Útsýnispallurinn á Skoruvíkurbjargi á Langanesi
Eftirfarandi frétt er tekin af vef mbl.is
Vinnuaðstæðurnar eru svolítið svakalegar,“ sagði Ómar Hafliðason, atvinnukafari og eigandi Köfunarþjónustunnar. Hann var ekki að lýsa aðstæðum á hafsbotni heldur á blábrún Skoruvíkurbjargs á Langanesi. Þar er verið að undirbúa að reisa útsýnispall á bjargbrúninni.
Þar hefur hann ásamt fjórum samstarfsmönnum unnið við að bora holur og steypa festingar í bjargbrúnina. „Við höngum í siglínum meira og minna. Við þurftum að fara fram af brúninni til að bora síðustu holuna. Þetta er mikið unnið á handaflinu. Við verðum að taka borinn allan í sundur til að færa hann og setja hann svo aftur saman á nýjum stað. Aðstæðurnar eru svo erfiðar að við verðum að létta borinn eins og við getum til að geta fært hann á milli holna.“
Lofthræddir strax sendir heim
Köfunarþjónustan á mjög öfluga steypudælu sem er notuð til að dæla steypunni, eða boltagrautnum, í holurnar. Hún getur dælt steypunni hátt upp og þrýst henni í þröngar holur. „Við eigum þessar græjur og það er ábyggilega ástæðan fyrir því að við fáum svona verkefni,“ sagði Ómar. Þeir eru ekki óvanir krefjandi aðstæðum í miklum bratta og hafa m.a. unnið við uppsetningu snjóflóðavarna í Neskaupstað og öryggisneta í Hamrahvammagljúfri við Kárahnjúkastífluna. Eru starfsmennirnir nokkuð lofthræddir?
„Það er svolítið síðan þeir hættu því,“ sagði Ómar. „Þeir lofthræddu eru sendir strax heim.“ Öryggi starfsmannanna er tryggt með sigbeltum, öryggislínum, hjálmum og öðrum öryggisbúnaði.
Útsýnispallurinn á Skoruvíkurbjargi verður einstakur á Íslandi, segir Ómar. „Ég man ekki eftir að hafa séð neinn svipaðan útsýnispall hér á landi. Maður hefur séð svona pall í Miklagljúfri [Grand Canyon] í Bandaríkjunum,“ sagði Ómar.
Í haust á að steypa undirstöðurnar og mun vera stefnt að smíði pallsins næsta vor.