Fara í efni

Sorpmálin í betri farveg

Fréttir
Samið hefur verið við Íslenska gámafélagið til þriggja ára um að fyrirtækið hirði sorp í Langanesbyggð

Samið hefur verið við Íslenska gámafélagið til þriggja ára um að fyrirtækið hirði sorp í Langanesbyggð. Samhliða því hefur urðun sorps verið hafin á urðunarstað við Bakkafjörð að nýju. Unnstein Árnason mun hafa umsjón með svæðinu og rekstri á sorpmóttöku  (gámasvæði) á Bakkafirði, en sveitarfélagið verður einnig með móttökustöð á Þórshöfn.

Nýtt sorhirðudagatal verður kynnt á næstu dögum, en heimilissorp verður tekið á tveggja vikna fresti úr gráu tunnunum. Grænu tunnurnar verða tæmdar á þriggja vikna fresti.

Ákveðið hefur verið að halda íbúafundi í byrjun október næstkomandi á Bakkafirði og  Þórshöfn, auk þess sem sérstakt samráð verður haft við bændur vegna rúlluplasts. Brúnu tunnurnar verða ekki notaðar áfram og verða sóttar á næstu dögum. Íslenska gámafélagið leitar nú að nýjum og betri bílum til notkunar við sorphirðu hjá okkur og verða þeir kynntir fljótlega. Eins verða nýir opnunartímar gámavalla (gámasvæða) kynntir ásamt uppfærðri verðskrá.

Stefnan er að auka og bæta flokkun sorps í framtíðinni og settar verða skýrar reglur um hvað má fara í grænu tunnuna og hvað í þá gráu. Verktakar fá skýr fyrirmæli um að framfylgja þeim reglum.

Samráð milli verktaka og fulltrúa sveitarfélags verður bætt með reglulegum verkfundum og verða íbúar hvattir til að koma ábendingum á framfæri við skrifstofu sveitarfélagsins á netfangið langanesbyggd@langanesbyggd.is eða símleiðis í síma 468-1220.

Þá er í undirbúningi frágangur   á svæðinu uppi í hálsi, timburhaugurinn verður fjarlægður og mokað yfir skeljahauginn og sáð í hann og fleira gert þar.

Það er von sveitarstjórnar að með þessum aðgerðum megi færa sorpmál okkar Langnesinga til betri vegar til lengri tíma litið og að við verðum engir eftirbátar annarra, jafnvel fyrirmynd.