Tundurdufl á Langanesi
Listamaðurinn Jóhann Ingimarsson, sem rekur ættir sínar til Þórshafnar, afhjúpaði fyrr í sumar listaverkið Tundurdufl við Skoruvík á Langanesi. Við afhjúpun verksins rakti Jóhann, eða Nói eins og hann er ætíð kallaður, tildrög og forsögu verksins sem hann sagði að væri orðin æði löng. Hann sagði að í sínum huga ætti verkið hvergi betur heima en á Langanesi en tundurdufl voru á stríðsárunum mikil vá fyrir ábúendur Langaness. Nói sagðist vonast til þess að verkið ætti eftir standa um aldur og ævi til að minna á styrjaldir og óheyrilega grimmd mannsins.
Jafnframt minnir það okkur á að við Íslendingar drógumst að okkur forspurðum inni í þann mikla hildarleik og hér lengst norður í landi rak ófá tundurduflin á land. Þessir víðsjálsgripir hafa grandað mörgu mannslífinu, hér við land og annars staðar í heiminum og oftar en ekki voru blásaklausir sjófarendur fórnarlömbin. Mér finnst vel við hæfi að reisa þeim öllum þennan bautastein, ef svo má að orði komast, og láta þessar minjar um stríð gnæfa við loft hér í friðsælli náttúrunni," sagði Nói meðal annars við afhjúpun verksins.
Tundurduflið sem Nói notaði í verkið fékk hann hjá Landhelgisgæslunni en undirstöðurnar undir duflið voru smíðaðar af nemendum í Grunnskóla Þórshafnar í verknámi sl. vetur. Hugmynd Nóa er að hlaða nokkurs konar vörðu undir duflið og hvetur hann alla sem leið eiga út á Langanes að grípa með sér fjörugrjót og hlaða undir duflið.