Veiðimenn vitni að afar öflugum laxagöngum í Vopnafirði
Það er mok hér í Selá," sagði Gísli Ásgeirsson í gær en hann er við leiðsögn í Selá í Vopnafirði.
Hér er sex stiga hiti, rigning og norðan hvassviðri en það er ótrúlegt magn af fiski að ganga í ána þessa dagana. Ég á ekki orð yfir magnið af laxinum. Maður trúir þessu ekki. Laxar vaða upp ána, laxar af öllum stærðum, stórlaxar, vænir smálaxar og svo líka pínulitlir.
Við erum með fimm laxa kvóta á hverri vakt og flestar stanganna eru núna að taka kvótann á hverri vakt. Þessar átta stangir í ánni hafa verið að veiða um 50 laxa á dag síðustu daga."
Gísli tók dæmi um erlenda veiðimanninn sem hann er að segja til í ánni þessa dagana. "Í gærmorgun landaði hann fimm löxum í fyrstu tveimur hyljunum sem hann fór í á sínu svæði, en alls eru þar ellefu veiðistaðir. Hann komst ekki í hina var búinn að fá sína fimm. Fiskarnir voru þrjú, sjö, tíu, tólf og sautján pund allur stærðarskalinn. Kvöldið áður veiddi hann fjóra en tvo fyrstu vaktina, þá missti hann líka þrjá."
Hofsá að detta í fluggír
Um hádegi í gær hafði Selá gefið 1.134 laxa. Gísli hefur einnig fylgst með í nágrannaánni, Hofsá, og segir hann veiðina hafa verið rólegri en í Selá en nú sé líka að lifna verulega yfir veiðinni þar. "Það er mikið í gangi á neðri svæðunum. Hofsá er að detta í fluggír. Það er mikið að gerast á neðri svæðunum í henni."
Þá segir hann þriðju ána á svæðinu, Vesturdalsá, einnig vera í fínum málum. Þar hefur umfangsmikið rannsóknarverkefni verið í gangi síðustu árin, áin lítið verið veidd en vel fylgst með stofninum. "Þar er nú fiskur í hverjum hyl; 270 laxar eru gengnir í ána en um 170 gengu allt sumarið í fyrra," segir Gísli.
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is