Fara í efni

10 fundur hverfisráðs Bkkafjarðar

30.08.2021 16:00

Fundargerð Hverfisráð Bakkafjarðar

10. fundur í Hverfisráði Bakkafjarðar, haldinn mánudaginn 30. ágúst 2021 kl. 16:00. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Skólagötu 5, Bakkafirði.

Mættir eftirtaldir nefndarmenn og varamenn: Áki Guðmundsson í fjarfundarsambandi, Freydís Sjöfn Magnúsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Rósa Björk Magnúsdóttir. Forföll tilkynntu: Hafliði Jónsson.

Auk þess sátu fundinn: Jónas Egilsson sveitarstjóri og Gunnar Már Gunnarsson verkefnisstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.

Dagskrá

1. Farið yfir drög að dagskrá fyrir íbúafund.
Sveitarstjóri og verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar kynntu drög að dagskrá fyrir íbúafund. Dagskrá rædd og tala um mikilvægi þess að Hverfaráð taki þátt í umræðunni um samfélagssáttmálann, þegar hún verður kynnt. Mikilvægt í framhaldinu að fá ríkið að borðinu sömuleiðis, og sýna að það sé vilji til að styðja við byggðina. Fulltrúar Byggðastofnunar í Betri Bakkafirði hafa farið yfir drög að samfélagssáttmála og sent athugasemdir. Lokaútgáfu skjalsins verður stillt upp að íbúafundi loknum og mun verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar aðstoða við þá vinnu sem eftir er.

2. Önnur mál:

a. Rætt um nauðsynlegt viðhald á girðingum til að koma í veg fyrir lausagöngu fjár í byggð. Í því samhengi kom fram ábending um að huga vel að prílum yfir girðingar og að þær séu til staðar nógu víða. Sveitarstjóri meðvitaður um þörfina og mun koma því máli áfram.

b. Sveitarstjóri spurður um sturtuaðstöðu á tjaldstæði. Sveitarstjóri fór yfir stöðuna, en sveitarfélagið vann það verk upp á nýtt þar sem verkefnið hafði ekki verið klára af fyrri verktaka. Styrkur fékkst í verkefni frá Brothættum byggðum og sá styrkur verið nýttur. Mannekla hefur þó komið í veg fyrir að hægt væri að klára verkefnið, en núverandi rekstraraðili tjaldsvæðisins hefur nú tekið það að sér að klára það.

c. Sveitarstjóri spurður út í viðræður við Vopnafjarðarhrepp um urðunarmál. Það samtal er enn í gangi og kvaðst sveitarstjóri ákveðinn í að vinna áfram í að leysa málið.

d. Hverfaráð lýsti yfir furðu með tafir á framkvæmdum við Tangann. Sveitarstjóri sammála að þær væru óheppilegar. Fyrirhugaðir eru fundir með framkvæmdaaðila, en sveitarstjóri leggur áherslu á að verkinu verði lokið sem fyrst. Sveitarstjóri einnig spurður um upplýsingaskilti sem setja á upp á Tanganum. Efnisleg vinna langt komin fyrir skilti um tengsl Færeyinga við svæðið en sveitarstjóri ætlar að kanna stöðu þessa máls betur fyrir næsta fund.

e. Ónýt leiktæki hafa verið fjarlægð af leikvelli en Hverfaráð benti á að enn ætti eftir að setja upp ný leiktæki í staðinn. Hins vegar hefur Ungmennafélag Langnesinga sett upp svokallaðan ærslabelg og von er á frisbígolfvelli. Hverfaráð fagnar þeim viðbótum, sem draga þó ekki úr þörfinni á nýjum leiktækjum. Þá spyr Hverfaráð hvaða hugmyndi séu uppi um hvenær eigi að vera kveikt á loftdælunni fyrir ærslabelginn. Einnig bent á að merkingar vanti. Sveitarstjóri kvaðst mundu athuga þessi atriði.

f. Hverfaráð ræddi opnunartíma á búð og veitingastað, og velti því fyrir sér hvort núverandi opnunartími sé of takmarkaður. Einnig fjallað um mikilvægi þess að gamli barnaskólinn sé aðgengilegur íbúum og að haldið sé utan um allan þann búnað sem tilheyrir byggðalaginu. Hvort tveggja þurfi að vera skýrt í samningi við nýjan rekstraraðila. Sveitarstjóri og verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar munu fara yfir samninginn og önnur skyld mál með nýjum rekstraraðilum. Sveitarstjóri mun sjá til þess að gerð verði önnur úttekt á búnaði og öðrum innanstokksmunum sem tilheyra byggðalaginu.

g. Frekari aðstaða fyrir ferðamenn rædd og hvort ekki sé t.a.m. hægt að setja upp útigrill og borð og sæti við höfnina. Þar sé að finna skjólstæðan stað og gott útsýni. Sveitarstjóri mun taka það upp i Hafnarnefnd hvort hægt sé að setja upp aðstöðu í einverri mynd.

h. Hverfaráð lagði til hvort ekki væri vert að ráða sumarstarfsmann til að sinna tiltekt og öðrum tilfallandi verkefnum á vegum sveitarfélagsins. Sveitarstjóri taldi vert að kanna þann möguleika. Áður hefur verið reynt að fá einstakling í slík störf og þá einhvern búsettan á Bakkafirði. Sveitarstjóri lagði það til að Hverfaráð færi betur yfir aðkallandi verkefni á næstu fundum og að þau yrðu tekin inn í umræður um fjárhagsáætlun Langanesbyggðar

i. Hverfaráð hvatti til þess að stikaðar leiðir á svæðinu væru merktar með einhverjum hætti. Einnig mætti huga betur að mögulegum útivistarsvæðum eins og Stapavík.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?