Vel heppnaðir opnunartónleikar
Á föstudaginn voru opnunartónleikar á tónleikaröðinni Spilað fyrir hafið en þar mun Haukur Þórðarson gítarleikari og nemi í FÍH spila daglega við vitann á Fonti á Langanesi. Spilað er í tæpan klukkutíma í senn og eru tónleikarnir klukkan 15 alla daga fram til 1. ágúst en þá eru lokatónleikarnir. Það var vel mætt á opnunartónleikana þar sem rúmlega 50 gestir hlýddu tónlistina á þessum magnþrungna stað sem er líkt og komið sé á heimsenda. Veitingastaðurinn Báran sá um léttar veitingar sem allar voru með sjávarfangi en yfirskrift tónleikanna er að heiðra hafið fyrir allt sem það hefur gefið en einnig minnast þess sem það hefur tekið. Verkefnið er á vegum Langanesbyggðar en uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkti verkefnið. Frá Þórshöfn tekur um einn og hálfan tíma að keyra út á Font en leiðin er ekki hentug fólksbílum. Þá er um að gera að nýta ferðina og fara útá útsýnispallinn á Skoruvíkurbjargi og skoða eyðiþorpið að Skálum.
Ljósmyndir Gréta Bergrún