Skapandi sumarstörf í Langanesbyggð
Langanesbyggð setur af stað verkefnið Skapandi sumarstörf í Langanesbyggð og auglýsir eftir 2-3 hæfileikaríkum einstaklingum á aldrinum 16-24 ára sem langar að vinna að sínum eigin listrænum verkefnum. Starfið er hugsað fyrir skapandi einstaklinga sem vilja vinna að list og listsköpun.
Með því gefst ungu fólki tækifæri að vinna að skapandi verkefnum að sínu eigin vali, í hvaða formi sem þau eru t.d. leiklist, hönnun, myndlist, dans, ljósmyndun, ritlist o.fl.
Í ár verður verkefnið í 4 vikur, frá 19. júní til 14. júlí og stefnt að því að sýna afrakstur verkefnisins á Bryggjudögum.
Starfið verður mótað að áhugasviði einstaklingsins og verður starfið að mestu leyti sjálfstætt en munu þátttakendur fá leiðsögn frá verkefnastjóra ásamt reglulegum stöðufundum.
Starfshlutfall í samkomulagi við umsækjendur allt að 100% og vinnutíminn getur verið sveigjanlegur.
Sveitarfélagið leggur til aðstöðu ef við á.
Þetta er þróunarverkefni með það að markmiði að gefa skapandi einstaklingum í samfélaginu okkar tækifæri til að stunda vinnu á sínu áhugasviði og að vinna að listsköpun sinni. En verkefnið mun um leið efla menningarstarfið í Langanesbyggð.
Verkefnastjóri er Starkaður Sigurðarson. Hann mun vera ráðgefandi ásamt því að hafa milligöngu um faglegar ráðleggingar ef við á.
Umsækjendur skila inn stuttu kynningarbréfi um sig þar sem þau gera grein fyrir þeim hugmyndum og verkefnum sem umsækjandi vill vinna að í sumar. Umsóknir sendast á langanesbyggd@langanesbyggd.is Starkaður Sigurðarson og Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir (aðalmaður í Atvinnu- og nýsköpunarnefnd LNB) fara yfir umsóknir og hafa umsjón með verkefninu og þróun þess.
Launin eru sambærileg og hjá eldri ungmennum í sumarstarfi áhaldahúss.
Þó fyrirvarinn sé stuttur þá hvetjum við fólk á aldrinum 16-24 ára til að sækja um. Þetta verkefni er og verður í þróun og aðlagað að hverjum og einum.
Með þessu verkefni viljum við efla menningarstarf í Langanesbyggð og gefa ungu fólki á svæðinu fjölbreyttari atvinnutækifæri og möguleika til að vinna á sviði sem endurspeglar styrkleika þeirra og áhuga.
Á næsta ári, 2024, munum við aftur bjóða upp á Skapandi sumarstörf og þá í aðeins stækkaðri mynd.