"Þetta er ekki fiskirí, þetta er mok!"
Þeir gera það ekki endasleppt þessa dagana, strákarnir á Geirnum. Þeir hafa undanfarnar vikur verið í víking í Breiðafirðinum og bókstaflega mokað upp fiski, langt umfram aðra báta eins og Geirfuglanna er von og vísa. Aflasældin er enda farin að vekja athygli allra landsmanna, og þó víðar væri leitað, og hinn virti og víðlesni fréttavefur, mbl.is, sér ástæðu til að vekja athygli á fiskimönnunum úr Langanesbyggð. Þar kemur fram að í febrúar landaði Geirinn 323 tonnum í 16 róðrum, sem hlýtur að vera einhverskonar met. Þeir sem til þekkja fullyrða reyndar að þarna vanti að telja tvo síðustu róðrana í febrúar þannig að ekki er nú allt satt sem stendur í Mogganum. Sagan segir að við munum fljótlega heimta aftur heim þessar hetjur hafsins og er það vel og vonandi mun Geiri landa í heimahöfn miklum og góðum afla um ókomna tíð. Eða eins og góður og gildur Langnesingur sagði eitt sinn: "Þetta er ekki fiskirí. Þetta er mok!"