Fara í efni

37. fundur skipulags- og umhverfisnefndar

21.01.2025 14:00

Fundur í skipulags- og umhverfisnefnd

37. fundur skipulags- og umhverfisnefndar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, þriðjudaginn 21. janúar 2025. Fundur var settur kl. 14:00
Mættir voru: Hildur Stefánsdóttir formaður, Ina Leverköhne, Sigtryggur Brynjar Þorláksson, Björn S. Lárusson sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustóri sem ritaði fundargerð.

Formaður spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð – svo var ekki og fundur því settur.

Fundargerð

1. Fundargerð 239. fundar heilbrigðisnefndar NE frá 05.12.2024.
Fundargerðin lögð fram.

2. Aðalskipulag Norðurþings - kynning tillögu á vinnslustigi.
Tekin fyrir beðni dags. 7. janúar um umsögn frá Norðurþingi við skipulagstillögu á vinnslustigi vegna endurskoðunar á Aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin gerir eftirfarandi athugasemd við framlagða vinnslutillögu;
Skipulagsmörk. Sveitarfélagamörk milli Langanesbyggðar og Norðurþings liggja um Ormarsá, teiknuð lína er þó nokkuð austar og fylgir Fjallgarði en ekki ánni og sýnir því ekki rétta skiptingu. Sveitarstjóra falið að koma á framfæri umsögn á skipulagsgátt.

Samþykkt samhljóða.

3. Deiliskipulag Suðurbæjar á Þórshöfn, skipulagsuppdráttur og greinargerð .
     03.1 Fornleifaskráning
     03.2 Húsakönnun suðurbæjar Þórshafnar.
Vinnslutillaga skipulagsins var kynnt 21. mars til 5. apríl 2024 þar sem óskað var eftir ábendingum frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Gerðar hafa verið nokkrar breytingar á skipulaginu m.a. til að koma til móts við þær ábendingar sem bárust á kynningartímanum, sjá umfjöllun í greinargerð skipulagsins undir kaflanum Skipulagsferill.
Lögð eru fram uppfærð skipulagsgögn frá Teiknistofu Norðurlands, uppdráttur og greinargerð tillaga dags. 9. janúar 2025. Einnig er lögð fram húsakönnun fyrir skipulagssvæðið og fornleifaskráning fyrir hafnarsvæði og suðurbæ Þórshafnar.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til að sveitarstjórn samþykki að auglýsa fyrirliggjandi tillögu skv. 1. mgr. 41.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

4. Tunguárvirkjun í Þistilfirði, breyting á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027, nýtt deiliskipulag – Skipulagslýsing dags. 2024.
Lögð fram skipulagslýsing unnin af Verkís vegna breytingu á aðalskipulagi og nýju deiliskipulagi vegna Tunguárvirkjunar í Þistilfirði.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til að sveitarstjórn samþykki að auglýsa fyrirliggjandi skipulagslýsingu í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslanga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

5. Langanesvegur 1 og 1b merkjalýsing 28.05.2024
Lögð fram merkjalýsing á lóðunum Langanesvegur 1 og 1b. Lóðahafar hafa samþykkt merkjalýsinguna.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við merkjalýsinguna og felur sveitarstjóra að gera lóðasamning á grundvelli merkjalýsingar.

Samþykkt samhljóða.

6. Hraunkot vegsvæði (Landnúmer L154818).
Vegagerðin óskar eftir heimild til að stofna spildu undir fyrirliggjandi vegsvæði úr landi Hraunkots. Meðfylgjandi er merkjalýsing dagsett 28. ágúst 2024 unnin af Ástu Guðrúnu Beck merkjalýsanda fyrir hönd Vegagerðarinnar.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir erindið og felur sveitarstjóra að undirrita vegna eignarhluta í Hraunkoti.

Samþykkt samhljóða.

7. Staðsetning grillaðstöðu á Þórshöfn og Bakkafirði.
Forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar hefur lagt fram tillögu um staðsetningu grillaðstöðu á tjaldsvæðinu á Bakkafirði. Áður var ákveðið að á Þórshöfn verði grillaðstaða í lundi við göngustíg skammt frá kirkjunni.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að grillaðstaðan sé staðsett á tjaldsvæðinu á Bakkafirði.

Samþykkt samhljóða.

8. Starf umsjónarmanns Hólmans í Þórshafnarhöfn.
Tillaga sveitarstjóra að Guðjón Gamalíelsson verði umsjónarmaður hólmans sem gerður var við dýpkunarframkvæmdir í Þórshafnarhöfn. Allar hugsanlegar framkvæmdir í og við hólmann skulu bornar undir nefndina. Starf umsjónarmanns er unnið í sjálfboðavinnu.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir tillögu sveitarstjóra um umsjónarmann fyrir hólmann í Þórshafnarhöfn.

Samþykkt samhljóða.

9. Umsókn frá Guðmundi Arasyni um byggingu gróðurhúss.
Guðmundur Arason Austurvegi 12 sækir um að fá að byggja gróðurhús – alls um 11.68m2 á lóð sinni. Meðfylgjandi er teikning af húsinu og staðsetning. Þvermál hringlaga húss er 3,861m.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir byggingu gróðurhússins á lóð umsækjanda enda er flatarmál þess undir 15m2. Nefndin vekur athygli á að ekki eru allar aðrar byggingar á lóðinni skráðar á fullnægjandi hátt. Byggingarfulltrúa falið að skoða málið.

Samþykkt samhljóða.

10. Erindi frá Náttúruverndarnefnd Þingeyinga.
Náttúruverndarnefnd Þingeyinga var skipuð í umboði Héraðsnefndar Þingeyinga bs. á grundvelli stofnsamnings byggðasamlagsins. Nú þegar því ferli lýkur að leggja niður Héraðsnefnd fer héraðsnefndin fram á að hvert og eitt sveitarfélag taki að sér hlutverk Náttúruverndarnefndar. Byggðaráð hefur lagt til að skipulags- og umhverfisnefnd taki þetta hlutverk að sér og að erindisbréfi nefndarinnar verði breytt í samræmi við það.
Til greina kemur samkvæmt Stjórnsýsluúttekt að breyta erindisbréfum allra nefnda þar sem sérstaklega verða skilgreind hlutverk, ábyrgð og umsjón.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd fellst á að náttúruverndarmál heyri alfarið undir nefndina og að erindisbréfi nefndarinnar verði breytt þannig að náttúruvernd komi þar undir lið um hlutverk nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða.

11. Merkjalýsing fyrir Bergholt – undirrituð.
Ný merkjalýsing á lóð Bergsholt á Bakkafirði hefur verið gerð vegna vandkvæða sem upp komu við lagningu frárennslis frá húsinu. Skipulagsfulltrúi hefur lagt fram nýja merkjalýsingu með þessum breytingum.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir nýja merkjalýsingu fyrir Bergholt á Bakkafirði og felur sveitarstjóra að undirrita hana og senda skipulagsfulltrúa til meðferðar.

Samþykkt samhljóða.

12. Ítrekað bréf til sveitarfélagsins um fráveitumál. (Suez).
Árið 2023 ritaði Ísfélag bréf til sveitarstjóra, hafnarnefndar og skipulagsnefndar um afköst á fráveitu Langanesbyggðar frá Ísfélaginu og ástandi við húsið Sand við Eyrarveg 8. Búið er að laga aðstæður við Sand þannig að regnvatn rennur ekki lengur í kjallara hússins, sem þó stendur til að rífa. Á fjárhagsáætlun 2024 voru áætlaðar 60 milljónir til framkvæmda við Suez en við ákvörðun sveitarstjórnar um framkvæmdir við höfnina og viðauka þeim tengdar var þetta framlag fellt úr fjárhagsáætlun þar sem ekki lá fyrir hvernig lagning frárennslis yrði með tilliti til framkvæmda á uppfyllingu.
Í upplýsingum sem sveitarstjóri hefur aflað sér (Samorka og lög nr. 9 / 2009 „Lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna“) kemur eftirfarandi fram: „Ef breyta þarf fráveitu vegna íveitu í hana s.br. 1. mgr. Skal sá er íveitunnar óskar greiða allan kostnað af breytingunni“ (2. mgr. 17. gr.) Samkvæmt upplýsingum Samorku þá beri fyrirtæki eða einstaklingar sem fara fram á meiri afköst á frárennsli allan kostnað af því, jafnvel uppsetningu á dælustöð þurfi að koma til þess.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd óskar eftir því við sveitarstjórn að þetta atriði verði tekið upp í fyrirhuguðum viðræðum við Ísfélag um framhald framkvæmda við höfnina.

Samþykkt samhljóða.

13. Veiðihús í landi Tungusels – Breyting á aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007 - 2027
Auglýsing á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 vegna Tungusels lauk þann 30. nóvember 2024. Umsagnir bárust frá Fiskistofu, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Vegagerðinni.
Lögð eru fram uppfærð skipulagsgögn þar sem brugðist hefur verið við þeim umsögnum sem bárust. Breytingar á skipulagsgögnum eftir auglýsingu kom fram í kafla 0. Breytingar í greinargerð skipulagsins.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 skv. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

14. Deiliskipulag veiðihúss í landi Tungusels.
     14.0 Deiliskipulagsbreyting – greinargerð
     14.1 Hafralónsá – samantekt umsagna
     14.2 Náttúrustofa Austurlands – mörk votlendis á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði vegna veiðihúss við Hafralónsá.
     14.3 Leyfi til framkvæmda frá Fiskistofu.
     14.4 Umsögn Hafrannsóknastofnunar vegna veiðihúss við Hafralónsá.
     14.5 Umsögn veiðifélags.
Auglýsing á tillögu að deiliskipulagi veiðihúss í landi Tungusels lauk þann 30. nóvember 2024. Umsagnir bárust frá Fiskistofu, Minjastofnun Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.
Lögð eru fram uppfærð skipulagsgögn þar sem brugðist hefur verið við þeim umsögnum sem bárust. Breytingar á skipulagsgögnum eftir auglýsingu kom fram í kafla 0. Breytingar í greinargerð skipulagsins.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki þannig breytta tillögu að deiliskipulagi fyrir veiðihús í landi Tungusels.

Samþykkt samhljóða.

15. Umsókn um nafnaleyfi (breytt nafn)
Reimar Sigurjónsson lóðarhafi á Felli, lóð F2170664 sækir um nafnabreytingu á fasteigninni. Núverandi nafn er Fell lóð en óskað er eftir að lóðin beri nafnið Smyrlafell.

Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir erindið.

Samþykkt samhljóða.

16. Merkjalýsing - Þorsteinsstaðir
Útskipting lóðar úr landi Þorsteinsstaða.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir merkjalýsinguna og felur sveitarstjóra að undirrita hana.

Samþykkt samhljóða.

17. Merkjalýsing – Sunnuvegur 12
Lögð fram merkjalýsing fyrir Sunnuveg 12.

Bókun um afgreiðslu: Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir merkjalýsinguna og felur sveitarstjóra að undirrita hana.

Samþykkt samhljóða.

18. Stjórnsýsluúttekt, uppfærð úttekt eftir athugasemdir ásamt innleiðingaáætlun.
Strategía hefur uppfært úttekt sína eftir nokkrar athugasemdir og lagt fram innleiðingaráætlun (framkvæmdaáætlun) í samræmi við þær tillögur sem koma fram í áætluninni.
Endurskoðuð skýrsla lögð fram og óskað eftir athugasemdum frá nefndarmönnum. Ráðgert er að leggja athugasemdir fyrir starfshóp og sveitarstjórn ekki síðar en á fundi sveitarstjórnar 27. febrúar. Athugasemdum verði komið á framfæri við sveitarstjóra.
Lagt fram til kynningar og skoðunar.

Bókun nefndarinnar: Nefndin stefnir að því að setja sér starfsáætlun að minnsta kosti ár fram í tímann.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 15:25.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?