107. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
107. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn í félagsheimilinu Þórsveri á Þórshöfn, fimmtudaginn 12. desember 2019. Fundur var settur kl. 17:00.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst varaoddviti, Halldór R. Stefánsson, Árni Bragi Njálsson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Elías Pétursson sveitarstjóri og Jónas Egilsson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fundinn og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.
Þar sem rafmagnslaust varð í byrjun fundar voru greidd atkvæði um hvort fundi skyldi framhaldið eða frestað. Samþykkt með sex atkvæðum að halda fundi áfram. Siggeir Stefánsson sat hjá.
Því næst var gengið til dagskrár.
Dagskrá
- Fundargerð 876. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. nóvember 2019
- Fundargerð 417. fundar stjórnar Hafnarsambands sveitarfélaga, dags. 18. nóvember 2019
- Fundargerðir 325., 326. og 327. funda stjórnar Eyþings, dags. 25. september, 23. október og 20. nóvember 2019
a) Fundagerð 16. fundar byggðaráðs 5. desember 2019
b) Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 9. desember 2019
- Eyrarvegur 12-16 – Ósk um breytt lóðamörk
- Eyrarvegur 12- 16 – Byggingarleyfisumsókn
- Staðfesting tilnefningar varafulltrúa í stjórn nýrra landshlutasamtaka
- Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála, dags. 21. nóvember 2019
- Niðurstöður útboðs á vátryggingum sveitarfélagsins
- Norðurhjari, Beiðni um styrk vegna Vestnorden- ráðstefnu 2019 – frá byggðaráði
- Fundaplan sveitarstjórna, byggðaráðs og nefnda 2020
- Leyfi sveitarstjóra
- Fjárhagáætlun 2020 og þriggja ára áætlun 2021, 2022 og 2023 – síðari umræða
- Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð 876. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð 417. fundar stjórnar Hafnarsambands sveitarfélaga, dags. 18. nóvember 2019
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerðir 325., 326. og 327. funda stjórnar Eyþings, dags. 25. september, 23. október og 20. nóvember 2019
Fundargerðirnar lagðar fram.
4. Fundagerð 16. fundar byggðaráðs 5. desember 2019
Fundargerðin staðfest.
5. Fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar 9. desember 2019
a) Liður 3 - Eyrarvegur 12-16 – Ósk um breytt lóðamörk
Til máls tók Siggeir Stefánsson og lýsti sig vanhæfan við afgreiðslu þessa liðar. Samþykkt.
Siggeir Stefánsson vék af fundi og Almar Marinósson sæti hans.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu nefndarinnar.
Samþykkt með sex atkvæðum gegn einu, Þorsteinn Ægir Egilsson greiddi atkvæði gegn.
Þorsteinn kvaddi sér hljóðs og gerði eftirfarandi grein fyrir atkvæði sínu: Það er mín skoðun að breyting á umræddum lóðarmörkum skuli fylgja þeirri endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis sem skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti undir lið 2 í framlagðri fundargerð og var afgreidd af byggðaráði á 16. fundi ráðsins þegar ráðið staðfesti fundargerð 6. fundar hafnarnefndar. Þess vegna greiði ég atkvæði gegn staðfestingu á afgreiðslu nefndarinnar.
b) Liður 4. - Eyrarvegur 12- 16 – Byggingarleyfisumsókn
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu nefndarinnar.
Samþykkt með sex atkvæðum. Þorsteinn Ægir sat hjá.
Almar vék sæti og Siggeir tók sæti á fundinum að nýju.
6. Staðfesting tilnefningar varafulltrúa í stjórn nýrra landshlutasamtaka
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn staðfestir tilnefningu Elíasar Péturssonar sveitarstjóra sem varamanns í stjórn nýrra landshlutasamtaka á Norðurlandi eystra.
Samþykkt samhljóða.
7. Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála, dags. 21. nóvember 2019
Lagður er fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfisnefndar, dags. 21. nóvember 2019, í kæru á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 21. mars 2018, á veitingu starfsleyfis fyrir urðun sorps á Bakkafirði.
8. Niðurstöður útboðs á vátryggingum sveitarfélagsins
Lagt fram minnisblað Consello, dags. 9. desember 2019, með niðurstöðum verðkönnunar á tryggingum fyrir Langanesbyggð.
Til máls tók Elías Pétursson.
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að ganga til samninga við lægstbjóðanda sem er vátryggingarfélagið Vís.
Samþykkt samhljóða.
9. Norðurhjari, Beiðni um styrk vegna Vestnorden- ráðstefnu 2019 – frá byggðaráði
Lögð fram beiðni frá Norðurhjara um styrk vegna kostnaðar samtakanna við þátttöku í Vestnorden ráðstefnunni 2019. Farið er fram á kr. 562.315. Málinu var vísað til sveitarstjórnar á 16. fundi byggðaráðs.
Bókun um afgreiðslu: Samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 562.315.
Samþykkt samhljóða.
10. Fundaplan sveitarstjórna, byggðaráðs og nefnda 2020
Áætlun funda sveitarstjórnar, byggðaráðs og nefnda fyrir árið 2020 lagt fram. Samkvæmt því er næsti fundur sveitarstjórnar 16. janúar nk. og byggðaráðs 30. sama mánaðar.
Til máls tók Siggeir Stefánsson.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða áætlun fyrir 2020.
Samþykkt samhljóða.
11. Leyfi sveitarstjóra
Vegna veikindaleyfis sveitarstjóra samþykkir sveitarstjórn að á tímabilinu 16. desember 2019 til 28. febrúar 2020 gegni Jónas Egilsson skrifstofustjóri störfum sveitarstjóra og að á sama tímabili fari hann með prókúru sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. samþykktar um stjórn Langanesbyggðar nr. 10/2019.
Samþykkt samhljóða.
12. Fjárhagsáætlun 2020 og þriggja ára áætlun 2021, 2022 og 2023 – síðari umræða
Til máls tók Elías Pétursson sveitarstjóri og fór yfir fjárhagsáætlun 2020 og 3ja ára áætlun 2021, 2022 og 2023 samhliða.
Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun 2020 verða tekjur um 956 m.kr. og gjöld rúmar 829 m.kr. Alls verður rekstrarniðurstaða án fjármagnskostnaðar því um 127 m.kr. í afgang af sameiginlegri rekstrarniðurstöðu A- og B-hluta, sem nemur um 13% af tekjum. Fjármagnskostnaður er áætlaður um 37,5 m.kr. eða sem nemur um 3,9% af tekjum. Rekstrarniðurstöður með fjármagnsliðum verða því um 89,8 m.kr. eða 9,4% af tekjum, en þær voru 86,2 m.kr. árið 2018. Afkoma samstæðunnar heldur því áfram að batna. Í samanburði við útkomuspá 2019 er gert ráð fyrir um 31,8 m.kr. hærri skatttekjum og um 18,5 m.kr. hækkun annarra tekna, en lækkun framlaga úr Jöfnunarsjóði. Launakostnaður hækkar um 1,5 m.kr., annar rekstrarkostnaður um 20,5 m.kr., en afskriftir breytast lítið.
Þriggja ára áætlun 2021-2023 gerir ráð fyrir svipuðum rekstri og verður rekstrarniðurstaða jákvæð árið 2021 um 84,2 m.kr., rekstrarniðurstaða árið 2022 jákvæð um 96 m.kr. og rekstrarniðurstaða árið 2023 verður jákvæð um 99 m.kr.
Samkvæmt áætluninni lækka skuldir á næsta ári, úr um 785 m.kr. í lok þessa árs í um 735 m.kr. Gert er ráð fyrir því að skuldir sveitarfélagsins verði komnar niður í um 592 m.kr. í lok áætlunartímabilsins, þ.e. í árslok 2023. Áætlað er að veltufjárhlutfall hækki úr 0,9 í árslok 2018 í 1,0 í árslok 2023 og eiginfjárhlutfall úr 0,55 í árslok 2018 í 0,67 í árslok 2023.
Fram kom í máli sveitarstjóra að eignfærðar framkvæmdir líðandi árs, rúmar 222 m.kr., hefðu verið fjármagnaðar með lántökum uppá 168 millj. kr. og lausu fé upp á 54 millj. kr. og að allar fjárfestingar sem fyrirhugaðar væru á komandi ári það er 2020 yrðu fjármagnaðar með lausu fé eða um 100 m.kr svo fremi að fjárhagsáætlun ársins gangi eftir.
Að lokum þakkaði sveitarstjóri starfsfólki sveitarfélagsins þeirra góða og óeigingjarna framlag á árinu sem er að líða.
Til máls tók Siggeir Stefánsson, Þorsteinn Ægir Egilsson. Elías Pétursson veitti andsvar.
Fjárhagsáætlun 2020 borin upp og samþykkt samhljóða.
Þriggja ára fjárhagsáætlun 2021 til 2023 borin upp og samþykkt samhljóða.
13. Skýrsla sveitarstjóra
Sveitarstjóri tók til máls og fór yfir það helsta sem í gangi hefur verið undanfarið og ekki
hefur verið getið á fundinum.
Langanesvegur 2 – Framkvæmdum við lóð er lokið og óhætt að segja að vel hafi til tekist, öllum þeim er að framkvæmdum við klæðningu húss og lóðarfrágang eru þökkuð vel unnin störf.
Hafnartangi 4, samfélagsmiðstöð – Þann 28. nóvember sl. var samfélagsmiðstöðin tekin í notkun með almennum fundi íbúa með sveitarstjóra, verkefnisstjóra og rekstraraðila. Á fundinum var farið yfir hugmyndir íbúa um starfsemi sem og hugmyndir að útfærslu á pöntunarþjónustu. Fundurinn var mjög góður og jákvæður andi yfir honum, fundarmenn voru sammála um að um þróunarverkefni væri að ræða og því ljóst að prufa þyrfti ýmislegt. Fyrst um sinn verður fastur opnunartími á fimmtudagsseinnipörtum og dagskrá spiluð af fingrum fram. Rekstraraðili tók að sér að útfæra pöntunarþjónustuna í samráði við íbúa.
Höfnin á Bakkafirði – Í óveðri undanfarinna daga hefur orðið verulegt tjón á hafnarmannvirkjum á Bakkafirði. Unnið er að lágmarks lagfæringum, mati á tjóni og úrlausn ýmissa verkefna.
Naust – Framkvæmdir við breytingar og lagfæringar á Nausti ganga vel og er rif nánast búið og uppbygging hafin.
Höfnin á Þórshöfn – Lokið er við að dýptarmæla höfnina og komu í ljós svæði sem ekki ná því dýpi sem upp er gefið. Ekki er um stór svæði að ræða og er nú unnið að því að fá Vegagerðina til liðs við sveitarfélagið í það verkefni að hreinsa laust efni úr höfninni og dýpka þar sem þess er þörf.
Að lokum vil ég nota þennan vettvang og óska sveitarstjórn og öllum Langnesingum gleðilegra jóla og þakka kærlega fyrir samskipti og samveru á árinu sem nú fer að ljúka.
Til máls tók Siggeir Stefánsson. Elías Pétursson veitti andsvar.
Fundargerðin upplesin og samþykkt samhljóða.
Oddviti tók til máls og þakkaði sveitarstjórn, starfsfólki og öðrum íbúum Langanesbyggðar gott samstarf á árinu sem er að líða og færði þeim bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ári.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:52.