Yfirlýsing frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga
4. apríl 2009
Vegna fregna af breytingum á vaktafyrirkomulagi sjúkraflutningsmanna á Þórshöfn vill Heilbrigðisstofnun Þingeyinga taka fram eftirfarandi:
Ákveðið hefur verið að læknir eða hjúkrunarfræðingur og einn sjúkraflutningamaður verði jafnan á sólarhringssvakt á Þórshöfn. Með því fyrirkomulagi verða ávallt tveir heilbrigðisstarfsmenn á vakt. Tekið skal fram að með þessu breytta vaktafyrirkomulagi er einnig gert ráð fyrir að heimilt sé að kalla út annan sjúkraflutningamann náist til hans. Auk þess er sjúkraflutningamaður á vakt á Raufarhöfn og annar á Kópaskeri. Aldrei hefur staðið til að senda sjúkraflutningamenn eina í flutninga. Læknir eða hjúkrunarfræðingur eða annar sjúkraflutningamaður eru jafnan með í för. Er þetta sama fyrirkomulag og í gildi er á Kópaskeri.
Þetta fyrirkomulag er í fullu samræmi við tilmæli, sem borist hafa frá landlækni, varðandi sjúkraflutninga. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga telur að með fyrirhuguðum breytingum sé öryggi íbúa ekki stefnt í tvísýnu og er það harmað að ekki skuli hafa náðst samkomulag við sjúkraflutningamenn á þessum grundvelli.
Þær breytingar sem ákveðnar voru á vaktafyrirkomulagi sjúkraflutningamanna á Þórshöfn eru gerðar í sparnaðarskyni. Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga telur að þær hafi ekki áhrif á öryggi íbúa. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga stendur frammi fyrir því verkefni að veita íbúum í Þingeyjarsýslum heilbrigðisþjónustu með takmörkuðu fjármagni. Undanfarna mánuði hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að ráða bug á rekstrarvanda stofnunarinnar og mæta lækkuðum fjárheimildum. Fjárhagslegt svigrúm stofnunarinnar til að falla frá einhverjum aðgerðum til lækkunar á kostnaði er afar takmarkað og þarf að byggjast á skýrum faglegum rökum.
Vert er að taka fram að á meðan enginn sjúkraflutningamaður er við störf á Þórshöfn er sjúkraflutningum sinnt frá Raufarhöfn. Þá er læknir á vakt allan sólahringinn á Þórshöfn.