11. fundur hverfisráðs Bakkafjarðar
27.09.2021 17:00
Fundargerð Hverfaráð Bakkafjarðar
Fundur í Hverfisráði Bakkafjarðar, haldinn mánudaginn 28. september 2021 kl. 17:00. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Skólagötu 5, Bakkafirði.
Mættir eftirtaldir nefndarmenn og varamenn: Gunnlaugur Steinarsson, Freydís Sjöfn Magnúsdóttir, Rósa Björk Magnúsdóttir. Forföll tilkynntu: Áki Guðmundsson, og Hafliði Jónsson.
Auk þess sátu fundinn: Jónas Egilsson sveitarstjóri og Gunnar Már Gunnarsson sem jafnframt ritaði fundargerð.
Dagskrá
- Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og samþykkt.
- Sveitarstjóri kynnti þau áform að Vegagerðin afhendi sveitarfélögum vegi, sem nefndir hafa verið skilavegir, og lagði fram kynningarbréf til Langanesbyggðar frá Vegagerðinni. Veghald á Hafnarvegi, vegi nr. 91-02, verður fært yfir til sveitarfélagsins eigi síðar en 1. janúar 2021 að uppfylltum nánari skilyrðum er varðar viðhaldsástand. Sveitarstjóri vakti athygli nefndarmanna á því að ekki liggi fyrir sérstakar fjárheimildir til Vegagerðarinnar til að standa straum af kostnaði við að koma skilavegum í það ástand sem skilgreint er í skýrslunni. Hverfaráð ræddi þessi áform og minnti á að áður hafi staðið til að Vegagerðin gerði gangstétt við umræddan kafla.
- Sveitarstjóri upplýsti nefndarmenn um áætlanir varðandi viðhald á girðingum. Búið er að kaupa staura og forstöðumaður þjónustumiðstöðvar Langanesbyggðar hefur verið beðinn um að setja sig í samband við þá einstaklinga sem líklegir eru til að geta tekið verkið að sér. Ráðgert er að koma staurum niður í jörð í haust, en þá verður hægt að setja víra á í vor og ekki þarf að bíða eftir því að frost fari úr jörðu. Þá hefur verið rætt um að setja upp hlið sem hægt er að hafa opið þegar fé hefur verið heimt af fjalli, og greiðir vonandi fyrir árstíðabundið far hreindýra á svæðinu. Hverfaráð minnti á mikilvægi þess að setja prílur niður sem víðast og merkja öll hlið, vegfarendum til áminningar um að loka á eftir sér.
- Hverfaráð fór yfir eigin verkefnalista sem hefur verið settur upp í lifandi skjal. Sveitarstjóri og verkefnisstjóri halda utan um skjalið og fylgjast með eftirfylgni. Forgangsröðun var ekki rædd að þessu sinni en verður rædd á næsta fundi. Hins vegar lagði Hverfaráð áherslu á að ekki mætti bíða frekar með að lagfæra hafnarlýsingu og ljósvita, enda um að ræða öryggismál. Hverfaráð bætti jafnframt við eftirfarandi verkefnum:
- Sinna viðhaldi þar sem götulýsing er orðin óvirk.
- Huga að aðventu- og jólalýsingu í tíma og tryggja að skreytingar séu heilar.
- Fara yfir tímasetningar á snjómokstri með verktaka og athuga hvort hægt sé að sinna mokstri á þeim tímum sem nýtast íbúum sem best.
- Hverfaráð fór yfir tillögur íbúa frá íbúafundi og lagði mat á forgangsröðun og ábyrgð. Í sumum tilvikum þarf að virkja frumkvæði íbúa, í sumum er það á hendi verkefnisstjóra Betri Bakkafjarðar (BB) að fylgja tillögum eftir, og aðrar tillögur snúa að þjónustu sveitarfélagsins. Eftirfarandi tillögur voru ræddar sérstaklega:
- Bætt aðstaða fyrir fuglaskoðun. Félagið Fuglastígur á Norðausturlandi hefur unnið að því undanfarin ár að efla fuglatengda ferþaðjónustu á svæðinu og því líklegur framkvæmdaraðili ef koma á upp fuglaskoðunarhúsi á svæðinu. Hugsanlegar staðsetningar voru ræddar, t.d. Landsendi, æðarvarp í Miðfirði, og Stapinn.
- Aðstaða fyrir handverk. Hverfaráð velti fyrir sér þörfinni og lagði til að gerð yrði þjónustukönnun þar sem spurt væri m.a. um áhuga íbúa á að selja handverk. Núverandi veitinga- og verslunarhús álitlegasta húsnæðið en þó gæti þurft að endurskoða rekstrarfyrirkomulag að einhverju leyti, og gera þá ráð fyrir að hluti þjónustunnar sé rekin út frá samfélagslegu sjónarmiðum.
- Gönguleiðir. Talsvert rætt um gönguleiðir og að bæta megi merkingar og aðkomu. T.a.m. sé aðkoma að Stapanum mjög erfið og þurfi að bæta.
- Ýmsar uppákomur. Hefð er fyrir skötukvöldum og þorrablótum og fleiri uppákomum. Hverfaráð taldi frumkvæði íbúa vera til staðar, nú þegar fjöldatakmarkanir hamla ekki. Sveitarstjóri ræddi möguleikann á því að halda, líkt og hefur verið gert áður, sem lið í því að auka samgang milli bygðarlaganna. Verkefnisstjóri BB beðinn um að kanna það betur. Aðrar hugsanlegar samkomur ræddar, t.d. alþjóðakvöld og félagsvist. Sveitarstjóri bauð fram aðstoð æskulýðs- og tómstundafulltrúi Langanesbyggðar og mun athuga hvort hann komist á næsta fund Hverfaráðs.
- Skógrækt. Frumkvæði íbúa mikilvægt og Skógræktarfélagið Lurkur hefur verið starfandi síðan 2000 en að einhverju leyti legið í dvala síðustu misseri. Hverfaráð benti á að byrja mætti á því að gróðursetja skjólbelti í kringum tjaldsvæðið og sú framkvæmd þyrfti ekki að útheimta mikla vinnu eða kostnað fyrir sveitarfélagið.
- Önnur mál:
- Sveitarstjóri spurður um hreinsun og frágang á tanganum þar sem braggi stóð áður. Sveitarstjóri fór yfir stöðuna.
- Drög að samfélagssáttmála rædd. Ekki hafa borist athugasemdir frá íbúum en sveitarstjóri og verkefnisstjóri BB munu fara yfir athugasemdir sem borist hafa frá fulltrúum Byggðastofnunar í verkefnisstjórn BB. Sveitarstjóri kynnti jafnframt framtíðarsýn varðandi sorpmál og mun lýsa henni betur í samfélagssáttmálanum. Allar breytingar verða kynntar fyrir Hverfaráði sem mun fara yfir lokadrög og samþykkja. Á það var bent að villa er í skjalinu þar sem talað er um sértækan byggðakvóta. Þar á að standa almennur byggðakvóti.
- Húsnæðismál rædd. Skortur á húsnæði er alvarlegur þröskuldur fyrir einstaklinga sem vilja flytja á Bakkafjörð, en húsnæði í byggðarlaginu er jafnframt vannýtt þegar horft er til hlutfalls fastrar búsetu. Ný húsnæðisstefna er í vinnslu hjá Langanesbyggð og mikilvægt að klára þá vinnu til að bæta úr þessari stöðu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:10.