34. fundur, aukafundur
Fundur í skipulags- og umhverfisnefnd
34. aukafundur skipulags- og umhverfisnefndar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, þriðjudaginn 29. október 2024. Fundur var settur kl. 16:00.
Mættir voru: Hildur Stefánsdóttir formaður, Þorri Friðriksson, Ina Leverköhne, Helga Guðrún Henrýsdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Björn S. Lárusson og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Formaður spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð - svo var ekki. Formaður óskar jafnframt eftir að Gaukur Hjartarson byggingarfulltrúi Langanesbyggðar fengi að setja fundinn í fjarfundi til að svara spurningum.
Fundargerð
1. Umsókn um byggingaleyfi fyrir tengibyggingu og frystigeymslu á lóð Ísfélags hf. á Þórshöfn austan við núverandi frystigeymslu samkvæmt meðfylgjandi aðaluppdráttum og fylgiskjölum.
Ísfélag hf. sækir um byggingaleyfi samkvæmt meðfylgjandi gögnum.
Bókun nefndarinnar: Nefndin gerir athugasemd við að byggingaframkvæmdir hafi hafist áður en formlegt byggingarleyfi var afgreitt til byggingarfulltrúa.
Bókun um afgreiðslu: Ísfélag hf. óskar byggingarleyfis fyrir frystigeymslu og tengibyggingu á lóð sinni að Eyrarvegi 12 á Þórshöfn. Fyrir fundinum liggja aðalteikningar unnar hjá EFLU auk greinargerðar um brunavarnir. Skráður aðalhönnuður og hönnunarstjóri er Elís B. Eiríksson.
Fyrir liggja jákvæðar umsagnir Vinnueftirlits og Heilbrigðiseftirlits. Flatarmál frystigeymslu er 2.070 m² og tengibygging er 637 m². Nýtingarhlutfall lóðar eftir uppbyggingu verður 0,46. Meginburðarvirki húsa er stálgrind og þau klædd stálsamlokueiningum.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fyrirhugaðar byggingar séu í samræmi við ákvæði deiliskipulags sem samþykkt var í sveitarstjórn 28. ágúst 2024 og heimilar því byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir þeim þegar honum hafa borist fullnægjandi gögn þar að lútandi.
Nefndin setur sem kröfu sína að útlit hússins verði brotið upp á ásættanlegan máta að mati nefndarinnar. Því skal lokið eigi síðar en ári eftir að lokaúttekt fer fram.
Atkvæðagreiðsla: Með: Hildur, Helga, Þorri, Ina. Á móti: Þorsteinn.
Meðfylgjandi eru tölvupóstur frá Elis B. Eiríkssyni aðalhönnuði og hönnunarstjóra fyrir hönd Ísfélagsins vegna athugasemda nefndarinnar varðandi útlit:
Ágæta Skipulags- og umhverfisnefnd.
Á fundi Skipulags- og umhverfisnefndar þann 8. október velti nefndin upp hugmyndum um, litbrigði, lýsingu og jafnvel samkeppni um listskreytingu á norðurvegginn.
Tillögur eða hugmyndir að listaverki, lýsingu og eða litbrigðum eru ekki tilbúnar/frágengnar sem slíkar og því ekki hægt að senda til nefndarinnar að svo stöddu. En það er fullur vilji hjá Ísfélaginu að útfæra, kynna og vinna í hugmyndir áfram í góðu samráði við nefndina eins og kom fram í pósti til sveitarfélagsins þann 1. október síðastliðinn. Að sjálfsögðu verða tillögur kynntar og sótt um leyfi fyrir þeim áður þær verða settar upp eða gengið frá þeim. Í grunninn er þó miðað við að veggir frystigeymslu verði hvítir eins og lýst er í aðaluppdráttum og steyptir veggir bláir, það er grunntóninn sem lagt er upp með í byggingarleyfisumsókninni.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 16:45