19. fundur byggðarráðs
19. fundur, byggðarráðs Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Fjarðarvegi 3, Þórshöfn fimmtudaginn 20. febrúar 2020. Fundur var settur kl. 12:05.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson formaður, Halldór Rúnar Stefánsson, Siggeir Stefánsson og Jónas Egilsson starfandi sveitarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.
Jón Rúnar Jónsson forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Langanesbyggðar sat fundinn undir liðum 1 og 2.
Formaður setti fund og stjórnaði.
Fundargerð
1. Véla- og tækjakaup Þjónustumiðstöðvar
Jón Rúnar Jónsson fór yfir og kynnti tillögur um ástæður fyrir kaupum á vélum fyrir Þjónustumiðstöðina.
Afgreiðslu málsins frestað til næsta fundar byggðaráðs.
Samþykkt.
2. Lekamál í grunnskólanum
Jón Rúnar gerði grein fyrir vatnsleka um loftræstikerfi grunnskólans. Svo virðist sem að blási úrkomu inn í kerfið. Varanlegt tjón hefur ekki komið í ljós, en talverð óþægindi og vinna hefur skapast þegar vatn flæðir um skólabygginguna.
Bókun um afgreiðslu: Forstöðumanni þjónustumiðstöðvar er falið að kanna orsök lekans og gera tillögur til úrbóta í samvinnu við sveitarstjóra. Einnig ákveðið að kanna mögulega skaðabótaskyldu verktaka sem lögðu og hönnuðu kerfið.
Samþykkt.
3. Fundargerð 14. fundar skipulags- og umhverfisnefndar
Liður 1 – Samningur við Íslenska gámafélagið
Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð tekur undir bókun nefndarinnar um að haldið skuli áfram samstarfi við Íslenska gámafélagið um sorphirðu á grundvelli samnings við félagið frá 2017. Byggðaráð telur að uppfæra eigi samninginn í samræmi við nýjar kröfur og stefnu um sorpskil og flokkun sem gerðar eru til sveitarfélagsins.
Samþykkt.
Fundargerðin framlögð og staðfest.
4. Fundargerð 15. fundar skipulags- og umhverfisnefndar
Liður 3.1 – Samningur við Íslenska gámafélagið – framhald umræðu
Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð felur sveitarstjóra og forstöðumanni Þjónustumiðstöðvar falið að kanna möguleika á og útfæra hugmyndir um að bjóða íbúum upp á sérstaka moltukassa eða tunnu til að sinna jarðgerð. Þá er þeim falið að gera tillögur um útfærslu á möguleika á kaupum eða leigu á tveimur 40 feta gámum fyrir úrgang til endurvinnslu fyrir íbúa.
Samþykkt.
Liður 3.2 – Skógrækt í Langanesbyggð
Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð samþykkir tillögu nefndarinnar og leggur til að svæði merkt B verði úthlutað til Skógræktarfélags Þórshafnar í samræmi við fyrirætlanir þess um skógrækt. Sveitarstjóra er jafnframt falið að kanna aðrar samningsskuldbindingar sveitarfélagsins á svæðinu.
Samþykkt.
Fundagerðin framlögð staðfest.
5. Fundargerð 5. verkfundar vegna framkvæmda á Hjúkrunarheimilinu Nausti
Fundargerðin lögð fram.
6. Samstarfssamningur milli HSN og Nausts vegna bakvaktaskipta
Minnisblað frá hjúkrunarforstjóra Nausts frá 2016 og samstarfssamningur við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga frá 2013 lagt fram.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra, í samráði við hjúkrunarforstjóra, falið að ganga frá nýjum samstarfssamningi við HNE á grundvelli framlagðs minnisblaðs og fyrri samnings, með fyrirvara um endanlegt samþykki byggðaráðs.
Samþykkt.
7. Félagsmiðstöð, beiðni um endurbætur
Lagt fram erindi umsjónarkvenna Svarthols með ábendingum um að núverandi húsnæði fyrir starfsemi félagsmiðstöðvarinnar væri bæði ófullnægjandi og þarfnaðist lagfæringa við.
Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð þakkar bréfriturum fyrir gott bréf og tillögur og felur forstöðumanni þjónustumiðstöðvar að gera tillögur um lagfæringar á húsnæðinu tímabundið í samvinnu við bréfritara og leggja tillögur fyrir næsta fund byggðaráðs.
Samþykkt.
8. Erindi frá UMFL með ósk um samtarf
Lagt fram erindi formanns UMFL, dags. 17. febrúar 2020. Farið er fram á viðræður við sveitarfélagið um samstarf í íþrótta- og æskulýðsmálum.
Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð tekur jákvætt í erindið og vísar til velferðar- og fræðslunefndar sem og starfshóps um heilsueflandi samfélag til umsagnar.
Samþykkt.
9. Greið leið boðun aukaaðalfundar
Boð um aðalfund Greiðrar leiðar ehf. sem haldinn verður 25. febrúar nk. lagt fram.
10. Aðalfundur Samorku boðun aðalfundar
Boð um aðalfund Samorku þann 10. mars nk. lagt fram.
11. Lagfæringar á hafnarsvæðum í Langanesbyggð
Tölvupóstur frá Fannari Gíslasyni forstöðumanni hafnardeildar Vegagerðarinnar, dags. 13. febrúar 2020, lagður fram.
Bókun um afgreiðslu: Ákveðið að taka málið til umræðu á næstu fundum byggðaráðs og hafnarnefndar og fá hagsmunaaðila að borðinu.
Samþykkt.
12. Starfsmannamál skrifstofu
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra heimilað að ráða starfsmann á skrifstofuna tímabundið vegna forfalla.
Samþykkt.
13. Tillögur um úrbætur í umferðarmálum/umferðaröryggi á Þórshöfn
Tillögur um úrbætur í umferðarmálum/umferðaröryggi á Þórshöfn frá Steinari Þór Snorrasyni varðstjóra lagt fram.
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að senda tillögur til Vegagerðarinnar um breyttan hámarkshraða og óska eftir úrbótum á öðrum atriðum.
Samþykkt.
14. Vinnufundur sveitarstjórnar vegna framkvæmda- og fjárfestingaráætlunar 2020
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að efna til vinnufundar sveitarstjórnar nk. mánudag til að yfirfara tillögur að framkvæmda- og fjárfestingaráætlun 2020.
Samþykkt.
15. Bifreiðaskoðun hætt í Langanesbyggð
Frumherji hefur ákveðið að hætta þjónustu hér á Þórshöfn og nágrenni eftir að starfsmaður fyrirtækisins á Húsavík lætur af störfum. Samstarfssamningi við verkstæðið Mótorhaus á Þórshöfn hefur verið sagt upp.
Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð Langanesbyggðar harmar þá ákvörðun Frumherja að hætta bifreiðaskoðun í Langanesbyggð og hvetur stjórnendur fyrirtækisins að endurskoða hana. Íbúar við Bakkaflóa og Þistilfjörð þurfa eftir þetta að aka um langan veg og taka sér frí úr vinnu a.m.k. í einn dag til að láta skoða ökutæki sín, sem er í raun óboðlegt.
Sveitarstjóra er falið að koma þessari bókun á framfæri við stjórn Frumherja og aðra sem eiga hlut að máli. Einnig er honum falið að leita til annarra aðila sem mögulega gætu sinnt þessari þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:00.