Fara í efni

25. fundur sveitarstjórnar

25.01.2024 13:00

Fundur í sveitarstjórn

25. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 25. janúar 2024. Fundur settur kl. 13:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Hulda Kristín Baldursdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Hjörtur Harðarson, Margrét Guðmundsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Júlíus Sigurbjartsson, Björn S. Lárusson og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

 

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 941 frá 12.01.2024
2. Fundargerð 57. fundar stjórnar SSNE frá 26.11.2023
3. Fundargerð 58. fundar stjórnar SSNE frá 06.12.2023
4. Fundargerð 59. fundar stjórnar SSNE frá 05.01.2024
5. Boðun á 29. Landsþings Samb. ísl. sveitarfélaga 14.03.2024
6. Fundargerð 20. Fundar byggðaráðs frá 11.01.2024
     06.0 Niðurfærsla hlutafjár og aukið hlutafé í Fjallalambi – Fræ ehf.
     06.1 Niðurfærsla hlutafjár og aukið hlutafé í Fjallalambi - Svalbarðshreppur
7. Fundargerð 21. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 16.01.2024
     07.0 Grófar hugmyndir að deiliskipulagi hafnarinnar frá EFLU
     07.1 Teikningar af fyrirhuguðum byggingu (hugmyndir).
     07.2 Punktar og athugasemdir varðandi skipulag hafnarinnar frá skipulagsnefnd.
8. Fundargerð 77. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 13.12.2023
9. Fundargerð 9. fundar Jarðasjóðs frá 21.12.2023
10. Fundargerð 459 fundar stjórnar hafnarsambands Íslands frá 08.12.2023
11. Erindi frá HSAM hópnum um tilnefningu í stýrihóp
12. Drög að samningi Langanesbyggðar og SSNE ásamt verklýsingu varðandi atvinnuuppbyggingu og innviði sem Innviðaráðuneyti veitti styrk fyrir.
13. Drög að rekstrasamningi á milli Langanesbyggðar og Þekkinganets Þingeyinga um rekstur Kistunnar ásamt frumdrögum að fjárhagsáætlun Kistunnar.
14. Tillaga um aukningu hlutafjár í Fjárfestingafélagi Þingeyinga í samræmi við erindi frá 28.04.2023.
      14.1 Fundargerð aðalfundar Fjárfestingafélags Þingeyinga fyrir 2023
      14.2 Ársreikningur Fjárfestingafélags Þingeyinga fyrir árið 2022
15. Erindi frá smábátafélaginu Fonti vegna grásleppuveiða dags. 14.12.2023
16. Breyting á samþykktum Langanesbyggðar samkvæmt stjórnsýsluendurskoðun.
17. Bréf frá Innviðaráðherra vegna heildarendurskoðunar á lagaumgjörð og úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs frá 09.01.2024
18. Fundartími sveitarstjórnar
19. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

 

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 941 frá 12.01.2024
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð 57 fundar stjórnar SSNE frá 26.11.2023
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 58 fundar stjórnar SSNE frá 06.12.2023
Fundargerðin lögð fram

4. Fundargerð 59 fundar stjórnar SSNE frá 05.01.2024
Fundargerðin lögð fram

5. Boðun á 29 Landsþings Samb. ísl. sveitarfélaga 14.03.2024
Þingið verður haldið í Silfurbergi í Hörpu 14. mars 2024.
Aðalfulltrúi er Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, varamaður er Þorsteinn Ægir Egilsson sveitarstjórnarmaður.

Bókun um afgreiðslu: Samkvæmt fundarboði og 5. og 8. greina samþykkta sambandsins sækir kjörinn fulltrúi þingið ásamt framkvæmdastjóra sveitarfélagsins sem er áheyrnarfulltrúi. Kjörinn fulltrúi er Sigurður Þór Guðmundsson oddviti og sækir hann þingið ásamt sveitarstjóra.

Samþykkt samhljóða.

6. Fundargerð 20. Fundar byggðaráðs frá 11.01.2023
     06.0 Bréf frá Fjallalambi hf. um niðurfærslu hlutafjár og aukningu á hlutafjár í eigu Fræ ehf.
     06.1 Bréf frá Fjallalambi hf. um niðurfærslu hlutafjár og aukningu á hlutafé í eigu Langanesbyggðar (áður Svalbarðshrepps).
Vísað til sveitarstjórnar af byggðaráði.

Fjallalamb hf. samþykkti á aðalfundi þann 4. desember að færa niður hlutafé félagsins og bjóða sveitarfélaginu (Fræ ehf. og Svalbarðshreppi, nú Langanesbyggð) að taka þátt í hlutafjáraukningu í kjölfar niðurfærslunnar. Réttur til hlutafjáraukningar er kr. 5.231.314.- Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson ,Björn Lárusson og Júlíus Sigurbjartsson

Bókun um afgreiðslu: Sveitarfélagið mun ekki nýta rétt sinn til hlutafjáraukningar.

Samþykkt samhljóða.

7. Fundargerð 21. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 16.01.2024  
     07.0 Grófar hugmyndir að deiliskipulagi hafnarinnar frá EFLU
EFLA hefur unnið grófar hugmyndir að breyttu deiliskipulagi hafnarinnar og kynnti þær á fundi með skipulagsnefnd og Ísfélaginu 23. janúar.

     07.1 Teikningar af fyrirhuguðum byggingum við höfnina (hugmyndir að stækkun).
Ísfélagið hefur sent sveitarfélaginu frumteikningar af fyrirhuguðum byggingum.

     07.2 Punktar og athugasemdir varðandi skipulag hafnarinnar frá skipulagsnefnd.
Formaður og varaformaður ásamt sveitarstjóra hafa sett fram meðfylgjandi punkta varðandi skipulagið og fjallað var um þá á 21. fundi nefndarinnar.
Til máls tók Björn Lárusson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur skipulags- og umhverfisnefnd að vinna málið áfram sem og hafnarnefnd. Þá felur sveitarstjórn sveitarstjóra að hefja kostnaðar- og framkvæmdamat á þeim tillögum sem unnið er eftir og áfangaskiptingu svo þær liggi fyrir við frekari ákvarðanatöku og kalla til sín þá ráðgjöf sem þarf til svo sem gleggstar upplýsingar liggi fyrir þegar kemur að afgreiðslu tillögunnar.

Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson, Þórarinn J. Þórisson og Sigurður Þór Guðmundsson.

Samþykkt samhljóða.

8. Fundargerð 77. fundar stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 13.12.2023
Fundargerðin lögð fram

9. Fundargerð jarðasjóðs frá 21.12.2023
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson og Björn Lárusson.

10. Fundargerð 459 fundar stjórnar hafnarsambands Íslands frá 08.12.2023
Fundargerðin lögð fram

11. Erindi frá HSAM hópnum um tilnefningu í stýrihóp
HSAM hópurinn óskar eftir því að sveitarstjórn tilnefni fulltrúa í hópinn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tilnefnir Ragnar Skúlason til að taka sæti í hópnum.
Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson, Sigurður Þór Guðmundsson og Björn Lárusson.

Samþykkt samhljóða.

12. Drög að samningi Langanesbyggðar og SSNE ásamt verklýsingu varðandi atvinnuuppbyggingu og innviði sem innviðaráðuneyti veitti styrk fyrir.
Í framhaldi af samningi sem sveitarfélagið hefur gert við innviðaráðuneytið um styrk til að skoða og styrkja innviði sveitarfélagsins á ýmsum sviðum, hefur verið leitað til SSNE um að taka verkið að sér og gera verkáætlun í samræmi við samninginn. SSNE leggur til starfsmann til verksins og mun viðkomandi hafa aðsetur í Kistunni þegar unnið er að hluta þeirra verkefna sem eru í verkefnalýsingu. Fyrir fundinum liggja drög að samkomulagi við SSNE ásamt verklýsingu í fylgiskjali og í fylgiskjali er einnig samningurinn við innviðaráðuneytið.
Til máls tóku Björn Lárusson, Sigurður Guðmundsson og Þorsteinn Ægir Egilsson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

13. Drög að rekstrasamningi á milli Langanesbyggðar og Þekkinganets Þingeyinga um rekstur Kistunnar.
Lögð eru fram drög að rekstrarsamningi á milli Langanesbyggðar og Þekkinganets Þingeyinga sem sveitarfélagið fékk til liðs við sig við stofnun Kistunnar. Einnig frumdrög að rekstraráætlun Kistunnar fyrir árið 2024. Í framhaldi af drögum að rekstrarsamningi mun sveitarstjóri leggja fram innan skamms, tillögur um framtíðarfyrirkomulag á stjórnun og eignarhaldi Kistunnar með uppstokkun í eignasjóði Langanesbyggðar. Sú tillögugerð er þegar hafin í samvinnu við endurskoðanda sveitarfélagsins.
Til máls tóku Björn Lárusson, Þorsteinn Ægir Egilsson og Þórarinn J. Þórisson

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann. Sveitarstjóra falið í samstarfi við verkefnastjóra Kistunnar að kanna frekar möguleika á tekjum eða styrkjum til starfseminnar í Kistunni.

Samþykkt samhljóða.

14. Tillaga um aukningu hlutafjár í Fjárfestingafélagi Þingeyinga. 
      14.1 Erindi frá Fjárfestingafélagi Þingeyinga frá 28.04.2023
      14.2 Fjárfestingafélag Þingeyinga, aðalfundargerð 2023
      14.3 Ársreikningur félagsins fyrir árið 2022

Þann 28. apríl 2023 sendi FÞ erindi til sveitarstjórnar Langanesbyggðar um stofnun eignarhaldsfélags innan FÞ um hlutafjáreign sveitarfélaganna. Sveitarstjórn Langanesbyggðar tók jákvætt í erindið um að leggja það hlutafé sem er í eigu sveitarfélagsins inn í eignarhaldsfélagið á 16. fundi sínum 11. maí s.l. . Það hefur tekið sinn tíma fyrir sveitarstjórnir að taka afstöðu um þátttöku og þá hvaða félög það vildi láta inn í eignarhaldsfélagið sem yrði hluti af FÞ. Við að leggja FÞ til hlutafé í eigu sveitarfélaganna styrkir það starfsemina auk þess sem fyrir liggur vilyrði frá Byggðastofnun um að leggja félaginu til hlutafé sem næmi allt að 39% af heildarhlutafé. Fyrir liggur að Langanesbyggð á 10,2% hlut í FÞ en óvíst er um hvert hlutfallið verður ef af þessu verður.
Hjá Langanesbyggð er um að ræða hluti félagins í Fjallalambi hf. að nafnvirði eftir niðurfærslu hlutafjár kr. 5.057.585.- og í Seljalax kr. 24.000.-. Þar að auki á Fræ ehf. hlutabréf í fyrirtækinu Skör ehf að nafnvirði kr. 2 milljónir, Drekasvæðinu ehf. kr. 500 þúsund og í Atvinnuþróunarfélaginu að nafnvirði kr. 1.233.418.-
Til máls tóku Björn Lárusson, Sigurður Þór Guðmundsson, Júlíus Sigurbjartsson og Þorsteinn Ægir Egilsson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir að sveitarfélagið auki hlut sinn í Fjárfestingafélagi Þingeyinga hf. Hlutafjáraukningin verður greidd með hlutabréfum í Fjallalambi hf. og Seljalaxi hf. og miðast við bókfært verð í ársreikningi 2022.
Skilyrði þess að áfram verði unnið að málinu er að Byggðastofnun komi að félaginu og eigi allt að 39% hlut.
Til máls tóku Júlíus Sigurbjartsson, Björn Lárusson og Þorsteinn Ægir Egilsson.

Samþykkt með 4 atkvæðum þeirra Sigurðar, Margrétar, Hjartar og Huldu. Þorsteinn, Þórarinn og Júlíus sátu hjá.

15. Erindi frá smábátafélaginu Fonti vegna grásleppuveiða dags. 14.12.2023
Smábátafélagið Fontur hefur sent sveitarstjórn bréf vegna samþykktar á aðalfundi félagsins um „Vinnsluskylda grásleppu“

Til máls tók Þorsteinn Ægir Egilsson og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar L-lista vilja þakka stjórn félagsins fyrir bréfið. Í bréfinu kemur eftirfarandi fram „Undirritaðir eru að sjálfsögðu tilbúnir að funda með sveitarstjórn sé þess óskað“.
Tillaga fulltrúa L-Lista: Sveitarstjóra falið að koma á fundi í janúar með forsvarsmönnum Fonts og kjörnum fulltrúum byggðaráðs til að fara yfir umrætt bréf.

Samþykkt samhljóða.

16. Breytingar á samþykkt Langanesbyggðar – fyrri umræða.
Við stjórnsýsluendurskoðun s.l. vor voru gerðar athugasemdir við 50. gr. samþykkta sveitarfélagsins. Þar var einkum átt við að ekki eru rétt tilteknar nefndir á vegum þess og skipan í þær auk þess sem nöfn eru ekki rétt. Sjá meðfylgjandi samþykktir þar sem breytingarnar eru merktar með rauðu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir eftirfarandi breytingar á samþykktum sveitarfélagsins frá 7. nóv 2022 samkvæmt stjórnsýsluúttekt sem gerð var vorið 2022 og 2023. Um er að ræða breytingar á 50. gr samþykkta og eru eftirfarandi:

Liður B 4: bætt er við orðunum „og dreifbýlisnefnd“
Liður C 1: Tekin eru út orðin „og dreifbýlisnefnd“ enda er sá málaflokkur fluttur í landbúnaðarnefnd .
Liður C 3: Liðurinn fer út þar sem ekki er grundvöllur fyrir sérstakri rekstranefnd fyrir Naust þar sem hjúkrunarheimilið var áður rekið í samvinnu við Svalbarðshrepp. Reksturinn heyrir nú beint undir sveitarfélagið, byggðaráð og sveitarstjórn líkt og aðrar stofnanir.
Liðir C 8, 9 og 10 koma nýir inn og eiga að vera í samþykktum samkvæmt stjórnsýsluendurskoðun. Breytingum á samþykktum vísað til seinni umræðu.
Til máls tóku Björn Lárusson og Sigurður Guðmundsson.

Samþykkt samhljóða.

17. Bréf frá Innviðaráðherra vegna heildarendurskoðunar á lagaumgjörð og úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs frá 09.01.2024
Innviðaráðherra hefur sent öllum sveitarstjórnum landsins bréf vegna heildarendurskoðunar á lagaumgjörð og úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs. Í bréfinu kemur fram að ráðherra hyggst fresta endurskoðuninni í ljósi niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í máli Reykjavíkurborgar á hendur ríkinu. Dómurinn felur í sér að Reykjavíkurborg fær úthlutað umtalsverðum fjármunum úr Jöfnunarsjóði og gæti það leitt til lækkunar á framlögum til allra sveitarfélaga næstu árin til að jafna stöðu sjóðsins.

Bréf ráðherra lagt fram til kynningar

18. Fundartími sveitarstjórnar
Breyting á fundartíma sveitarstjórnar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að frá og með næsta fundi verði fundir sveitarstjórnar framvegis haldnir kl. 14:00 á reglulegum fundartíma sveitarstjórnar á fimmtudögum.
Til máls tóku: Þorsteinn Ægir Egilsson, Sigurður Þór Guðmundsson, Júlíus Sigurbjartsson, Hulda Kristín Baldursdóttir

Samþykkt samhljóða.

19. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Tveir merkir samningar, að mínu viti, voru nú samþykktir á fundi sveitarstjórnar, annars vegar samningur við SSNE um að samtökin taki að sér það verkefni að greina stöðu atvinnu- og innviðamála og hins vegar vaxtatækifæri og mat á þeim hindrunum sem eru til vaxtar. Meðal þeirra verkefna sem sérstaklega er horft til eru orkumál en von er á skýrslu starfshóps um þau mál innan skamms, húsnæðismál, atvinnumál, hugmyndir um friðun á Langanesi, fjarskipti, Finnafjarðarverkefnið, fjárfestingar og fleiri verkefni sem snerta innviði í sveitarfélaginu. Samningnum fylgir verkáætlun. Þessi samningur er afrakstur samnings við innviðaráðuneytið þar sem veitur var styrkur til verkefnisins „Uppbygging innviða í Langanesbyggð“ til tveggja ára. Gunnar Már Gunnarsson sem var verkefnisstjóri „Betri Bakkafjarðar“ mun sinna þessu verkefni í samvinnu við sveitarstjóra og er sérstakur fengur að fá hann til verksins þar sem hann þekkir vel til.

Hinn samningurinn er samstarfssamningur Langanesbyggðar og Þekkingarnets Þingeyinga um rekstur Kistunnar á Þórshöfn. Í 2. gr. samningsins eru markmið hans nánar útfærð og hlutverk aðila hans í 3. gr. - Þessar greinar segja í raun það sem koma þarf fram í samskiptum aðila hans. Eftir samþykkt þessa samnings og þess, að láta hlutabréf frá Fræ ehf. inn í Fjárfestingafélag Þingeyinga mun sveitarstjóri fara i uppstokkun á eignasjóði og leggja bráðlega fram tillögu þess efnis. Þar er markmiðið og gert ráð fyrir að sérstök stjórn verði skipuð af sveitarfélaginu og Þekkingarnetinu fyrir félagið „Kistan – þekking og þróun ehf“.

Í síðustu viku var ég með viðtalstíma og viðveru á Bakkafirði en slíkir viðtalstímar hafa verið allt of fáir hingað til. Hér eftir verða þeir reglulega á hálfs mánaðar fresti a.m.k. yfir vetrartímann. Þó nokkrir nýttu sér þennan tíma til að ræða við mig um ýmis málefni sem snerta Bakkafjörð, samskipti við stjórnsýsluna og ekki síst um verkefnið „Betri Bakkafjörður“ en sem betur fer sat verkefnisstjóri með mér í flestum viðtölum. Það verður að segjast eins og er, að flestir voru með athugasemdir varðandi framkvæmdir og hugmyndir um styrkingu byggðar á Bakkafirði. Sumar réttmætar, aðrar byggðar á misskilningi eða skorti á upplýsingum til íbúa en þar verðum við að skerpa okkur. Athugasemdirnar vörðuðu framkvæmdir á Hafnartanganum, frárennslismál, leikvöll, ólykt frá urðunarstað, opnunartíma veitingastaðar, skilti í þorpinu og í tengslum við það, almenna leiðsögn og upplýsingar til ferðamanna um staðinn. Mér sýnist þróunin í heild vera í rétta átt þó alltaf megi betur gera. Hvað varðar stjórnsýsluna, viðhald og fjárfestingar gat ég svarað því til, að flest af því sem að okkur snýr í þeim efnum er í pípunum, eins og lagfæring á frárennsli, leikvöllur og fleira. Romi, verkefnisstjóri Betri Bakkafjarðar var til svara í þeim málum sem snerta hennar verkefni.

Í byrjun janúar hóf Jóhanna Herdís Eggertsdóttir störf sem launafulltrúi og gjaldkeri og léttir það töluvert á álagi sem verið hefur hjá okkur undanfarna mánuði. Þar að auki hefur það komið fram í athugasemdum endurskoðanda að sá eða sú sem samþykkir reikninga má ekki greiða þá. Nú höfum við komið til móts við þær athugasemdir aftur.

Í framhaldi af þessu er rétt að geta þess að mikið hefur verið um óskir um breytingar og hnitsetningar á lóðum og gerð lóðasamninga í framhaldi af því. Ég hef lagt á það áherslu að sveitarfélagið innheimti fyrir þessa þjónustu samkvæmt gjaldskrá enda er það skýrt að sá sem biður um hnitsetningu eða breytingu á skipulagi, lóðum, húsum eða fari í framkvæmdir greiði fyrir þá þjónustu þar sem sveitarfélagið þarf að kaupa sjálft þessa þjónustu frá bygginga- eða skipulagsfulltrúa.

Í apríl kemur Almar Marinósson til starfa á skrifstofu sem umhverfisfulltrúi og mun m.a. hafa það hlutverk í fyrstu að koma á nýju skipulagi sorpmóttöku, förgun og flutning sorps í samvinnu við sveitarstjóra. Í því sambandi þarf að endurskipuleggja sorpmóttökusvæði og fara þær framkvæmdir af stað í apríl en undirbúningur er í fullum gangi. Þá þarf að taka á ýmsum málum er varða skipulagt geymslusvæði fyrir gáma og geymslu á gámum, bátum og ýmsum hlutun utan skipulagðra geymslusvæða (sem hét áður stöðuleyfi) en skrá yfir það hefur ekki verið uppfærð í langan tíma. Hvað varðar sorpmálin þá erum við að nálgast það að aðeins um 40% tekna af sorphirðu, móttöku, förgun og flutningi standa undir útgjöldum en það er ekki heimilt. Í núverandi stöðu hefðum við að óbreyttu þurft að hækka sorpgjöld um yfir 100% en mörg sveitarfélög hafa hækkað þau gjöld umtalsvert að undanförnu. Með nýju skipulagi sorpmála eftir útboð er vonast til að jafnvægi verði náð í tekjum og gjöldum í þessum málaflokki innan 2 – 3 ára og að á Bakkafirði verði hægt að ná urðun vel niður fyrir 100 tonn þann tíma sem leyfilegt er að urða þar. En – þetta byrjar allt heima hjá okkur og því miður hefur borið nokkuð á því að íbúar hafa sett í grænu tunnuna sem er fyrir pappa og plast allskonar rusl sem ekki á heima þar og því hefur það sorp verið flutt áfram til förgunar en ekki í endurvinnslu eins og á að gera. Sveitarfélagið fær greitt frá úrvinnslusjóði fyrir það sem hægt er að endurvinna eins og pappa og plast. Það þarf að gæta þess sérstaklega að kynna breytingarnar vel, undirbúa þær vel og koma þeim upplýsingum á framfæri að það er allra hagur að flokka. Þetta er stórt verkefni en ekki óyfirstíganlegt og verður okkur öllum til góðs ef rétt er að staðið, en því miður sjáum við þess dæmi í öðrum sveitarfélögum að ýmis mistök hafa verið gerð og við ætlum að læra af þeim.

Í haust vöknuðum við upp við þann vonda draum að aðeins einn starfsmaður Langanesbyggðar var með réttindi við flugumsjón. Aðrir höfðu annað hvort ekki endurnýjað réttindi eða voru í veikindaleyfi. Við fengum gult ljós frá ISAVIA og svo aftur þegar þessi eini starfsmaður forfallaðist og ekki var hægt að lenda á Þórshöfn einn daginn. Ég átti fundi með framkvæmdastjóra innanlandsflugvalla hjá ISAVIA vegna þessa máls og fyrirhugaðs útboðs á fluginu sem mun fara fram á þessu ári þar sem samningurinn við Norland Air rennur út í lok árs. Viðbrögð okkar voru þau að staðgengill forstöðumanns Þjónustumiðstöðvar auglýsti eftir starfsmanni því heimild er fyrir einu stöðugildi þar í viðbót. Það bar þann árangur að nýr starfsmaður, Björn Muller kemur til starfa hjá Þjónustumiðstöðinni í apríl og mun sækja námskeið hjá ISAVIA. Einn starfsmaður hættir hugsanlega í vor og þá er laus önnur staða sem við þurfum að ráða í. Hvað varðar útboðið þá mun ég leggja fram gildandi samning við ISAVIA fyrir næsta fund byggðaráðs og minnisblað um óskir okkar varðandi þann samning. Í framhaldi af þessu öllu hef ég hug á að endurskipuleggja starfsemi Þjónustumiðstöðvar og endurskilgreina störf í samráði við forstöðumann. Þær hugmyndir verða lagðar fyrir sveitarstjórn bráðlega.

Framkvæmdir við Naust ganga nú samkvæmt áætlun eftir smá tafir í byrjun vegna aðfangakeðju og breytinga vegna brunavarna og aðstæðna á vinnustað. Nánari upplýsingar vegna þessa vonast ég til að geta lagt fram á byggðaráðsfundi 8 febrúar þegar verkfundargerðir verða lagðar fram.

Að lokum – stóra verkefnið. Hugmyndir um framkvæmdir við höfnina á Þórshöfn sem Ísfélagið fékk heimild til að leggja fram og EFLA er að vinna að breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi hafnarinnar vegna aukinna umsvifa og breytinga á starfsemi félagsins. Forsvarsmenn félagins, skipulags- og umhverfisnefnd og EFLA héldu kynningarfund í gær þar sem grófar hugmyndir voru kynntar. Þær hugmyndir voru sendar sveitarstjórn í uppfærðu skjali í morgun með smá breytingum. Framhald málsins kemur svo fram í bókun sveitarstjórnar við lið 7 – þar sem unnið verður áfram að málinu.

Til máls tóku Þorsteinn Ægir Egilsson og Björn Lárusson.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?