Fara í efni

Þekkir þú staðinn, fólkið eða fjöllin?

Fundur
Sýning á um þúsund ljósmyndum sem Þorsteinn Jósepsson tók í Þingeyjarsýslum um miðja 20. öld verður opnuð í listasal á efstu hæð Safnahússins á Húsavík föstudaginn 17. febrúar og stendur til 29. febrú

Sýning á um þúsund ljósmyndum sem Þorsteinn Jósepsson tók í Þingeyjarsýslum um miðja 20. öld verður opnuð í listasal á efstu hæð Safnahússins á Húsavík föstudaginn 17. febrúar og stendur til 29. febrúar. Um er að ræða svokallaða greiningarsýningu en myndirnar eru í eigu Ljósmyndasafns Íslands sem hefur óskað eftir aðstoð við greiningu á myndefni.

Þorsteinn Jósepsson var Borgfirðingur og fæddist á Signýjarstöðum í Hálsasveit. Hann varð á sínum tíma þekktur sem víðförull ferðalangur, rithöfundur og blaðamaður á Vísi, og ekki síst sem ljósmyndari. Þorsteinn lærði aldrei ljósmyndun en vann þrátt fyrir það gríðarlegt verk með því taka ljósmyndir af nær öllu landinu, hverri einustu sýslu og stórum hluta hálendisins, staðháttum og mannlífi. Þorsteinn Jósepsson þótti mjög frambærilegur ljósmyndari og myndir hans birtust í bókum á borð við Ísland í myndum og Landið þitt. Ljósmyndir Þorsteins hafa afskaplega mikið heimildargildi sé litið til hversu yfirgripsmikil og margþætt skráning hans á landi og lífsháttum var, og það er jafnframt ástæðan fyrir því safn Þorsteins er eitt það heildstæðasta og merkasta frá miðri síðustu öld (úr texta eftir Steinar Örn Atlason).

Kjörið tækifæri til að skoða skemmtilegar myndir, grufla í myndefninu og aðstoða við heimildaöflun.

Opið virka daga frá 10-16 og sunnudaginn 26. feb. 13-17.