Fara í efni

Sigurbjörg ÁR, nýtt skip Ísfélagsins kom í fyrsta sinn til löndunar á Þórshöfn í morgun.

Fréttir

Skipið var smíðað í Celiktrans-skipasmíðastöðinni í Istanbúl og kom það til landsins í ágúst.  Skipið er hannað af íslenska skipahönnunarfyrirtækinu Nautic. Sama skrokklag er á skipinu og HB Granda skipunum sem Nautic hannaði upp úr 2015 með svokölluðu Enduro Bow stefni. Sigurbjörg er styttra og breiðara skip en Akurey og Viðey.

Mesta lengd er 48,10 m og breidd 14 m. Aðalvél er MAN 1.795 kW, 800 snúningar á mínútu. Hjálparvélar eru tvær og bogskrúfa. Spilbúnaður er 4 togvindur, 3 gilsavindur, 6 grandaravindur, tvær pokavindur, átta bakstroffuspil og 2 akkerisspil ásamt hjálparvindum og dekkkrana. Vinnslubúnaður er fyrsta flokks og er sjálfvirkur búnaður sem setur afla í lest og landar, þannig að lestarvinna háseta er úr sögunni. Kælibúnaður tryggir fyrsta flokks hráefni. Siglingatæki eru frá Simberg en aflanemakerfi frá Marport. Íbúðir eru fyrir 15 manna áhöfn og öll aðstaða til fyrirmyndar, en gert er ráð fyrir tvöfaldri áhöfn. Kaupverð er ríflega 3,1 milljarður.

Sigurbjörgu er ætlað að koma í stað þriggja skipa, Jóns á Hofi ÁR, Fróða II ÁR og Ottós Þorlákssonar VE.