18. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
18. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 17. ágúst 2023. Fundur settur kl. 17:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Þorsteinn Ægir Egilsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Júlíus Sigurbjartsson, Gunnlaugur Steinarsson, Karitas Ósk Agnarsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir og Björn S. Lárusson sveitarstjóri. sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð, svo var ekki og gengið til dagskrár.
Dagskrá
1. Fundargerð 14. fundar byggðaráðs Langanesbyggðar 20.07.2023
2. Framkvæmdir við Naust
02.01.01) Grunnreikningar
02.01.02) Útlitsteikningar
02.02.01) Verkáætlun
02.02.02) Verklýsing
02.03.01) Kostnaðaráætlun alls drög
02.04.01) Samningur um skrifstofuhús
02.05.01) Drög að samningi við d.p. smiður um verkið
02.05.02) Drög að samningin við Norðurlagnir
02.05.03) Drög að samningi við Víkurraf
02.05.04) Drög að samningi við Fagmál um málningu
3. Tillaga að stækkun og breytingum á Nausti – næsti áfangi, viðbygging.
4. Spurningar frá L-lista varðandi göngustíg
5. Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. Fundargerð 14. fundar byggðaráðs Langanesbyggðar 20.07.2023
Fundargerðin lögð fram
2. Framkvæmdir við Naust
02.01.01) Grunnreikningar
02.01.02) Útlitsteikningar
02.02.01) Verkáætlun
02.02.02) Verklýsing
02.03.01) Kostnaðaráætlun alls drög
02.04.01) Samningur um skrifstofuhús
02.05.01) Drög að samningi við d.p. smiður um verkið
02.05.02) Drög að samningin við Norðurlagnir
02.05.03) Drög að samningi við Víkurraf
02.05.04) Drög að samningi við Fagmál um málningu
Lagðar fram teikningar (grunn og útlit) ásamt verkáætlun, verklýsingu, drögum að kostnaðaráætlun, samningi um kaup á skrifstofuhúsi þar sem forstjóri og geymsla þurfa að fara af efri hæð á meðan á framkvæmdum stendur og samningar við þá verktaka sem taka verkið að sér. Undirbúningsframkvæmdir hófust í júní sl. og gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki 17. júní 2024.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrir sitt leiti þær áætlanir og samninga sem lagðir eru fram og heimilar sveitarstjóra að undirrita þá. Viðauki við fjárhagsáætlun verður lagður fyrir sveitarstjórn svo fljótt sem verða má þegar fyrir liggur hve stór hluti kostnaðar fellur á þetta ár.
Til máls tók: Sveitarstjóri
Samþykkt samhljóða
3. Tillaga að stækkun og breytingum á Nausti – næsti áfangi, viðbygging.
Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra, forstjóra Nausts og formanni velferðar- og fræðslunefndar að kanna og hefja undirbúning að eftirfarandi:
a) Stækkun Nausts um 4 – 8 þjónustu/leigu/íbúðir
b) Sameiginlegt rými fyrir íbúa.
c) Félagsaðstöðu fyrir eldri og yngri borgara í Langanesbyggð.
Starfshópurinn skili frummats skýrslu til sveitarstjórnar fyrir gerð fjárhagsáætlunar árið 2024 með drögum að þarfagreiningu og mati á hugsanlegum kostnaði.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomna tillögu þannig að ákvörðun um frekara framhald verði ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar 2024-2027.
Samþykkt samhljóða
4. Spurningar frá L-lista varðandi göngustíg
L-listi hefur lagt fram spurningar varðandi lagningu göngustígs norðan við kirkjuna. Sveitarstjóri varð fyrir svörum varðandi framkvæmdina og svaraði spurningum.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þorsteinn.
5. Skýrsla sveitarstjóra
Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk
Ég býð ykkur velkomin úr sumarfríi, þau sem hafa haft tækifæri til þess að taka frí. Sumir hafa varið tímanum og bróðurpartinum af sumrinu í Covid sem maður hélt satt að segja að væri úr umræðunni.
Loks geta framkvæmdir við breytingar á efri hæð Nausts hafist. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig að fá verktaka til að taka að sér hina ýmsu verkþætti því kunnugir segja að það sé margra mánaða bið eftir því að fá verktaka til að taka að sér verk og þá helst nýbyggingar frekar en viðhald og viðgerðir sem eru ekki á meðal vinsælustu verka. Við hefðum líklega verið í sömu sporum þó ákvörðun hefði legið fyrir nokkru fyrr vegna þessa ástands segja verktakar mér – það hefur jafnvel þurft að snúa upp á hendur nokkura til að taka viðkomandi verk að sér.
Í fyrstu verður allt kapp lagt á að vinna úti það sem þarf að gera þar, og snúa sér svo að þeirri vinnu sem þarf inni. Kaupa þarf sérstakt hús til að hýsa skrifstofu og geymslu á meðan á framkvæmdum innanhúss stendur. Það er sérstaklega ánægjulegt að það stefnir í að ekki verði látið staðar numið þegar þessum framkvæmdum lýkur og samþykkt hefur verið að skoða hugsanlega stækkun og enn meiri breytingar á húsnæðinu í framhaldinu eða jafnvel áður en núverandi framkvæmdum á að ljúka samkvæmt verkáætlun.
Sorpmálin eru annar málaflokkur sem við þurfum að drífa áfram, þó í raun sé enginn asi á okkur í þeim efnum í ljósi reynslunnar frá öðrum sveitarfélögum sem hafa lent í ýmsum hremmingum. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða val á leið til að fara eftir, skort á upplýsingum og ýmiskonar hnökrum í framkvæmd sem verður að segjast eins og er, stafa fyrst og fremst af því, að mjög margir hafa ekki verið vel undirbúnir. Við höfum samt lagt töluverða vinnu í að leita að hentugu húsi til að nota sem flokkunarstöð, verið að skoða kaup á pressu, kurlara og jafnvel lyftara til að minnka það magn af sorpi sem flytja þarf í burtu og spara þannig umtalsverða fjármuni en jafnframt þessu er verið að undirbúa skipulag á svæðinu þar sem húsið mun standa. Þessi vinna er mjög seinleg því við þurfum á sama tíma að fylgjast vel með því sem aðrir eru að gera og sjá hvar best gengur. Að auki erum við í samstarfi við SSNE um Svæðisáætlun fyrir Norðurland í sorpmálum. Þá er heimild fyrir ráðningu umhverfisfulltrúa sem mun taka til starfa um leið og grunnvinnu er lokið. Fyrst ég er kominn út í umhverfismál þá er vert að geta þess að nokkrir íbúar hafa haft samband við mig vegna blílhræja, báta og annarra hluta sem standa á svæðum sem ekki eru ætluð til slíkrar geymslu. Við erum með mjög ófullkomna skrá yfir þessa hluti sem þarf nauðsynlega að uppfæra. Þá hef ég verið spurður að því hvenær til standi að hreinsa og slétta úr haug af múrbrotum sem eru við syðri varnargarð hafnarinnar og eru lýti á innkeyrslunni eftir Fjarðarvegi. Því er til að svara að við munum fara í það fljótlega.
Annars erum við á skrifstofunni í hálfgerðri eilífðarvinnu, og ég má til með að minnast á það einu sinni enn. Það er mikil þolinmæðisvinna við að hnitsetja lóðir, gera lóðasamninga þar sem þeir hafa ekki verið til og jafnvel búa til lóðir við hús sem ekki hafa haft neinar lóðir hingað til. Þá er stórum lóðum skipt upp samkvæmt gömlum skjölum sem hugsanlega eru til á skrá hjá sýslumanni. Einn angi af þessu eru lóðir hér á Þórshöfn þar sem byggingar hafa fokið, verið rifnar eða brunnið. Í slíkum tilfellum þarf að útbúa „Samkomulag um skil á lóðum“ en það hefur ekki verið gert og á meðan er ekki hægt að þinglýsa lóðasamningum til nýs lóðahafa ef ekki næst í þann sem hafði lóðina síðast, en það getur verið æði langur tími síðan síðasti lóðasamningur var gerður.
Löndum og lóðum sem áður voru í eigu Skeggjastaðahrepps hefur verið unnið að því að þinglýsa yfir á nýja sveitarfélagið og nokkrar jarðir og lóðir í Svalbarðshreppi hafa verið hnitsettar og í sumum tilfellum breytt þar sem skarast hefur við önnur lönd og lóðir en það er aðeins í örfáum tilfellum. Allt er þetta svo undirbúningur og hluti af vinnu sem við þurfum að leggja í, en það er nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið í heild. Mikil vinna fer jafnan fram samhliða gerð nýs aðalskipulags. Í þessu sambandi má geta þess að tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir höfnina á Bakkafirði er tilbúið og verður það tekið fyrir á næstu fundum hafnarnefndar og skipulagsnefndar.
Það má geta þess að væntanlega tekur nýr ábúandi við að Hallgilsstöðum ef samningur við hann verður samþykktur. Hinn nýji ábúandi er grænlenskur, vel menntaður í búfræðum og hefur að sögn annarra góða reynslu og þekkir vel til á Íslandi. Hann er fjölskyldumaður og við óskum honum góðs gengis í framtíðinni – eins og ég sagði – ef samningur við hann verður samþykktur.
Að lokum minni ég á borgarafund starfshóps um orkumál, orkuöflu og hugsanlega friðlýsingu á Langanesi en fundurinn verður í Þórsveri nk. mánudag 21 ágúst kl. 16:00. Þar gefst gott tækifæri til að ræða orkumálin og hugsanlega friðlýsingu en hópurinn á að skila áliti í haust.
Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri.
Fundargerðin lesin upp, samþykkt samhljóða
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:25.