Veraldarvinir í heimsókn
Veraldarvinir eru komnir til að leggja hönd á plóg hér í Langanesbyggð í sumar í tiltektir o.fl. Um er að ræða erlenda gesti sem koma til okkar og vinna sem sjálfboðaliðar að ýmsum þarflegum verkefnum. Þeir hafa gengið fjörur og tínt plastrusl o.fl. sem rekið hefur á land. Veraldarvinir eru alþjóðleg samtök sjálfboðaliða sem nýta tækifæri til að heimsækja fjarlæg lönd samhliða því að taka til hendinni og hjálpa til.
Fyrsti hópurinn kom í liðinni viku og hefur farið um fjörur bæði á Þórshöfn og frá Grenjanesvita austur að gamla flugvellinum og er myndin tekin úr þeim leiðangri. Næsti hópur kemur í þessari viku og lýkur heimsóknum þeirra um miðjan ágúst, en alls er áætlað að fimm hópar komi til okkar í sumar og fara a.m.k. tveir þeirra á Bakkafjörð og nágrenni.
Gestir okkar hafa líka notið náttúrunnar hér um slóðir, farið á sjó og fleira.