Fara í efni

25. fundur skipulags- og umhverfisnefndar

09.04.2024 14:00

Fundur í skipulags- og umhverfisnefnd

25. fundur skipulags- og umhverfisnefndar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, þriðjudaginn 9. apríl 2024. Fundur var settur kl. 14:00

Mættir voru: Hildur Stefánsdóttir formaður, Þorsteinn Ægir Egilsson, Þorri Friðriksson, Sigtryggur Brynjar Þorláksson, Ina Leverkönen, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Formaður spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð – svo var ekki og fundur því settur.
Formaður óskaði eftir afbrigðum frá dagskrá og að „Umsagnir um Tungusel“ verði bætt við undir lið 5.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerð

1. Uppfært deiliskipulag hafnarsvæðis á Þórshöfn ásamt greinargerð
Breytingarnar sem gerðar eru í uppfærslu eru:
- Bryggjuvegur (á uppdrætti og greinargerð) (Bárugata tekin út)
- Tekin út hluti af grjótvörn við smábátahöfn á uppdrætti (í takti við bókun og umræður á íbúafundi).
- Smávægilegar villur sem Hildur benti á s.s. rangt ártal og Hlein er staðsett annarsstaðar.
Síðan var orðið „vinnslutillaga“ tekið út og sett orðið „tillaga“

Bókun um afgreiðslu: Nefndin gerir eftirfarandi athugasemdir við texta:

a) nafn á götu á að breyta í Bryggjuvegur.
b) að texti „víkjandi/til flutnings“ sé í textaskjali eins og það er merkt í uppdrætti.
c) Smábátabryggja sé teiknuð sem timburbryggja.
d) Ný starfsmannaaðstaða og skrifstofu Ísfélagsins vantar inn á teikningu.
e) leiðrétta stafsetningavillur bæði í uppdrætti og texta í skjali.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að auglýsa tillögu að nýju deiluskipulagi með ofangreindum athugasemdum.

Atkvæðagreiðsla með bókun; Fjórir samþykkja og einn situr hjá.

2. Drög að samningi um girðingu á Brekknaheiði ásamt afstöðumyndum og bréfi með afstöðu Brekknabænda til uppsetningu girðingar.
Vegagerðin hefur samþykkt að leggja girðingu meðfram veginum yfir Brekknaheiði samkvæmt meðfylgjandi drögum að samningi. Girða þyrfti báðu megin til að uppfylla samninginn vegna kröfu um bann við lausagöngu búfjár eða ráða búfjáreftirlitsmann til að halda veginum hreinum.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin tekur undir bókun sveitastjórnar á fundi þann 11. maí 2023 undir 9.lið þar sem eftirfarandi kemur fram:
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fer hér með formlega fram á að Vegagerðin girði meðfram veginum yfir Brekknaheiði jafnframt lagningu á nýjum vegi yfir hluta heiðarinnar. Sveitarstjórn mun í framhaldinu banna lausagöngu búfjár og friða svæði meðfram veginum frá gatnamótum að Þórshöfn að bænum Felli í Finnafirði.“

Samþykkt samhljóða.

3. Færsla vatnslagnar á Brekknaheiði vegna nýs vegar – yfirlit.
Færa þarf vatnslögn á Brekknaheiði vegna lagningu nýs vegar. Ekki liggur fyrir endanleg kostnaðaráætlun. Hins vegar segir í tölvupósti frá Vegagerðinni: „ Vegagerðin samþykkir að bera kostnað vegna tilfærslu vatnslagnar vegna framkvæmdanna á þeim stað sem merktur er á teikningu númer 1 (82-27_Færsla vatnslagnar-1.pdf). Þar mun nýtt vegsvæði Norðausturvegar liggja þvert yfir vatnslögnina utan núverandi veghelgunarsvæðis.

Hins vegar verður Vegagerðin því miður að hafna því að bera kostnað af tilfærslu lagnarinnar á þeim stöðum sem merktir eru á teikningum nr. 2 og nr. 3. (Ath. að á yfirlitsmynd eru tveir staðir merktir sem teikning 1 – en staðurinn lengst í austur ætti að vera merktur sem teikning 3). Í þeim tilvikum liggur vatnslögnin samhliða núverandi vegi í veghelgunarsvæði hans og við breikkun vegarins reynist nauðsynlegt að færa vatnslögnina. Vatnslögnin var sett niður í gildistíð eldri veglaga nr. 6/1977 en í þeim voru sambærileg ákvæði um veghelgunarsvæði og eru í núgildandi vegalögum. Hafi Vegagerðin veitt leyfi fyrir lögninni á sínum tíma verður ekki litið svo að í því hafi falist skuldbinding Vegagerðarinnar til að taka á sig kostnað þurfi að færa lögnina til, ekki frekar en nú þegar veitt eru leyfi fyrir lögnum í veghelgunarsvæði þjóðvega“.

Lagt fram til kynningar.

4. Bréf Vegagerðarinnar um eignaskerðingar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við NA veg um Brekknaheiði.
Vegagerðin hefur lagt fram greinargerð um eignaskerðingar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við NA veg. Einni drög að samningi um afsal lands úr landi Þórshafnarlands, Staðarsels og Sóleyjarvalla í Langanesbyggð.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir drögin fyrir sitt leiti og vísar málinu til sveitarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu.

Samþykkt samhljóða.

5. Gögn í vinnslu frá Sniddu Arkitektastofu með afstöðumyndum, teikningum og kortum af veiðihúsi við Tungusel.
Snidda Arkitektastofa hefur lagt fram afstöðumyndir, teikningar og kort vegna byggingu veiðihúss við Hafralónsá.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin tók fyrir innkomnar athugasemdir og samþykkir að kynna vinnslutillögu skipulagsins með þeim fyrirvara að ekki berist nýjar umsagnir frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun eða Fiskistofu sem gefi tilefni til umfangsmikilla breytinga á tillögunni. Nefndin óskar eftir gögnunum frá Sniddu á íslensku.

Samþykkt samhljóða.

6. Ný lóðablöð fyrir Langanesveg 1 og 1b í tengslum við gerð bílastæðis norðan lóðarinnar að Langanesvegi 1, ásamt afstöðumynd af bílastæði.
Gerð hafa verið ný lóðablöð fyrir Langanesveg 1 og 1b vegna fyrirhugaðs bílastæðis norðan Langanesvegar 1. Kvöð verður á lóðinni Langanesvegur 1 vegna innaksturs að bílastæði samkvæmt afstöðumynd.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir ný lóðablöð fyrir Langanesveg 1 og 1b og felur sveitarstjóra að skrá þau og gera nýja lóðasamninga við lóðahafa með þeirri kvöð sem kemur fram á lóðarblaði.

Samþykkt samhljóða.

7. Umsókn um byggingaleyfi fyrir bílskúr við Pálmholt 12
Umsókn um byggingaleyfi frá Ara Sigfússyni um byggingu bílskúrs við Pálmholt 12 á Þórshöfn.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti um leið og samþykki, frá lóðarhöfum sem tilgreindir voru í síðustu fundargerð um grenndarkynningu, hefur borist skrifstofu. Að því loknu verður málinu vísað til byggingafulltrúa.

Samþykkt samhljóða.

8. Bókanir Ungmennaráðs frá 3. fundi 15.03.2024
Ungmennaráð bókaði á síðasta fundi um:

a) Að fá að koma að vali á staðsetningu á hundasvæði.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin þakkar kærlega fyrir erindið. Eftir umfjöllun nefndarinnar var það niðurstaða að setja hundagerði norðan kirkjunnar við eins og merkt er nr. 2 á meðfylgjandi minnisblaði. Sveitarstjóra falið að senda formanni Ungmennaráðs minnisblaðið (skjal 08.1) og fá athugasemdir.

Samþykkt samhljóða.

b) Um umferðaröryggi í þéttbýli.
Sveitarstjóri hefur haft samband við Vegagerðina og málið er í vinnslu.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin þakkar kærlega fyrir erindið og tekur fram að hún er þegar farin að vinna í málunum.

Samþykkt samhljóða.

9. Önnur mál

     a) Erindi frá umhverfisfulltrúa.
      Lagt fram til kynningar.
      b) Salernismál á skálum.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til að þurr-kamar sé staðsettur í landi Skoruvíkur og staðsetning verður valin í samræmi við staðsetningu neyðarskýlis björgunarsveitarinnar.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 16:04

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?