ég heim til sveitar minnar snúa
höf .Látrabjörg.
Lít ég þig að liðnum degi,
Langanesið fagra mitt.
Sólin þína sveipar vegi,
sífellt birta nafnið þitt höf.
Hjörtur frá Hlíð.
Þó Látrabjörg hafi ekki verið uppnumin af Langanesi og Langnesingum þá þótti henni jafnvel enn minna til koma um Melrakkasléttumenn og virðist sem hún hafi hreinlega haft á þeim djúpa skömm og andúð.en vísan er svona
Slétta er bæði löng og ljót;
leitun er að verri sveit.
Hver, sem á henni festir fót,
fordæmingar byggir reit
höf. Látrabjörg.
Eftir að hafa lesið þessa vísu þakkar maður bara fyrir að verið sé að byggja nýjan veg yfir Hólaheiði svo menn þurfi ekki "að festa fót" aftur á hinni ógnvænlegu SléttuHef ég þetta ekki lengra að sinni, enda einhleypar húsmæður hehehe sjálfsagt orðnar dauðleiðar á þessum skrifum. Vil nota tækifærið og minna á "Sláturhúsballið" eins og Kristján Inda kallar það en það er vetrarfagnaður 'Atthagafélags Þórshafnar og nágrennis. Allir velkomnir bæði Langnesingar, Þistlar og meira að segja Bakkfirðingar. Sláturhúsballið er alltaf fyrsta vetrardag og hefur það glatt félagsmenn mikið síðustu ár hversu margir "óbrottfluttir Þórshafnarbúar" hafa lagt á sig ferðalag alla þessa leið til að taka þátt í skemtuninni.Vona að vinur minn Helgi Mar sjái sig knúinn til að svara þessum skrifum á einn eða annan hátt.Þangað til hafið það sem allra best.Ölver Arnarsson Þistill og Langnesingur.