141. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar
141. fundur í sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2 Þórshöfn, miðvikudaginn 20. apríl 2022 settur kl. 17:00.
Mætt voru: Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti, Árni Bragi Njálsson, Halldór Rúnar Stefánsson, Jósteinn Hermundsson, Siggeir Stefánsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Almar Marinósson, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð.
Sigurjón Örn Arnarsson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG var í fjarfundarsambandi undir lið 1.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð. Svo var ekki.
D a g s k r á
- Ársreikningar árið 2021 – fyrri umræða
- Fundargerð 908. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 25. mars 2022
- Fundargerð stjórnar Markaðsstofu Norðurlands frá 4. apríl 2022
- Fundargerð 43. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 12. apríl 2022
- Fundargerð 28. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 5. apríl 2022
Liður 6: Fundur með Jóni Helga Björnssyni forstjóra HSN
Liður 8: Aðgengismál fatlaðra - Fundargerð 53. fundar byggðaráðs frá 8. apríl 2022
- Fyrirhugaðar framkvæmdir 2022 – frá byggðaráði
- Innkaupareglur, uppfærsla verðlags – frá byggðaráði
- Erindi 5. og 6. bekkjar grunnskólans, dags. 29. mars 2022
- Þakkarbréf frá forsetahjónum, dags. 1. apríl 2022
- Skýrsla umhverfisráðherra um hreinsun Heiðarfjalls
- Aðalfundur Veiðifélags Hafralónsár, dags. 23. apríl nk.
- Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Ársreikningur 2021 – fyrri umræða
Ársreikningur Langanesbyggðar 2021 lagður fram, ásamt sundurliðunum og drögum að endurskoðunarskýrslu. Sigurjón Örn Arnarsson löggiltur endurskoðandi sveitarfélagsins KPMG fór yfir helstu niðurstöður ársins.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 1.007 m.kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 782 m.kr. Álagningarhlutfall útsvars var 14,52% sem er lögbundið hámark. Álagningarhlutfall fasteignaskatts í A-flokki var 0,625% sem er lögbundið hámark með álagi. Í B-flokki var álagningarhlutfallið 1,32% sem er lögbundið hlutfall og í C-flokki var álagningarhlutfallið 1,65% sem er lögbundið hámark með álagi. Rekstrarniðurstaða A og B hluta sveitarfélagsins, samkvæmt ársreikningi A og B hluta, var neikvæð um 27 m.kr., en neikvæð fyrir A hluta um 24 m.kr. samkvæmt rekstrarreikningi, að teknu tilliti til 27 m.kr. afskrifta á framlagi til Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts á árinu 2021. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2021 nam 807 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A og B hluta, en eigið fé A hluta nam 514 m.kr.
Bókun um afgreiðslu: Ársreikningum Langanesbyggðar fyrir árið 2021 er vísað til síðari umræðu og afgreiðslu á næsta fundi sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.
2. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 908, dags. 23. mars 2022
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð stjórnar Markaðsstofu Norðurlands, dags. 4. apríl 2022
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð 43. fundar skipulags- og umhverfisnefndar, dags. 12. apríl 2022
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 28. fundar velferðar- og fræðslunefndar, dags. 5. apríl 2022
Liður 6: Fundur með Jóni Helga Björnssyni forstjóra HSN
Til máls tóku sveitarstjóri, Siggeir,Almar.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar leggur áherslu á að góð heilbrigðisþjónusta í sveitarfélaginu sé ein af grundvallarforsendum fyrir farsælli uppbyggingu byggðarlags í framtíðinni. Hún lýsir sérstakri ánægju með því bakvaktakerfi hjúkrunarfræðinga sem búið er við og mjög gott lið viðbragðsaðila sem á svæðinu eru. Sveitarstjórnin leggur mikla áherslu á að læknir sé með fasta búsetu á Þórshöfn. Rökin eru að oft á tíðum er vetrarfærð hér erfið og hér sé fjölmennasti byggðakjarninn á stóru svæði. Auk þess sem hér er hjúkrunarheimili og mjög fjölmennur vinnustaður sem kalli á örugga læknisþjónustu. Sveitarstjórn leggur enn fremur áherslu á að hér verði starfandi ljósmóðir í byggðarlaginu þegar sú sem gegnir þessu hlutverki lætur af störfum síðar á árinu. Þá er það mat sveitarstjórnar að mikilvægt sé að heilbrigðisyfirvöld sjái til þess að sérfræðingar heimsæki héraðið reglulega. Hér er t.d. átt við heimsóknir tannlækna, augnlækna, háls- nef og eyrnalækna, barnalækna svo dæmi séu tekin. Rökin eru einfaldlega að fjarlægðir séu miklar og mikill kostnaður fylgi oft tíðum ferðum íbúa til læknis um langan veg.
Samþykkt samhljóða.
Liður 8: Aðgengismál fatlaðra
Til máls tók sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að gera tillögu til byggðaráðs um hlutverk og verkefni aðgengisfulltrúa fyrir sveitarfélagið. Hlutverk aðgengisfulltrúa verði að gera tillögur um úrbætur um aðgengi fyrir fatlaða að manngerðu umhverfi á vegum sveitarfélagsins.
Samþykkt samhljóða.
6. Fundargerð 53. fundar byggðaráðs, dags. 8. apríl 2022
Fundargerðin lögð fram.
7. Fyrirhugaðar framkvæmdir 2022 – frá byggðaráði
Til máls tóku sveitarstjóri og Siggeir.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að hefja undirbúning 1. áfanga frárennslisáætlunar sveitarfélagsins 2022 sem er áætluð um 13.000.000 kr. Hér er átt við gerð útrásar neðan Fjarðarvegar. Einnig er samþykkt áætlun um allt að 20 m.kr. framkvæmdum í sumar skv. áætlun forstöðumanns þjónustumiðstöðvar Langanesbyggðar dags. 31. mars 2022. Sveitarstjóra er falið að gera tillögu að viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2022 vegna þessara framkvæmda fyrir næsta fund sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða.
8. Innkaupareglur, uppfærsla verðlags – frá byggðaráði
Til máls tóku sveitarstjóri og Almar.
Bókun um afgreiðslu: Þessum lið er vísað til næsta sveitarstjórnarfundar.
Samþykkt samhljóða.
9. Erindi 5. og 6. bekkjar grunnskólans, dags. 29. mars 2022
Lagt fram erindi frá börnum í 5. og 6.bekk Grunnskólans á Þórshöfn, dags. 29. mars 2022, með tillögum til úrbóta á leiksvæði barna við skólann.
Til máls tók Almar.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar erindið og fagnar framkomnum hugmyndum um úrbætur og vísar málinu til sveitarstjóra til nánari úrvinnslu og tillögugerðar.
Samþykkt samhljóða.
10. Þakkarbréf frá forsetahjónum, dags. 1. apríl 2022
Lagt fram bréf frá hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta og frú Elizu Reid þar sem þau hjón þakka fyrir móttökur og góðvild í þeirra garð við heimsókn þeirra þann 24. mars sl.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar þakkar þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid fyrir ánægjulega og góða heimsókn í byggðarlagið.
Samþykkt samhljóða.
11. Skýrsla umhverfisráðherra um hreinsun Heiðarfjalls
Skýrsla umhverfis-, orku- og auðlindaráðaherra um hreinsun Heiðarfjalls, þingskjal 899 – 642. mál lögð fram.
Til máls tók sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar fagnar framkominni skýrslu og tillögum um rannsóknir á umfangi spilliefna á Heiðarfjalli. Sveitarstjórn hvetur ráðherra til að hraða aðgerðum við þessar rannsóknir og lokum við hreinsun spilliefna af fjallinu eins og kostur er. Nokkuð ljóst er að þau hættulegu efni sem hafa verið urðuð á svæðinu geta lekið út á yfirborði og valdið umhverfinu, mönnum og skepnum jafnvel óbætanlegu tjóni. Enn fremur vill sveitarstjórn þakka dugnað og elju landeigenda og annarra sem að málinu hafa komið fyrir það að koma þessu máli áfram.
Samþykkt samhljóða.
12. Aðalfundur Veiðifélags Hafralónsár, dags. 23. apríl 2022
Lagt fram boð um aðalfund Veiðifélags Hafralónsár laugardaginn 23. apríl nk. kl. 14 í Svalbarðsskóla. Til máls tóku Almar, Þorsteinn og Jónas.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar fellst á, fyrir sitt leyti, framlagða tillögu um að niður falli 3. mgr. 3. gr. samþykkta Veiðifélagsins við Hafralónsá og þar af leiðandi sameiningu félagsins við Veiðideild Kverkár. Sveitarstjórn leggur til að nýtt arðsemismat fyrir hið sameiginlega vatnasvæði verði gert sjö árum eftir sameiningu félaganna.
Þá er samþykkt að sveitarstjóri verði fulltrúi Langanesbyggðar á fundinum og oddviti til vara.
Samþykkt samhljóða.
13. Skýrsla sveitarstjóra
Heimsókn forseta Íslands og konu hans þann 24. mars sl. til Langanesbyggðar var einstaklega vel heppnuð. Góð þátttaka var á þeim stöðum sem forsetahjónin heimsóttu og er áætlað að um 150 manns hafi mætt í kaffi með forsetanum í Þórsveri og um 30 manns í kaffisamsæti í félagsheimilið á Bakkafirði.
Í ljósi niðurstaðna íbúakosninga um sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps hefur undirbúningur sameiningar verið settur í gang, en innviðaráðuneytið hefur með auglýsingu frá 7. apríl sl. staðfest sameiningu sveitarfélaganna. Endurskoðendum Langanesbyggðar hefur verið falið að undirbúa sameiningu ársreikninga og fjárhagsáætlana sveitarfélaganna. Enn fremur þarf að gera árshlutareikning fyrir fyrstu fimm mánuði ársins, fram að sameiningu. Þá er hluta fjárstyrks Jöfnunarsjóðs vegna sameiningarinnar ætlað að fjármagna endurbætur á málaskráningarkerfi nýs sveitarfélags, en kröfur um vista- og skilaskyldu gagna eru orðnar nokkuð umfangsmeiri en það kerfi sem stuðst er við í dag hjá Langanesbyggð a.m.k. Þá þarf að skrá gögn og skila til Héraðsskjalasafns frá „gömlu“ sveitarfélögunum báðum.
Unnið er að gerð samninga við verktaka vegna viðgerða á Veri. Auglýst var eftir áhugasömum aðilum í einstök verk. Drög að samningum liggja fyrir við BJ Vinnuvélar og Dawid smið. Þá eru komin verð og tilboð í þakklæðningu og límtré. Leitað verður að tilboðum í efni yfir sundlaugarrými í sumar og haust en áætlaðar framkvæmdir þar verða á næsta ári. Unnið er skv. tímagjaldi og áætluðu umfangi vinnu. Kostnaður og áætlað umfang vinnu eru hingað til í samræmi við kostnaðaráætlanir. Stefnt er að því að vinna við aðstöðusköpun hefjist um mánaðarmótin næstu og undirbúningur þakviðgerða upp úr miðjum maí nk. Aðalvinna við þakviðgerðir verður síðan í júní og júlí nk.
Staða verkefnisstjóra við þróun atvinnu- fræðslu- og nýsköpunarseturs að Fjarðarvegi 5 verður auglýst til umsóknar í næstu viku. Starfslýsing og undirbúningsvinna var unnin í nánu samráði við SSNE og Þekkingarsetur Þingeyinga. Er vonast til að verkefnisstjóri geti hafið störf í sumar en frestur til að sækja um starfið er til 9. maí nk. Starfið verður fjármagnað með framlagi frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Öldungadeildarþingmaður frá Bremen, Dr. Claudia Schilling kemur ásamt föruneyti til Íslands í byrjun maí nk. Hún áætlar að heimsækja okkur miðvikudaginn 4. maí og skoða aðstæður við Finnafjörð. Með í föruneyti þingmannsins verður sendiherra Þýskalands hér á landi o.fl. Gert er ráð fyrir fundi með fulltrúum sveitarfélagsins og skoðunarferð ef veður leyfir.
Unnið er að því að taka saman svör við fyrirspurnum U-listans. Nokkrum fyrirspurnum hefur verið svarað á fundum og með upplýsingum á Teamssvæði sveitarstjórnar, eftir því sem hægt er. Því miður er ekki hægt að greina sérstaklega kostnað við stækkun skrifstofu umfram það að reikna kostnað út frá auknum fjölda fermetra. Fyrirspurn varðandi umfang kostnaðar við rekstur þjónustumiðstöðvar og forvera þess áhaldahússins krefst ítarlegrar skoðunar við, umfram það sem skrifstofan getur unnið samhliða öðrum verkefnum. Farið er fram á samanburð á rekstrarkostnaði tveggja mismundandi stofnana og því er beinn rekstrarlegur samanburður ekki raunhæfur. Hér eru t.d. mismunandi leiðir að framkvæmd útseldrar vinnu milli deilda, umfang þjónustu sem veitt er í dag í samanburði við það sem var. Þá hafa breytingar á starfsmannahaldi, veikindi o.fl. mikil áhrif á kostnað og þarf að tilgreina sérstaklega, umfram það sem gert er í bókhaldi sveitarfélagsins í dag.
Búið er að fjárfesta í nýjum skúr fyrir hafnarvörð á Bakkafirði, en beðið er tækifæris til að koma honum fyrir. Sumarverkefni fara að hefjast og er leitað að góðu fólki til starfa til þeirra verkefna. Unnið hefur verið að tengingum fráveitulagna við Langanesveg og undirbúningur vegna malbiksframkvæmda er í gangi.
Auglýst hefur verið eftir skrifstofustjóra þar sem Björn Sigurður Lárusson er að hverfa til annarra starfa. Umsóknarfrestur er til 24. apríl nk.
Til máls tóku Siggeir og Jónas.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 19.16.