Fara í efni

1.fundur byggðaráðs í sameinuðu sveitarfélagi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps

30.06.2022 12:00

Fundur byggðaráðs

Fyrsti fundur byggðaráðs í sameinuðu sveitarfélagi Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps haldinn í fundarsal skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, fimmtudaginn 30. júní 2022 kl. 12:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson formaður, Þorsteinn Ægir Egilsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Valdimar Halldórsson og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð.
Formaður setti fundinn og spurði hvor gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

Fundargerð

  1. Nafn sveitarfélagsins.
    Byggðaráð samþykkir að hafa rafræna skoðanakönnun um nöfnin Langanesbyggð, Langanesþing og Norðausturbyggð og atkvæðisrétt hafa íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu 16 ára og eldri. Rökstuðningur frá örnefnanefnd lagður fram.
  2. Nýtt byggðamerki sameinaðs sveitarfélags.
    Tillögur höfundar merkis kynntar. Halldóru Jóhönnu falið að útfæra og velja tvö merki í samráði við hönnuð, sem verður kosið um jafnhliða nafnakönnun.
  3. Fjármál sveitarfélagsins.
    1. Drög að 4 mánaða uppgjöri Langanesbyggðar lögð fram til kynningar.
    2. Fyrirhugaðar smærri fjárfestingar, yfirlit kynnt.
    3. Samskipti við Jöfnunarsjóð og bréf lagt fram til kynningar.
    4. Bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga lagt fram til kynningar, og vísað til sveitarstjórnar.
      Sigurður Þór lagði fram eftirfarandi bókun:
      Með hliðsjón af framkomnum upplýsingum þar sem 4 mánaða uppgjör Langanesbyggðar, sem myndar ca. 90% af fjárhag sameinaðs sveitarfélags A og B deildar, sýnir halla það sem af er ári upp á 35 milljónir og skuldir sveitafélagsins eru ríflega 861 milljónir og þar af skammtíma yfirdráttarlán upp á ríflegar 55 milljónir, er ljóst að auka þarf útgjaldaaðhald hjá sveitafélaginu.
      Samanlagðar fjárhagsáætlanir sveitafélagana gerðu ráð fyrir halla upp á tæpar 2 milljónir og miðað við núverandi upplýsingar er það að öllum líkindum talsvert vanmat. Fjármagnsgjöld eru á 4 mánuðum komin í 30 milljónir en fjárhagsáætlun 2022 gerði ráð fyrir 46 milljónum allt árið.
      Yfirstandandi eru framkvæmdir við malbikun á Þórshöfn og nokkur smærri verkefni að fjárhæð sem endar varla undir 42 milljónum kr. Auk þess er hafinn undirbúningur að viðhaldi Sportvers og þar verður fjárþörf fyrir að lágmarki 65 milljónir á þessu ári ef núverandi áætlun verður haldið áfram.
      Jöfnunarsjóður hefur staðfest fjárhæðir vegna sameiningar sem greiddar verða út á næstu 7 árum. Eru það 330 milljónir í skuldajöfnunarframlag, 200 milljónir í fast framlag vegna sameiningar og 28 milljónir í byggðaframlag. Búast má við að allt að 55 milljónir fáist núna um mitt ár og mun það duga til fjármagna yfirdrátt. Aðrar 55 milljónir má búast við að berist í lok árs og munu þær ekki duga til að fjármagna rekstrarhalla og framkvæmdir. Þá hefur eftirlitsnefnd með fjármálum sveitafélaga sent okkur áminningu um að við stöndumst ekki rekstraviðmið og höfum einungis til ársins 2026 að ná þeim viðmiðum. Við sem sitjum í sveitarstjórn verðum að taka innihaldi slíks bréfs af ábyrgð og reyna að sjá til þess að slík bréf hætti að koma inn um lúguna okkar.
      Byggðaráð leggur fram eftirfarandi tillögu:
      Að framansögðu og að teknu tilliti til núverandi verðbólgustigs og óvissu í efnahagsmálum felur Byggðarráð verkefnisstjóra að halda áfram rýni á rekstri sveitafélagsins, leita leiða til tekjusóknar, leita leiða til sparnaðar og að auka útgjaldaaðhald og leggja fyrir byggðaráð. Halda áfram samræmingu fjárhags sameinaðs sveitarfélags þannig að stofnefnahagur verði ljós um leið og bókhald hefur verið fært vegna maí mánaðar. Auk þess verði honum falið að gera tillögur að hagfelldri fjármögnun þeirra verkefna sem nú standa yfir og ljóst er að sveitarfélagið hefur gengist undir að vinna.
      Tillagan samþykkt samhljóða.
  4. Uppsögn á samningi við Faglausn ehf.
    Málinu vísað til sveitarstjórnar.
  5. Starfsmannamál.
    1. Tillaga að ráðningu skrifstofustjóra.
      Tvær umsóknir bárust. Byggðaráð samþykkir að fela verkefnastjóra að ganga til samninga við Bjarnheiði Jónsdóttur.
    2. Tillaga að fresta ráðningu verkefnisstjóra í nýsköpunarmálum fram á síðsumar/haust. Samþykkt að fresta ráðningunni meðan verið er að þróa verkefnið betur í samvinnu við SSNE og Þekkingarnet Þingeyinga.
    3. Tillaga að uppgjöri vegna vinnuframlags fv. oddvita við frágang gagna Svalbarðshrepps. Þorsteinn gerir athugasemd við að Sigurður sitji fund undir þessum lið. Samþykkt að fela verkefnastjóra að gera samning við Sigurð og leggja fyrir næsta fund sveitarstjórnar.
  6. Leigufélagið Bríet. Svar við erindi Langanesbyggðar um byggingu íbúða á Þórshöfn.
    Byggðaráð fagnar ákvörðun stjórnar Bríetar um uppbyggingu í sveitarfélaginu. Verkefnastjóra falið að vinna þetta verkefni áfram og leita að samstarfsaðilum og vísa til skipulags-og umhverfisnefndar að finna hentugar lóðir fyrir slíkar byggingar.
  7. Hafna- og sjóvarnarverkefni á samgönguáætlun 2023-2027.
    Svar frá Vegagerðinni kynnt.
    Þorsteinn lagði fram eftirfarandi tillögu:
    Byggðaráð felur verkefnastjóra að sækja um fjármagn í framkvæmdir í Þórshafnarhöfn og til sjóvarna úti á Langanesi.
    Tillagan samþykkt samhljóða.
    Þorsteinn þarf að yfirgefa fundinn.
  8. Erindisbréf. Samþykktir um stjórn og fundarsköp sameinaðs sveitarfélags.
    Lagt fram til kynningar.
  9. Menningarsjóður. Næsta úthlutun.
    Frestað til næsta fundar byggðaráðs.
  10. Fundarstjórn & fundarsköp og fundur með formönnum deilda.
    Frestað til næsta fundar byggðaráðs.
  11. Sauðaneshús.
    Byggðaráð felur verkefnastjóra að hafa samband við menningarmiðstöð Þingeyinga.
  12. Viljayfirlýsing um björgunarmiðstöð.
    Frestað til næsta fundar byggðaráðs.
  13. Beitningahöll.
    Byggðaráð felur verkefnastjóra að hitta vinnuhóp um beitningahöllina.

Fundargerð upplesin og samþykkt.
Fundi slitið kl.14.50

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?