28. fundur í skipulags og umhverfisnefnd
28. fundur skipulags- og umhverfisnefndar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu Langanesbyggðar þriðjudaginn 26. janúar 2021. Fundur var settur kl. 16:00.
Mættir voru: Jósteinn Hermundsson formaður, Kristján Úlfarsson, Hallsteinn Stefánsson, Aðalbjörn Arnarsson, Almar Marinósson (Vm) og Jónas Egilsson sveitarstjóri. Björn S. Lárusson skrifstofustjóri ritaði fundargerð.
Formaður setti fund og stjórnaði. Hann spurði hvort athugasemd væri gerð væri við fundarboð.
Áður en gengið var til formlegrar dagskrá spurðist formaður fyrir hvort sérstök ósk væri um annan fundartíma en þann sem verið hefur. Svo var ekki og var gengið til dagskrár.
Fundargerð
1. Deiliskipulag Miðsvæðis við Fjarðarveg á Þórshöfn
Tillaga að deiliskipulagi miðsvæðis við Fjarðarveg á Þórshöfn var auglýst frá 16. nóvember 2020 með athugasemdarfresti til 4. janúar 2021 í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir frá umsagnaraðilum gáfu tilefni til minniháttar breytingar á tillögunni. Lagður er fram uppfærður skipulagsuppdráttur með greinargerð dags. 26. janúar 2021.
Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir deiliskipulagsgögnin og vísar til endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.
2. Deiliskipulag íbúðabyggðar og miðsvæði vestan Langanesvegar
Tillaga að deiliskipulagi íbúðarbyggðar og miðsvæðis vestan Langanesvegar á Þórshöfn var auglýst frá 16. nóvember 2020 með athugasemdarfresti til 4. janúar 2021 í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir frá umsagnaraðilum gáfu tilefni til minniháttar breytingar á tillögunni. Lagður er fram uppfærður skipulagsuppdráttur með greinargerð dags. 26. janúar 2021.
Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir deiliskipulagsgögnin og vísar til endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.
3. Bókun og umræður í sveitarstjórn, 21. jan. sl. um skipulagsmál miðsvæðis
Svohljóðandi var fært til bókar á 121. fundi sveitarstjórnar:
„Almar lagði fram eftirfarandi bókun: Á sveitarstjórnarfundi nr. 115, 4 júní 2020 var eftirfarandi tillaga U listans samþykkt samhljóða: „Til máls tók Almar Marinósson og lagði fram svohljóðandi tillögu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að koma með tillögur að fagaðilum til þess að hefja hugmyndavinnu að framtíðar heildarskipulagi og hönnun miðsvæðisins á Þórshöfn. Vinna þarf málið í nánu samstarfi við skipulags og umhverfisnefnd. Með miðsvæði er átt við svæðið frá Langanesvegi 1 að Hafnarlæk í austri, og frá hafnarsvæði að Miðholti í norðri. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fara eftir fyrri samþykkt og koma á framfæri við sveitarstjórn á næsta fundi sveitarstjórnar.“
Til máls tóku sveitarstjóri, Siggeir, oddviti, sveitarstjóri, Siggeir, Mirjam, Almar.“
Bókun um afgreiðslu: Málið komið til vinnslu hjá skipulagsfræðingi sveitarfélagsins. Ákvörðun um framhaldið verður tekið þegar tillaga liggur fyrir.
Samþykkt samhljóða.
4. Tilhögun virkjunarkosts (vindmyllugarðs) innan jarðanna Eiðis I & II og Ártúns
Lögð fram greinargerð um tilhögun virkjunarkosts R4312A Austurvirkjun frá Zephyr Iceland, dags. í febr. 2020, um mögulegan vindmyllugarð innan jarðanna Eiðis I & II og Ártúns á Langanesnesi. Um er að ræða mögulega uppsett afl um það bil 50 MW í fyrsta áfanga og rúmlega 200 MW í framtíðinni.
Ákveðið að efna til fjarfundar með skýrsluhöfundi á næsta fundi nefndarinnar.
5. Umsókn björgunarsveitarinnar Hafliða um lóð við bæinn Vegamót
Lögð fram umsókn björgunarsveitarinnar Hafliða um lóð undir nýbyggingu sveitarinnar við bæinn Vegamót. Sótt er um 1500 m2 lóð þar af um 500m2 byggingarreit. Teikningar og afstöðumynd fylgja með. Einnig var minnisblað frá skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins með helstu samskiptum við Vegagerðina vegna málsins.
Málinu frestað til næsta fundar nefndarinnar.
6. Samantekt um ónýtar girðingar og hættulegar húsarústir
Samantekt um ástand ónýtra girðinga og eyðibýla, tekið saman af fulltrúa björgunarsveitarinnar Hafliða að beiðni sveitarstjóra. Hlutaðeigandi landeigendum verður sent bréf með áskorun um hreinsun ónýtra girðinga. Einnig lagt fram yfirlit um jarðir í Langanesbyggð með stöðu á úttekt frá 2019 á girðingum á eyðijörðum.
Fram kom í máli sveitarstjóra að eigendum eyðijarða á Langanesi verði sent bréf á næstu dögum, þar sem þeim er gert að fjarlægja ónýtar girðingar og rífa eða tryggja hættulegar húsarústir þannig að hvorki mönnum né dýrum stafi hætta af.
7. Kynning á efni ráðstefnu um landsskipulag
Kynningarefni frá ráðstefnu um landsskipulag sem haldin var 7. desember 2020, lagt fram.
8. Önnur mál
8.1. Breytingar á samþykktum Langanesbyggðar. Á 121. fundi sveitarstjórnar 21. janúar sl. var samþykkt svohljóðandi breyting á samþykktum sveitarstjórnar:
„1. gr.
3. töluliður B-liðar 49. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:
Skipulags- og umhverfisnefnd. Fimm aðalmenn og fimm til vara. Nefndin fer með hlutverk skipulagsnefndar skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt fer nefndin með verkefni sem varða verksvið sveitarfélagsins á sviði náttúruverndar, umhverfismála og framkvæmda á vegum sveitarfélagsins samkvæmt erindisbréfi. Skipulags- og umhverfisnefnd fer með fullnaðarákvörðun um matsskyldu framkvæmda þegar sveitarfélagið er sjálft framkvæmdaaðili.
2. gr.
Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur sett skv. ákvæðum 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.“
Skv. þessum breytingum tekur skipulags- og umhverfisnefnd fullnaðarákvörðun um hvort framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins sjálfs séu matskyldar.
8.2. Vorhreinsun. Samþykkt að auglýsa vorhreinsun í maí. Íbúar og fyrirtæki hvött til að fjarlægja ónýta bíla og annað óþarfa rusl af lóðum. Að öðrum kosti munu heilbrigðiseftirlitið koma þessum hlutum í geymslu og síðar farga. Eins verður fólk beðið um að fjarlægja gáma sem staðsettir eru íbúðahverfum og ekki hafa stöðuleyfi.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:15.