Fara í efni

Samstarf um starfsstöð í náttúrurannsóknum á Bakkafirði

Fréttir
Samsett mynd frá SSNE
Samsett mynd frá SSNE

Vikublaðið á Akureyri greinir frá því að SSNE og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa gert með sér samning sem hefur það að markmiði að koma á samstarfi um stofnun starfsstöðvar í náttúrurannsóknum á Bakkafirði. Greint er frá þessu á vef samtakanna.

Auk SSNE taka Langanesbyggð og Náttúrustofa Norðausturlands þátt í verkefninu, en aðkoma fleiri aðila verður skoðuð í þeirri vinnu sem er framundan. Markmið starfsstöðvarinnar er að styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem fyrir eru á svæðinu – en hluti verkefnisins snýr að greiningu á mögulegum hagrænum og samfélagslegum áhrifum aukinnar náttúruverndar, sem og aukinnar þekkingar á náttúrufari sem nýst getur við atvinnusköpun- og uppbyggingu.

Framlag til verkefnisins kemur úr stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 en þar hafa verið skilgreindar 44 aðgerðir sem ætlað er að stuðla að jákvæðri þróun byggða. Ein þessara aðgerða kallast Náttúruvernd til eflingar byggðaþróunar (C9). Töluverð vinna og samtal hefur farið fram undanfarin misseri um möguleika á friðun Langaness að hluta og hefur Umhverfisstofnum, að beiðni ráðuneytisins, unnið úttekt á friðlýsingarkostum.

Tillagan, að koma á fót starfsstöð í náttúrurannsóknum á Bakkafirði, er ekki ný af nálinni heldur var sett fram af ráðherranefnd um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa en hún lauk störfum í nóvember 2018 og skilaði af sér skýrslu með tillögum til ríkisstjórnar. Skýrslan og tillögurnar voru samþykktar af verkefnisstjórn Betri Bakkafjarðar í nóvember 2019 sem hluti verkefnisáætlunar fyrir Brothættar byggðir.