Fara í efni

Sjö tíma á leið á sjúkrahús

Fundur
Haraldur Tómasson, heilsugæslulæknir á Þórshöfn, segir afar mikilvægt að leiðin á milli Þórshafnar og Akureyrar sé greið. Þetta kom fram í viðtali sem RÚV átti við Harald vegna vinnuslyss sem varð á Þ

Haraldur Tómasson, heilsugæslulæknir á Þórshöfn, segir afar mikilvægt að leiðin á milli Þórshafnar og Akureyrar sé greið. Þetta kom fram í viðtali sem RÚV átti við Harald vegna vinnuslyss sem varð á Þórshöfn fyrir skemmstu, Sjö tíma tók að koma sjúklingnum á sjúkrahúsið á Akureyri, ekki síst vegna ófærðar á Víkurskarði.

Slysið varð við loðnulöndun á Þórshöfn þegar karlmaður fékk löndunarbarka aftan á sig með þeim afleiðingum að hann brotnaði bæði á hrygg og ökkla. Að sögn Haraldar Tómassonar, heilsugæslulæknis á Þórshöfn, var ekki hægt að flytja hinn slasaða til Akureyrar með flugi vegna veðurs og var hann því sendur af stað með sjúkrabíl.
Þar sem Víkurskarð var lokað þurfti að kalla út snjómoksturstæki til þess að ryðja leiðina fyrir sjúkrabílinn svo hann kæmist til Akureyrar. Sjö tímum eftir slysið var sjúklingurinn kominn á leiðarenda og þurfti að gefa honum mikið morfín svo að hann þyldi ferðalagið.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist. Ég lenti í vandræðum með mann í fyrra sem fékk slag og það tók langan tíma fyrir hann að komast til Akureyrar," sagði Haraldur í viðtali við fréttastofu RÚV.
Að sögn Haraldar er Víkurskarð mikill farartálmi á veturna, og þá ekki bara þegar alvarleg slys verða heldur veigri fólk sér við að fara um skarðið ef veðurútlit er ekki gott og frestar læknisheimsóknum, oft með slæmum afleiðingum. Hann bendir á að í ljósi umræðu um niðurskurð á sjúkrahúsinu  á Húsavík sé enn mikilvægara að greið leið sé fyrir sjúklinga til Akureyrar.
Við höfum ekki vald yfir æðri máttarvöldum en í sambandi við þessa umræðu um Vaðlaheiðargöngin þá finnst mér þetta atriði hafa vantað, þetta er öryggisatriði fyrir fólkið hér austan við að þetta sé í lagi. Þannig að Vaðlaheiðargöng myndu nú auka öryggið á svæðinu," sagði Haraldur.
Þess má geta að maðurinn sem lenti í vinnuslysinu á þriðjudag er enn á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en heilsast eftir atvikum, að því er fram kemur í frétt RÚV.