Fara í efni

Samstarf Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps við Bremenports í Þýskalandi

Fréttir
Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa gengið til samstarfs við Bremenports í Þýskalandi um rannsóknir og prófanir vegna mögulegrar uppbyggingar athafna- og hafnarsvæðis í Finnafirði. Fyrirtækið Bremenports er meðal stærstu rekstrar-og umsýsluaðila umskipunarhafna í Evrópu og er höfnin í Bremerhafen næst stærsta höfn sinnar tegundar í Þýskalandi.

Sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur hafa gengið til samstarfs við Bremenports í Þýskalandi um rannsóknir og prófanir vegna mögulegrar uppbyggingar athafna- og hafnarsvæðis í Finnafirði. Fyrirtækið Bremenports er meðal stærstu rekstrar-og umsýsluaðila umskipunarhafna í Evrópu og er höfnin í Bremerhafen næst stærsta höfn sinnar tegundar í Þýskalandi.
Í nýju aðalskipulagi Langanesbyggðar er gert ráð fyrir umtalsverðum umsvifum vegna umskipunar- og þjónustuhafar í Finnafirði en margt bendir til þess að náttúrulegar aðstæður og landfræðileg staðsetning geri Finnafjörð að ákjósanlegum kosti fyrir slíka höfn.
Nýtt aðalskipulag fyrir Langanesbyggð hefur verið unnið og kynnt lögum samkvæmt. Tekið hefur verið tillit til ábendinga og athugasemda við gerð aðalskipulagsins. Umhverfis- og bygginganefnd Langanesbyggðar og sveitarstjórn Langanesbyggðar hafa samþykkt aðalskipulagið. Skipulagsstofnun hefur fyrir sitt leyti samþykkt aðalskipulagið og lagt til að umhverfisráðherra samþykki og áriti skipulagið, þannig að það taki gildi.
Í tillögu að aðalskipulagi, er m.a. gert ráð fyrir möguleika á nýrri höfn í Finnafirði. Svæðið liggur sunnan Gunnólfsvíkurfjalls og er rétt sunnan við Þórshöfn. Landfræðilegar aðstæður eru taldar góðar í Finnafirði, bæði í landi og á sjó. Fyrirhugað hafnarsvæði bíður upp á  nokkur hundruð hektara burðarhæfs flatlendis og möguleikum á byggingu viðlegukanta með allt að 24 m dýpi. Öldufar og veðurfar er samkvæmt fyrstu athugunum talið hagstætt.
Á grundvelli ofangreindra landkosta hefur Bremenports, sem þróar og byggir upp hafnir og er í 100% eigu sambandslandsins Bremen í Þýskaland, horft til þess möguleika að eiga samstarf við sveitarfélögin á svæðinu um fyrirhugaða Finnafjarðarhöfn. Fyrirtækið hefur kynnt sér mögulega valkosti víða í tengslum við umskipunarhöfn á Norður Atlantshafi og telur allt benda til þess að aðstæður í Finnafirði séu ákjósanlegar. Um gríðarlega stórt fjárfestingarverkefni er að ræða sem krefst fjölbreytilegrar rannsóknarvinnu, sem verður unnin af íslenskum og erlendum sérfræðingum á næstu árum. Forsætisráðuneytið ásamt fagráðuneytum sem um málið fjalla eru upplýst um áformin og verða næstu skref í verkefninu fljótlega kynnt nýjum ráðherrum.
Í opinberri heimsókn Forseta Íslands til Þýskalands mun Forsetinn sækja Bremen heim og kynna verkefnið.   
Fyrirtækið Bremenports  mun hafa umsjón með og annast fjármögnun þeirrar rannsóknarvinnu sem framundan er. EFLA verkfræðistofa mun verða samningsaðilum til ráðgjafar í verkefninu í samráði við forsvarsmenn sveitarfélaganna á svæðinu.
Siglingar um Norður Íshafið
Í tengslum við aukna umræðu um hlýnun loftslags og hraðari bráðnun hafíss á norðurslóðum en áður hefur verið reiknað með, hafa augu umheimsins beinst að siglingarleiðinni milli Kyrrahafs og Atlantshafs um Norður Íshafið. Skipaumferð hefur aukist nokkuð um Norður Atlantshaf hin síðari ár og mun hún aukast enn frekar vegna fyrirsjáanlegra flutninga á olíu, fljótandi jarðgasi og vegna aukinnar námavinnslu á Austanverðu Grænlandi og í Rússlandi. Á síðasta ári fóru tæplega 50 flutningaskip um svokallaða Norð-Austur leið. Í þessu sambandi liggur Ísland vel landfræðilega séð í Norður Atlantshafinu. Finnafjarðarhöfn er í þessu sambandi í siglingaleið og bíður upp á ákjósanlegar aðstæður sem umskipunarhöfn fyrir vörur sem eru á leið milli Asíu, Ameríku og Evrópu.
Frekari upplýsingar um samstarf aðila um Finnafjarðarhöfn veitir Hafsteinn Helgason, sviðstjóri Viðskiptaþróunar hjá EFLU hf. verkfræðistofu í síma 6656102 og Uwe Will yfirmaður erlendra verkefna hjá Bremenports í síma +49-170-8526328.

Fyrir hönd sveitarfélaganna
Siggeir Stefánsson oddviti Langanesbyggðar
Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps