Tilkynning vegna Covid-19 faraldurs
Fyrst, eru góðu fréttirnar þær, að ENGIN staðfest smit eru á Norðurlandi eystra, þó að um 30 manns séu í einangrun á svæðinu, kl. 18 á föstudegi 13. mars þegar þetta er skrifað.
Þá hefur Langanesbyggð gripið til ýmissa aðgerða vegna smit faraldurs sem í gangi er með Covid-19 veirunni. Vil ég nefna helst að leiðbeiningum er komið á framfæri við okkar starfsfólk eftir því sem þær berast hverju sinni. Það sem hefur verið ákveðið er m.a.:
- Tekið hefur verið fyrir heimsóknir gesta á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Naust.
- Komið hefur verið upp spritt stöndum við allar stofnanir sveitarfélagsins og allir helstu snertifletir í skólunum og á öðrum starfsstöðvum þrifnir sérstaklega.
- Starfsdagur verður í grunnskóla Þórshafnar og leikskólanum Barnabóli nk. mánudag, 16. mars nk. Skólastjórar og starfslið annað þarf að samræma aðgerðir sínar og meta stöðuna.
- Langanesbyggð hefur sett á laggirnar aðgerða- og viðbragðsteymi forstöðumanna allra deilda sveitarfélagsins sem fylgist grant með málum og kemur upplýsingum á framfæri eftir því sem við á hverju sinni. Oddviti Svalbarðshrepps er einnig í þessu viðbragðsteymi.
- Best er að koma ábendingum eða tillögum til sveitarfélagsins á netfangið langanesbyggd@langanesbyggd.is
Þeir framhaldsskólanemendur sem nú eru að snúa heim eftir að skólum þeirra hefur verið lokað, koma frá stöðum þar sem ENGIN þekkt smit eru.
Enn fremur hafa þeir Langnesingar og aðrir sem er von á eða hafa komið frá útlöndum verið ráðlagt,að þótt þeir komi frá öruggum svæðum, að halda sig heima við næstu tvær vikurnar, eða þar til að hægt er að útiloka smit frá þeim.
Þá eru þeir tveir útlendingar í sóttkví til 21. mars a.m.k. sem ráðnir hafa verið til starfa í byggðarlaginu og komu í gær, fimmtudag, til Þórshafnar. Þeir koma ekki til starfa hér fyrr en útilokað er að þeir séu með smit. Það voru sóttvarnaryfirvöld í Reykjavík sem gáfu þeim leyfi til að ferðast. Í varúðarskyni eru þau í einangrun, eins og áður segir, þó svo að þau hafi engin einkenni veirusmits.
Að lokum, er því beint til allra að fylgast vel með fréttum og upplýsingum frá landlækni um ástand og dreifingu smits. Við munum eftir því sem best getum, koma upplýsingum á framfæri og gera það sem í okkar valdi stendur, þar til þessa ástand er yfirstaðið.
Jónas Egilsson, starfandi sveitarstjóri.