Fara í efni

Tannverndarvika 2015

Fréttir
Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir árlegri tannverndarviku 2. til 7. febrúar 2015. Tannverndarvikan árið 2015 er helguð því að kynna landsmönnum mikilvægi þess að draga úr sykurneyslu. Kjörorð vikunnar er Sjaldan sætindi og í litlu magni. Í tilefni þessa kynnir Embætti landlæknis nýjan vef, www.sykurmagn.is mánudaginn 2. febrúar 2015.

Embætti landlæknis og Tannlæknafélag Íslands standa fyrir árlegri tannverndarviku
2. til 7. febrúar 2015.

Tannverndarvikan árið 2015 er helguð því að kynna landsmönnum mikilvægi þess að draga úr sykurneyslu. Kjörorð vikunnar er Sjaldan sætindi og í litlu magni.
Í tilefni þessa kynnir Embætti landlæknis nýjan vef, www.sykurmagn.is mánudaginn 2. febrúar 2015. Á vefnum eru myndrænar upp¬lýsingar um viðbættan sykur í ýmsum matvælum, sætindum og sykruðum gos- og svaladrykkjum.
Viðbættur sykur er sá sykur sem bætt er í matvæli við framleiðslu þeirra. Um 80% af viðbættum sykri í fæði Íslendinga kemur úr gos- og svaladrykkjum, sælgæti, kökum, kexi og ís, þar af tæpur helmingur úr gos- og svaladrykkjunum.
Vefnum sykurmagn.is er ætlað að efla færni í fæðuvali, en tíð og óhófleg neysla sykurs eykur líkur á tannskemmdum. Með hjálp vefsins geta foreldrar hjálpað börnum sínum að læra að velja æskilegar vörur með minna magni af viðbættum sykri en aðrar sambærilegar vörur. Vefurinn nýtist einnig í kennslu.
Annar liður í tilefni Tannverndarviku er útgáfa myndbandsins Sykur á borðum. Í því er litið inn hjá fjölskyldu sem ætlar að eiga notalega stund við sjónvarpið. Myndbandið verður aðgengilegt á vef Embættis landlæknis frá 2. febrúar á slóðinni http://www.landlaeknir.is/tannvernd.

Tannheilsa
Leiðin að góðri tannheilsu er fyrst og fremst að hirða tennur sínar að lágmarki kvölds og morgna, takmarka neyslu sætinda og sykraðra drykkja ásamt reglulegu tanneftirliti.

Ábyrgð samfélagsins
Til að draga úr neyslu sætinda og sykraðra drykkja eru stjórnendur íþróttamannvirkja, skóla og annarra stofnana hvattir til að leggja áherslu á að hafa hollari vörur í boði. Stjórnendur verslana þar sem sælgæti er til sölu eru einnig hvattir til að endurskoða afsláttarkjör á sælgæti og íhuga að veita afslátt af hollari vörum, s.s. ávöxtum og grænmeti.

Embætti landlæknis hvetur landsmenn til þess að draga úr neyslu gosdrykkja og gæta hófs í neyslu á sælgæti, kökum, kexi og ís auk þess að hirða tennurnar vel því þannig má stuðla að betri heilsu og betri tannheilsu.
Reykjavík, 28. janúar 2015
Birgir Jakobsson landlæknir

Nánari upplýsingar veita: Hólmfríður Guðmundsdóttir og Jóhanna Laufey Ólafsdóttir, verkefnisstjórar tannverndar