Skólaslit Grunnskólans á Þórshöfn
20 júní 2008
Þann 30. maí var Grunnskólanum á Þórshöfn slitið í 74. sinn að viðstöddu fjölmenni. Þótt Arnar Einarsson skólastjóri væri fjarri góðu gamni vegna veikinda, fór allt fram með hefðbundnu sniði, nemendur fengu afhentar einkunnir og ýmiss konar viðurkenningar voru veittar. Margrét skólastjórafrú tók við kveðjugjöfum fyrir sína hönd og Arnars en hann hefur látið af störfum. Að athöfn lokinni var gestum boðið upp á myndarlegt kaffihlaðborð í safnaðarheimilinu í umsjón foreldra 8. og 9. bekkjar en Langanesbyggð fjármagnaði herlegheitin. Í lok dags héldu nemendur og kennarar á vit sumarsins enda farið að örla á þreytu hjá sumum eftir langan vetur og tími til kominn að safna upp orku fyrir þann næsta.
Myndir Sólrún Arney
Grein: Heiðrún Óladóttir