Fara í efni

Svissneski ferðalangurinn Jósef Niderberger er kominn til Þórshafnar

Íþróttir
Svissneski ferðalangurinn Jósef Niderberger er kominn til Þórshafnar í tuttugusta og fimmta sinn, með sól í hjarta og glaða lund.Þetta er tuttugasta og fimmta sumar Jósefs á íslandi en að þessu s

Svissneski ferðalangurinn Jósef Niderberger er kominn til Þórshafnar í tuttugusta og fimmta sinn, með sól í hjarta og glaða lund.

Þetta er tuttugasta og fimmta sumar Jósefs á íslandi en að þessu sinni kom hann flugleiðina í stað þess að sigla með Norrænu.

Þessi síungi farfugl varð sjötugur þann 17.maí og hélt upp á daginn á Ytra-Álandi í Þistilfirði, hjá Skúla Ragnarssyni, góðvini sínum og fjölskyldu hans.

Ég er núna gamall, en hjartað er ungt og ég kom með sól í farangri mínum handa Íslendingum, sagði Jósef kátur, þegar fréttaritari heimsótti hann á tjaldstæðið.

Sólin er sannarlega komin og spáð er mikilli veðurblíðu á næstu dögum, svo Jósef er líklega búinn að taka upp farangurinn. Hann ætlar að vera á Þórshöfn í nokkra daga í litla, rauða Suzuki jeppanum frá Skúla bónda, sem gegnir hlutverki húsbíls og er Jósef mjög ánægður með farkostinn.

  Raufarhöfn er næsti viðkomustaður  og þar ætlar Jósef að dvelja meðan hann bíður eftir að Öxarfjarðarheiðin verði fær en hann langar að fara heiðina. Fréttaritari tjáði Jósef að hann gæti þurft að bíða þó nokkra stund eftir því en tími skiptir Jósef ekki máli, það er alltaf gaman á Íslandi og best hér á norðausturhorninu.

Þessi  tuttugu og fimm sumur á Íslandi eru besti tíminn í mínu lífi, það er alltaf gaman á Íslandi, sagði Jósef og sem talar nokkuð góða íslensku og kann Íslendingum bestu þakkir fyrir alúð og gestrisni,

Grein og mynd Líney Sig.