Fara í efni

Útsýnispallurinn við Stóra Karl kominn upp

Fréttir
Í dag var útsýnispallurinn á Skoruvíkurbjargi hífður niður á undirstöðurnar og gekk það vonum framar. Útsýnispallurinn á Skoruvíkurbjargi er einstakur á landsvísu og jafnvel heimsvísu. Þetta er því stór dagur fyrir Langanesbyggð og fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi en pallurinn mun án efa verða aðdráttarafl ferðamanna um ókomna tíð.

Í dag var útsýnispallurinn á Skoruvíkurbjargi hífður niður á undirstöðurnar og gekk það vonum framar. Útsýnispallurinn á Skoruvíkurbjargi er einstakur á landsvísu og jafnvel  heimsvísu og kemur þar margt til. Á Langanesi er einstök náttúrufegurð og með tilkomu pallsins er verið að greiða aðgang ferðamanna að þessari náttúruperlu og  fjölskrúðugu fuglalífi  um leið og leitast er við að tryggja öryggi ferðamanna. Pallurinn er staðsettur á góðum stað og er 10 metra langur og af honum er hægt að sjá einstakt sjónarhorn af þessu stórbrotna svæði.

Undirbúningur að þessu hófst hjá Langanesbyggð árið 2011 og síðan þá hefur verið unnið jafnt og þétt að verkefninu. Faglausn á Húsavík hefur stýrt verkefninu síðan 2012 og séð um hönnun á útsýnispallinum. Undirstöðurnar voru steyptar sl. haust. Vélsmiðjan Hamar á síðan heiðurinn af því að smíða pallinn og koma honum á sinn stað. Það hafa því margir komið að verkinu.

Þá hafa fjölmargir aðilar haft trú á verkefninu og hefur það hlotið myndarlega styrki víða að. Framkvæmdarsjóður Ferðamannastaða er stærsti styrktaraðilinn og með aðkomu hans að verkefninu var ljóst að mögulegt væri að hefja framkvæmdir.

Þetta er því stór dagur fyrir Langanesbyggð og fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðausturlandi en pallurinn mun án efa verða aðdráttarafl ferðamanna um ókomna tíð.

Formleg opnun á pallinum verður auglýst innan skamms.

Fleiri myndir af uppsetningunni má sjá á Facebooksíðu Langanesbyggðar