Sonur flugmannsins heiðraði minningu föður síns
Hjónin Russ og JoAnne Sims voru á Langanesi á föstudaginn og má segja að þau hafi komið ansi langt í sínum leiðangri en þau búa í Los Angeles. Í farteskinu voru þau með minningarskjöld um flugslysið sem átti sér stað á Sauðanesflugvelli árið 1969 en þá mistókst flugstjóranum Russel W. Sims að lenda flugvél bandaríska hersins. Flugvélarflakið liggur nærri þeim stað þar sem vélin endaði eftir að hafa runnið út af brautinni. Í skýrslu um flugslysið sem Russ Sims hafði undir höndum má finna nákvæmar upplýsingar um tildrög slyssins og tekið saman í aðalatriðum er það svo:
Þann 25. júlí 1969 var birgðavél á vegum US Navy á leið frá Keflavík til Þórshafnar. Vélin var af gerðinni Douglas R4D-S og var flugstjóri Russel W. Sims, Jr en hann átti að baki langan feril í bandaríska sjóhernum. Aðstoðarflugstjóri var Daniel A. Blycker. Fjórir farþegar voru um borð. Sauðanesflugvöllur var 1.140 metrar á lengd og 40 metrar á breidd. Flugvöllurinn var ekki með neinn flugumferðarturn en flugstjórar höfðu samband við flugvallarvörðinn í gegnum talstöð. Þegar flugvélin nálgast flugvöllin hefur flugstjórinn samband við flugvallarvörðinn og fær upplýsingar um veður, vind og flugbraut. Það var heiðskírt þennan dag og 2-5 metrar á sekúndu. Þegar hann flaug yfir völlinn sá hann vindsokkinn og sýndist hann sýna sömu vindátt og hafði verið gefin upp í talstöðinni en fannst hann blása töluvert meira. Á þessum tímapunkti ákvað flugstjórinn að fljúga rúma 24 kílómetra í norður til að komast yfir heimskautsbaug, bæði sér og farþegum til ánægju. Það liðu því um 15-20 mínútur frá því að hann fær upplýsingar um veður og þar til hann lendir flugvélinni. Þegar vélin lendir bendir ekkert til þess að eitthvað muni gerast. Flugstjórinn byrjar að bremsa og vitni taka eftir því að nefið á vélinni rís upp og niður og þegar bremsað er í þriðja sinn tekur vélin að leita til hægri og hann missir vald á stýrinu. Reikar vélin enn meira til hægri næstu 360 metrana, fer út af flugbrautinni og fer í gegnum háan stafla af rekavið. Hélt vélin áfram um tíu metra þar til springur á vinstra dekkinu og hún stöðvast. Enginn slasaðist og enginn eldur braust út. Samkvæmt tjónaskýrslu á flugvélinni og vegna fjarlægðar flugvallarins frá Keflavík, þótti ekki hentugt að reyna að gera við vélina. Var hún því dregin í burtu og skilin eftir sunnan megin við flugbrautina. Einnig kemur fram í skýrslunni að slysið sé að mestu flugstjóranum Russel W. Sims, Jr að kenna og er ástæðunum listað í skýrslunni.
Þau hjónin eru afar hrifin af Íslandi enda kynntust þau fyrst sem unglingar þegar feður þeirra voru hermenn á Keflavíkurflugvelli. Nokkrum árum síðar lágu leiðir aftur saman en þá vildi þannig til að feður þeirra voru aftur staðsettir á sama stað, þá í Memphis þar sem fjölskyldurnar settust að. Þau fóru fyrst á stefnumót fyrir tilstilli systur JoAnne sem þekkti Russ betur, og hafa nú verið gift í 41 ár. Russ segist afar ánægður að vera búinn að setja minningarskjöldinn á vélina. Hann dregur ekkert úr því að flugslysið var föður hans að kenna heldur segir að þetta sé bara hluti af sögu fjölskyldunnar. Hann man enn þann dag þegar faðir hans kom heim til Keflavíkur eftir þessa ferð, hann hafi verið niðurdreginn og sumarfríi fjölskyldunnar var slegið af í kjölfarið sem í minningu ungs drengs voru mikil vonbrigði, enda gerði hann sér þá ekki grein fyrir alvarleika málsins.
Russ var búinn að vera í sambandi við Ránar í hans sumarvinnu um veru hersins á Heiðarfjalli og einnig við Grétu Bergrúnu sem hefur safnað gömlum ljómyndum af svæðinu. Þau hjónin fóru svo í réttir á Gunnarsstöðum á laugardaginn áður en þau héldu áfram, og þótti mikið til koma að fá að upplifa svona sérstakan þátt í íslenskri menningu enda ekkert líkt þessu að sjá í Los Angeles.
Vélin fór í gegn um háan stafla af rekavið sem Marinó prestur átti og það hægði eitthvað á henni, en flugbrautin lá mjög nærri sjó.
Hér má sjá Russel W. Sims Jr. við dekk vélarinnar rétt eftir að slysið átti sér stað. Þessa mynd af föður sínum á slysstað hafði Russ aldrei séð áður.
Ljósmyndir Gréta Bergrún og úr einkasafni.