Fara í efni

Vatnamýs á Þórshöfn

Fundur
Það rekur ýmislegt á fjörur okkar hér á Langanesi. Árrisulir náttúruunnendur urðu fyrir fáeinum dögum varir við furðuleg fyrirbrigði í fjörunni hér í þorpinu, einhverskonar þarakúlur í mikilli breiðu

Vatnamýs!

Það rekur ýmislegt á fjörur okkar hér á Langanesi. Árrisulir náttúruunnendur urðu fyrir fáeinum dögum varir við furðuleg fyrirbrigði í fjörunni hér í þorpinu, einhverskonar þarakúlur í mikilli breiðu í fjörunni. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hér var um að ræða svokallaðar vatnamýs. Sóley Vífilsdóttir, hirðljósmyndari Þórshafnar, myndaði fyrirbrigðið í bak og fyrir og sendi fyrirspurn til Náttúrufræðistofnunar. Þar á bæ vættu menn nærri nærhöld sín af spenningi og upplýstu að vatnamýs eru sjaldgæft og fátítt fyrirbæri. Gefum Ævari Petersen hjá Nátturufræðistofnun orðið:

Árið 1988 var aðeins vitað um þrjú tilvik um vatnamýs en síðan hafa fimm staðir bæst við. Vatnamýs eru greinilega sárasjaldgæfar.
Vatnamýs myndast í ferskvatni en tvisvar veit ég til þess að þær hafi borist til sjávar. Mér sýnast kúlurnar á myndunum vera búnar til úr mosa (og kannski einhverjum öðrum gróðri í bland) en ekki þangi sem þýðir að þær hafa myndast í fersku vatni. Kannski hafa þær borist niður Hafralónsá og síðan með straumum og öldum til Þórshafnar. Svo vill til að neðst við Hafralónsá breikkar áin áður en hún rennur til sjávar um ósinn. Vatnamýs virðast myndast við slíkar aðstæður enda er þar hringiður sem sennilega mynda vatnamýsnar.

Ævar fer síðan fram á það við Sóley að hún afli fleiri rannsóknargagna um vatnamýsnar, enda hafi aldrei fundist viðlíka magn af vatnamúsum hér á landi áður. Heimtar Ævar að fá send sýni, upplýsingar lengd og breidd vatnamúsabreiðunnar í fjörunni og vitaskuld fleiri myndir.