Fara í efni

136. fundur, aukafundur í sveitarstjórn Langanesbyggðar

24.01.2022 17:00

Fundur í sveitarstjórn

136. fundur, aukafundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, mánudaginn 24. janúar 2022 og hann settur kl. 17:00.

Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Halldór Rúnar Stefánsson, Siggeir Stefánsson, Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.

D a g s k r á

1. Tillaga að sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Skilabréf og álit samstarfsnefndar – síðari umræða

Fundargerð

1. Tillaga að sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps. Skilabréf og álit samstarfsnefndar – seinni umræða

Inngangur

Í desember 2021 samþykktu sveitarstjórnir Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps að skipa samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna samkvæmt 1. mgr. 119. gr. sveitarstjórnarlaga.
Samstarfsnefnd hefur skilað áliti sínu til sveitarstjórna með skilabréfi dags. 13. janúar 2022.
Þorsteinn Ægir Egilsson var kjörinn formaður nefndarinnar og Sigurður Þór Guðmundsson varaformaður. Ákvörðun um formlegar sameiningarviðræður var tekin á grundvelli farsæls samstarfs sveitarfélaganna og könnunarviðræðna sem fóru fram á tímabilinu apríl-nóvember 2021. Í því ferli var sjónarmiða íbúa leitað á íbúafundum. Álit samstarfsnefndar er m.a. byggt á hugmyndum og ábendingum sem komu fram í því samráðsferli.

Álit samstarfsnefndar og helstu forsendur

Sveitarfélögin tvö hafa átt í farsælu samstarfi um langa hríð. Að mati samstarfsnefndar getur sameining þeirra skapað tækifæri til skilvirkari stjórnsýslu og þjónustu, auk þess sem tækifæri eru til frekari atvinnuþróunar og nýsköpunar. Vísbendingar eru um að fjárhagur sameinaðs sveitarfélags verði sterkur og fjárfestingageta meiri en hjá hvoru sveitarfélagi um sig, ekki síst með um 548 mill.kr. áætluðu sameiningarframlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Samstarfsnefndin leggur til að í stjórnskipulagi sameinaðs sveitarfélags verði nefnd sem fjalli sérstaklega um hagsmuni dreifbýlisins og landbúnaðarmál. Á þann hátt verði komið til móts við áhyggjur íbúa í dreifbýli af því að missa áhrif á ákvarðanatöku. Samstarfsnefnd tekur undir ábendingar íbúa um að nauðsynlegt sé að halda sérstaklega utan um jarðeignir sveitarfélaganna og nýta tekjur af þeim til að skapa tækifæri til styrkingar mannlífs, byggðar og atvinnutækifæra. Nefndin leggur til að stofnaður verði sérstakur sjóður í þeim tilgangi og hefur unnið tillögu að samþykktum fyrir slíkan sjóð.

Lagt er til að atkvæðagreiðsla fari fram 26. mars 2022 í báðum sveitarfélögunum. Jafnframt leggur nefndin til að samstarfsnefnd verði falið að undirbúa atkvæðagreiðslu og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum sveitarfélaganna.

Til máls tóku: Þorsteinn Ægir, Halldór R, Þorsteinn Ægir, Mirjam, Þorsteinn Ægir.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir að atkvæðagreiðsla um sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps fari fram 26. mars 2022 og felur samstarfsnefnd að undirbúa atkvæðagreiðsluna og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:12

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?