Skálaþorpið tilvalið sögusvið fyrir bók
Rithöfundurinn Ragnar Jónasson sendi nýlega frá sér skáldsöguna Þorpið. Sögusvið bókarinnar er Skálar á Langanesi en sagan gerist árið 1985 í þorpinu við ysta haf. Eins og kunnugir vita fór þorpið í eyði nokkru fyrr eða um miðja öldina. Ragnar sagði í samtali við lnb.is að þegar hann hafi heyrt af Skálaþorpinu hafi hann farið að kynna sér sögu þorpsins og fundist það tilvalið sögusvið fyrir bók. Hann sagði svæðið vera fallegt og sögu þorpsins áhugaverða, en hann kom að skoða rústirnar á Skálum á meðan hann skrifaði söguna. Hann sagði að Skálastúfurinn hefði reyndar ekki flotið með í sögunni en það væri smá draugasaga þarna samt. Ragnar hefur notið mikillar velgengni á síðustu árum með fyrri bækur sínar en margar þeirra gerast á drungalegum og afskekktum stöðum. Hann segist leita að gömlum íslenskum stöðum þar sem fólk hafi þurft að búa við erfiðar aðstæður. Söguþráðurinn í bókinnin er sá að ungur kennari frá Reykjavík kemur í þetta 10 manna þorp á Skálum þar sem óútskýrð dauðsföll vekja ugg... Þorpið á þessum tíma er að sjálfsögðu skáldverk rithöfundarins en þessi spennusaga á eflaust eftir að leynast í mörgum pökkum fyrir jólin. Í gegnum bókina má finna vögguvísu sem notuð er í kynningu á bókinni og má hlusta á hana hér.
Ragnar í rústum Skálaþorpsins
Ljósmyndir Ragnar Jónasson