Úr bæjarlífinu
7. desember 2007
Aðventan er gengin í garð og hér í Langanesbyggð eru fyrstu jólaljósin farin að lýsa upp skammdegismyrkrið. Öll birta hefur löngum verið kærkomin á norðurslóðum á þessum árstíma þegar dagsbirtu nýtur aðeins í örfáar stundir á sólarhring og umhverfið breytir um svip, eftir því sem ljósunum fjölgar. Það er þó fleira en ljósin, sem lífgar upp á byggðarlagið í desember; unga fólkið sem farið hefur í burtu til framhaldsnáms kemur heim í frí með tilheyrandi lífsfjöri æskunnar og aftur fjölgar í byggðinni.
Rithöfundakvöld
Með aðventukomu færast jólin nær í huga fólks og þá er tími til að huga að jólabókunum. Fræðslu- og menningarmálanefnd Langanesbyggðar blés því til rithöfundakvölds á veitingastaðnum Eyrinni og fékk þangað rithöfunda til að lesa úr bókum sínum. Þrátt fyrir hryssingslegt veður og afleita færð þetta föstudagskvöld þá fjölmennti fólk á staðinn og hlýddi á þau Jón Kalmann Stefánsson, Kristínu Svövu Tómasdóttur, Pétur Blöndal, Vigdísi Grímsdóttur og Þráin Bertelsson. Til viðbótar var einnig skáld úr heimabyggðinni, Páll Jónasson frá Hlíð, sem las úr ljóðabók sinni.
Slík menningarkvöld eru nú orðinn árviss viðburður á Þórshöfn á aðventunni og þykir hin besta skemmtun.
Jólahlaðborð með skemmtidagskrá og dansleik var síðan á laugardagskvöldið svo fólk hafi nóg við að vera um helgina. Hefð er fyrir því að Björgunarsveitin Hafliði og Leikfélagið sjái sameiginlega um skemmtun í félagsheimilinu í tengslum við 1.desember en fullveldisins hefur lengi verið minnst með hátíðahöldum af ýmsu tagi. Slík samvinna félagasamtakanna hefur reynst ágætlega en Leikfélagið á veg og vanda af skemmtidagskrá en Björgunarsveit hefur jólahlaðborðið og dansleik á sinni könnu.
Myndir frá Rithöfundakvöldi og Jólahlaðborði
Grein Líney Sigurðardóttir yfir 100 Myndir Teknar af Líney Sigurðardóttur, Hilmu Steinarsdóttir og Siggeiri Stefánsyni