13.fundur hverfisráðs Bakkafjarðar
Fundargerð Hverfisráð Bakkafjarðar
13. fundur í Hverfisráði Bakkafjarðar, haldinn mánudaginn 22. nóvember 2021 kl. 16:30. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Skólagötu 5, Bakkafirði.
Mættir eftirtaldir nefndarmenn og varamenn: Gunnlaugur Steinarsson (formaður), Freydís Sjöfn Magnúsdóttir, Rósa Björk Magnúsdóttir, Áki Guðmundsson í fjarfundarsambandi. Forföll tilkynntu: Hafliði Jónsson.
Auk þess sátu fundinn: Jónas Egilsson sveitarstjóri, Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson íþrótta- og tómstundafulltrúi, og Gunnar Már Gunnarsson verkefnisstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.
Dagskrá
1. Íbúafundur um vindorkuver.
Sveitarstjóri kynnti gögn og upptöku frá nýlega afstöðnum íbúafundi um hugsanleg vindorkuver í Langanesbyggð.
Hverfisráð ákvað að taka þetta málefni fyrir á næsta fundi.
2. Almennur og sértækur byggðakvóti.
Formaður leiddi umræður um almennan og sértækan byggðakvóta á Bakkafirði. Mikilvægt er að byggðakvóti á Bakkafirði sé nægilega mikill til að veiðar og vinnsla geti verið stundaðar út frá Bakkafjarðarhöfn því sem næst allt árið. Þá er æskilegt að sem mestum afla sé landað til vinnslu, einkum og sér í lagi frá aflaheimildum sem veittar hafa verið til stuðnings byggðarlaginu, enda beinlínis kveðið á um slíkt.
Hverfisráð mælti með því að farið verði yfir stöðu byggðakvóta á Bakkafirði og að frekari upplýsinga sé aflað hjá sérfræðingum Fiskistofu og Byggðastofnunar.
3. Kynning frá íþrótta- og tómstundafulltrúa.
Íþrótta- og tómstundafulltrúi Langanesbyggðar kynnti sig og ýmis yfirstandandi verkefni. Þá voru rædd möguleg verkefni á Bakkafirði og Hverfisráð hvatt til þess að eiga áframhaldandi samtal við íþrótta- og tómstundafulltrúa.
4. Önnur mál.
Hverfisráð ræddi götulýsingu og þá jafnframt jólalýsingu. Óskað eftir því að farið sé yfir lýsingu og gert við það sem laga þurfi.
Verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar kynnti framkvæmd á íbúa- og þjónustukönnun og óskaði eftir ábendingum og athugasemdum. Verkefnisstjóri sagði einnig frá því að opið væri fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Betri Bakkafjarðar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:10