Stofnun ferðafélags
Það hefur þó nokkrum sinnum komið upp í umræðum um ferðamennsku og ferðaþjónustu hér á svæðinu að sárlega vanti starfandi ferðafélag eða ferðafélagsdeild á þessu svæði. Ég hef mest orðið vör við þessa umræðu í Langanesbyggð. Eitt af því sem þarf að taka afstöðu til er á hvaða svæði deildin myndi starfa. Um það gilda ekki fastar reglur, hugsanlega væri best að starfsvæðið væri Norður-Þingeyjarsýsla eða einhver afmörkuð svæði innan sýslunnar. Það ræðst algjörlega af áhuga og vilja heimamanna.
Vinsældir gönguferða og útvistar aukast ár frá ári. Einstaklinga, fjölskyldur og aðrir hópar ferðast um landið og fara í gönguferðir, ýmist með leiðsögn eða á eigin vegum.
Gríðarlega mikil uppbygging hefur orðið sum staðar í aðstöðu og skipulagningu fyrir göngufólk. Það á sérstaklega við þau svæði þar sem eru starfandi deildir í Ferðafélagi Íslands. Ég hvet ykkur til að skoða heimasíðu félagsins til að kynna ykkur frekar starfsemi þess www.fi.is .
Um Ferðafélag Íslands, tekið af vef Ferðafélagsins 11. mars 2009
Innan vébanda F.Í. starfa 10 deildir víða um landið. Þær eiga og reka skála og halda úti ferðum allan ársins hring.
Í Ferðafélagi Íslands eru um sjö þúsund félagsmenn. Auk ferða af ýmsum toga er margvíslegt félagslíf innan félagsins. Yfir vetrarmánuðina er efnt til myndakvölda, kvöldvaka, spilakvölda, þorrablóta og margs fleira. (http://www.fi.is/um-fi/)
Innan ferðafélag Íslands eru starfandi 10 sjálfstæðar deildir, sem starfa í anda FÍ. Deildirnar standa fyrir eigin ferðaáætlun, eiga og reka ferðaskála og standa fyrir útgáfustarfi af ýmsu tagi. (http://fi.is/deildir-fi/)
Grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að stofna slíka deild er að sjálfsögðu áhugi og virk þátttaka heimamanna. Stofnun slíkrar deildar er kjörið tækifæri til að kynna sína heimabyggð, byggja upp ferðaþjónustu og taka þátt í skemmtilegu félagsstarfi og útivist. Miðað er við að stofnfélagar séu 50 talsins og þar af einhverjir tilbúnir til að vera í stjórn.
Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands og Ólafur Örn forseti félagsins eru mjög áhugasamir um stofnun deildar á Norðausturhorninu og vilja gjarnan koma á kynningar/stofnfund. Enda er hér alveg frábært göngusvæði sem lítið hefur verið kynnt sem slíkt.
Á þessu stigi er nauðsynlegt að fá að vita hvort heimamenn hafa áhuga á þessu verkefni og jafnframt hvort fólk hefur áhuga á að starfa í slíkum félagsskap. Ef áhuginn er fyrir hendi stefnum við á að halda kynningar/stofnfund 24. mars.
Sif Jóhannesdóttir
Verkefnisstóri GEBRIS
Sími: 464 0417, 848 3586
e-mail: sif@atthing.is